Skoðun

Í fótspor Hannesar

Öllu gamni fylgir nokkur alvara. Þegar Davíð Oddsson forsætisráðherra opnaði sögusýningu í Íslandsbanka í Lækjargötu á mánudaginn rifjaði hann upp að Hannes Hafstein hefði orðið bankastjóri í Íslandsbanka gamla þegar hann lét af ráðherraembætti 1909. "Þetta er rétt að hafa í huga þegar menn hætta svona störfum," sagði Davíð samkvæmt frásögn Morgunblaðsins í gær. Bjarni Ármannsson bankastjóri "sló á létta strengi" að sögn blaðsins og kvaðst vera "mun órórri" eftir ræðu Davíðs og "hans framtíðaráform". Fróðlegt verður að fylgjast með hvort þessi gamanmál muni hafa áhrif á verð hlutabréfa í bankanum á næstunni - og þá í hvaða átt. Tilraunasíða Enn bólar ekkert á heimasíðu forsetaembættisins á netinu sem boðuð var í viðamikilli úttekt á forsetanum í Tímariti Morgunblaðsins fyrr á þessu ári. Er forsetaembættið nú eina opinbera embættið á Íslandi sem ekki heldur úti vefsíðu og gefur ekki upp nein tölvupóstföng. Allar fréttatilkynningar frá embættinu til fjölmiðla koma annað hvort í bréfapósti eða á faxi. Þykir mörgum þessi forneskja einkennileg í ljósi þess að Ólafur Ragnar lagði mikla áherslu á nútímavæðingu forsetaskrifstofunnar þegar hann tók við embætti fyrir átta árum. Talaði hann sérstaklega um opnun heimasíðu. Til að sýna áhuga sinn festi hann sér veffangið forseti.is og hefur embættið samviskusamlega greitt af því gjöld öll árin. Gallinn er bara sá að á síðunni er ekkert efni að finna og hefur ekki verið í átta ár. Þar segir aðeins "Tilraunasíða".



Skoðun

Sjá meira


×