Skoðun

Frá degi til dags

Hallur í Álverið Í byrjun þessa árs auglýsti Álverið í Straumsvík (Alcan á Íslandi) eftir "áhugasömum og hæfum einstaklingi" til að rita sögu félagsins. Var það gert í tilefni af því að senn eru liðin fjörutíu ár frá því að fyrirtækið hóf fyrst starfsemi hér á landi. Óvenjulegt er að fyrirtæki auglýsi eftir söguritara með jafn áberandi hætti og þarna var gert. Sagnfræðingafélagið veitti auglýsingunni athygli og mun hafa hvatt félagsmenn sína til að bera sig eftir verkefninu, enda væri um áhugavert efni að ræða og ekki spillti fyrir að jafn öflugt fyrirtæki væri ólíklegt til að skera ritlaun við nögl. Nú hafa stjórnendur Álversins gert upp hug sinn. Fyrirtækið taldi söguritunina ekki við hæfi sagnfræðings heldur fagmanns með aðra hæfileika. Réð það Hall Hallsson til verksins. Hann hefur áður skrifað fyrirtækjasögu, sögu Olís, sem út kom fyrir tveimur árum. Bensín og samkeppni Víða um bæ velta menn fyrir sér samkeppni olíufyrirtækja á bensínmarkaði. Á landsbyggðinni er þungt í fólki hljóðið og halda því sumir fram að landsbyggðarfólk niðurgreiði bensín borgarbúa vegna samkeppni sem þar ríkir. Hvað sem satt og rétt er í þeim efnum leynir verðmunurinn sér ekki, en hann er sagður allt að því 20 prósent á því sem ódýrast er á höfuðborgarsvæðinu og svo aftur á fjarlægum stöðum úti á landi. Höfuðborgarbúar geta þó líka látið bensínverðið fara í skapið á sér og fjargviðrast sumir á þeim mun á bensínverði sem er á milli Reykjavíkur og Kópavogs. Þar tala sumir um að ef fara þurfi yfir lækinn hvort eð er til að ná sér í eldsneyti, þá sé nokkuð ljóst að kaupin verði gerð hjá þeim olíusalanum sem stuðlar að samkeppninni. Skipti þá litlu máli hvort eitthvert "gömlu" olíufélaganna bjóði 10 aurum betur á hvern bensínlítra sem keyptur er.



Skoðun

Sjá meira


×