Skoðun

Frá degi til dags

Spegill, spegill, herm þú mér... Vitað er um gestir hátíðardagskrár á Austurvelli 17. júní sem höfðu sérstaklega gaman af orðum forsætisráðherra vors þegar kom að þeim kafla í háttíðarræðu hans þar sem fjallað var um Hannes Hafstein. Haft var á orði að ljóst mætti vera í hverjum forsætisráðherrann vildi spegla sig og þótti einhver merkja að hugur hans leitaði til þess sess sem honum væri ætlaður í sögunni. "Þótt mér vitanlega séu ekki til um það skriflegar heimildir, er næsta öruggt, að nemandi, sem þá var í efsta bekk Lærða skólans og gegndi embætti Inspectors Scholae, Hannes Hafstein, hefur verið viðstaddur báða atburðina og mjög sennilega borið, eins og skólapiltar gerðu, kistu Jóns eða Ingibjargar hluta af leið. Hannes átti síðar eftir að verða flestum skörungum meiri í húsinu, sem hornsteinninn var lagður að. Því fór þó fjarri, að hann ætti þar alltaf sæla daga, enda varð hann iðulega að sitja undir árásum og jafnvel ótrúlegum svívirðingum, þegar mestur hiti hljóp í leikinn," sagði Davíð í ræðu sinni, en líkt og Hannes gegndi hann eina tíð stöðu Inspectors Scholae, þá við Menntaskólann í Reykjavík, arftaka Lærða skólans. Svo bregðast krosstré sem önnur Það var eins og fólk vissi ekki hvaðan á sig stæði veðrið í morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun þegar margítrekað var að kíkja ætti í blöðin, en þó bara Fréttablaðið og DV, því Morgunblaðið hefði ekki borist enn. Síðan hefur væntanlega runnið upp fyrir dagskrárgerðarfólki ljós þegar leið á daginn og ljóst var að ekkert blað kæmi út, daginn eftir 17. júní. Veltir fólk þá fyrir sér hvort þarna sé stefnubreyting frá því sem ákveðið hafði verið um fjölgun útgáfudaga blaðsins og Hallgrímur B. Geirsson, framkvæmdastjóri Árvakurs hf. minntist lauslega á sl. haust, þegar kynnt var ákvörðun um að birta smáauglýsingar í blaðinu.



Skoðun

Sjá meira


×