Skoðun

Þrjár tengdamæður

Björn Þór Sigurbjörnsson skoðar hjónabönd og skilnaði Eitt þúsund sextíu og tveir einstaklingar urðu einhleypir á ný á síðasta ári samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Fimmhundruð þrjátíu og einn lögskilnaður varð sumsé á árinu og er það ámóta fjöldi og síðustu ár og áratugi. Sjálfsagt liggja margvíslegar ástæður að baki þessum skilnuðum og eflaust voru þeir allir óumflýjanlegir. Það gengur náttúrulega ekki að búa í ómögulegu hjónabandi. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar entust 75 af þeim hjónaböndum sem lauk á síðasta ári í tvö ár eða skemur. 89 entust í þrjú til fimm ár og 90 í sex til níu ár. 128 þessara hjónabanda lauk hins vegar eftir að hafa staðið í 20 ár eða meira. Aðrar bráðabirgðatölur sýna að ein kona (já, eða stúlka) sem skildi lögskilnaði á síðasta ári var á aldursbilinu 15 til 19 ára og 30 voru á bilinu 20 til 24 ára. Enginn karl (piltur) á yngsta aldursskeiðinu skildi en sjö á bilinu 20 til 24 ára. 39 karlar, sextugir eða eldri, skildu á síðasta ári og 18 konur á sama aldursbili. Samkvæmt þessu skilur fólk á öllum aldri og eins er allur gangur á því hversu lengi hjónaböndin endast. Bráðabirgðatölur sýna ennfremur að 11 stúlkur á aldrinum 15 til 19 ára gengu í hjónaband á síðasta ári og þrír piltar á sama aldursskeiði. 205 konur á aldursbilinu 20 til 24 ára gerðu slíkt hið sama og 108 karlar. 24 konur sextugar eða eldri giftu sig og 43 karlar. Samkvæmt þessu giftir fólk sig á öllum aldri. Sjálfur hef ég hvorki kvænst né skilið en hef, samkvæmt fljótlegri samantekt í huganum, verið viðstaddur tíu brúðkaup um ævina. Sex þessara hjónabanda lifa, fern hjón eru hins vegar skilin að skiptum. Ýmist í góðu eða illu, eins og sagt er. Og það er sérkennilegt að hugsa til athafna þeirra hjóna sem ekki náðu að tolla saman. Fallegu kjólarnir, orð prestanna, lágróma jáin, hrísgrjónaregnið, kræsingarnar í veislunum, ræður feðranna, heillaóskirnar. Án þess að ég ætli að gerast einhver sérfræðingur í hjónaböndum þá væri nú óskandi að fólk reyndi frekar að skilja hvert annað í stað þess að skilja við hvert annað. En það er kannski meinið eftir allt saman. Þegar fólk er loksins farið að skilja hvert annað þá skilur það. Væri þá ekki ráð að kynnast ögn betur áður en stormað er í kirkjurnar og tékka hvort viðkomandi eigi einhverja samleið í lífinu? Eða er kannski í fínu lagi að skilja? Er tími hinna stuttu hjónabanda runninn upp og það fyrir löngu? Þar sem meðalmaðurinn á að baki þrjú hjónabönd áður en yfir lýkur. Þrjú lágróma já. Þrjár veislur. Þrjár tengdamæður. Brúðhjónum ársins 2004 óska ég gæfu og velfarnaðar.



Skoðun

Sjá meira


×