Erlent

Líklega yfir 100 þúsund látnir

Fátt gefur ástæðu til bjartsýni við Indlandshaf, tala látinna hélt áfram að hækka í gær og var kominn í 77 þúsund. Yfirvöld á flóðasvæðunum búast við að talan fari upp í hundrað þúsund áður en langt um líður. Þá er vitað um hálfa milljón manns sem hafa slasast. Eyjan Súmatra í Indónesíu sem var hvað næst upptökum skjálftans er nánast öll í rúst. Talið er að um tíu þúsund hafi látist þar og er þá áætluð tala fallinna í Indónesíu komin upp í 55 þúsund. Þetta er líklega mannskæðasta flóðbylgja í sögunni. Tuga þúsunda er enn saknað og Rauði krossinn telur að mannfallið muni aukast. Pete Ress, aðgerðastjóri Rauða krossins, segir að það kæmi sér ekki á óvart ef rúmlega hundrað þúsund manns hefðu fallið í valinn. "Við eygjum ekki mikla von, fyrir utan kannski einstök kraftaverk," segir Jean-Marc Espalioux, formaður hótelkeðjunnar Accor ,um þær þúsundir ferðamanna sem leitað er að meðfram ströndum Taílands. Þar af eru um tvö þúsund Norðurlandabúar. Fréttamenn flugu yfir Súmötru og sáu lítið lífsmark nema á ströndinni þar sem eftirlifendur leituðu að einhverju ætilegu. Rúmlega þúsund lík voru grafin í fjöldagröfum víða á eyjunni en það skiptir sköpum að jarðsetja hina látnu sem fyrst til að stemma stigu við farsóttum. Í Indlandi hafa um sjö þúsundir manna dáið og enn er átta þúsunda saknað. Á Srí Lanka eru um 22.500 látnir og 1.800 í Taílandi. Fórnarlömb flóðbylgjunnar eru um 300 í Malasíu, Mjanmar, Bangladess, Maldív-eyjum, Sómalíu, Tansaníu og Kenía. Hjálparstarfsmenn gera hvað þeir geta til að sporna við kóleru og malaríu sem getur borist um í óhreinu vatninu. 175 tonn af hrísgrjónum bárust til Súmötru í gær sem og hundrað læknar. Víða hefur fólk þó þurft að stela öllu steini léttara til að hafa í sig og á. Á suðurströnd Indlands er byrjað að bólusetja 65 þúsund manns sem komust lífs af og klór er dreift á ströndum sem lík hafa verið fjarlægð af.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×