Skoðun

Gunga og drusla

Það er gömul og ný saga að "hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það". Það gildir t.d. um talsmáta þeirra sem mest eru áberandi í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Hann smitar út frá sér. Ástþór Magnússon forsetaframbjóðanda hefur undanfarna daga verið að leita að Ólafi Ragnari Grímssyni til að fá hann til þátttöku í kappræðum í sjónvarpi. En þegar Ástþór er annars vegar virðist jörðin hafa gleypt forsetann. Í gær greip Ástþór til þess að senda frá sér opið bréf til forsetans með yfirskriftinni Ertu "gunga" og "drusla"? Kemst hann þar svo að orði: "Svo vísað sé til frægra ummæla af Alþingi sem féllu fyrir nokkrum vikum frá samherja þínum í pólitík, spyr ég nú hvort þú sért sú "gunga og drusla" að þora ekki að mæta mér í umræðuþætti og ræða synjun forseta að skrifa undir svokölluð "fjölmiðlalög". Þetta mál hlýtur að vera það stærsta í yfirstandandi kosningabaráttu, því í kjölfar ákvörðunar þinnar að skrifa ekki undir "fjölmiðlalögin" hafa risið upp háværar raddir um breytingar á stjórnarskrá varðandi málskotsréttinn og jafnvel rætt að leggja beri forsetaembættið niður. Hér er alvarlega vegið að embættinu í kjölfar þess dómgreindarleysis sem þú hefur sýnt í embætti". Staksteinar aftur Staksteinar Morgunblaðsins hafa verið endurvaktir fyrir þjóðmálaskrif eftir að hafa verið tilvitnanasafn um árabil. Er ástæða til að gleðjast yfir því enda var þessi þáttur forðum daga oft skemmtilegt lesefni blaðsins, þótt hann hafi að vísu ekki verið það málefnalegasta sem blaðið bauð upp á. En það er svo tímanna tákn að hinir nýju Staksteinar eru ekki notaðir til að "skjóta á" vinstri menn og "kommúnista", enda eru þeir víst flestir horfnir af sjónarsviðinu, heldur vondu kaupmennina í Baugi og "búðarþjóna" þeirra á Norðurljósum. Í fyrradag var það Stöð 2 sem var tekin í kennslustund í blaðamennsku og í gær Fréttablaðið - hvort tveggja af hinu alkunna lítillæti Morgunblaðsmanna.



Skoðun

Sjá meira


×