Sport

Danir á toppi C-riðils

 Danir skutu sér á topp C-riðils Evrópumótsins í fótbolta í dag þegar þeir lögðu Búlgara að velli, 2-0, í Braga. Danir léku sér að Búlgörum eins og köttur af mús, voru mikið meira með boltann og sköpuðu sér fjölda færa. Eina framlag Búlgara í þessum leik var öflug spjaldasöfnun en liðið fékk alls sjö gul spjöld og eitt rautt. Jon Dahl Tomasson kom þeim yfir á 44. mínútu eftir frábæra sókn Dana sem endaði með því að Martin Jörgensen gaf á Tomasson sem renndi boltanum í autt markið. Jesper Grönkjær gulltryggði síðan sigurinn með marki þegar komið var framyfir venjulegan leiktíma eftir fallegt samspil við Jon Dahl Tomasson. Þá voru Búlgarar orðnir einum manni færri eftir að fyrirliði þeirra, Stilian Petrov fékk að líta rauða spjaldið fyrir nöldur. Búlgarar eru úr leik í mótinu, hafa tapað báðum sínum leikjum með markatölunnni 0-7 og tróna aðeins á toppnum í einu atriði, spjaldasöfnun. Danmörk-Búlgaría 2-0 1-0 Jon Dahl Tomasson (44.). 2-0 Jesper Grönkjær (90.). Skot: 15-5 Hlutfall tíma með boltann: 59%-41%.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×