Sport

Björninn gekk af velli

Formaður Íshokkísambands Íslands segir það skammarlegt, bæði fyrir leikmenn Bjarnarins og íþróttina, að þeir hafi gengið af velli í miðjum leik gegn Skautafélagi Reykjavíkur í gærkvöld. Leikmenn íshokkífélagsins Bjarnarins gengu af velli í öðrum leikhluta gegn Skautafélagi Reykjavíkur til þess að mótmæla dómgæslunni í leiknum en þeir fullyrða að rangur maður hafi verið rekinn af velli. Þá var staðan 4-1 SR í vil en því miður eru ekki til myndir af leiknum. Geir Oddsson, formaður Bjarnarins, sagði í samtali við íþróttadeildina það ekki vera ákjósanlega stöðu hjá sínum mönnum að ganga af velli. Dómaraskortur stendur íshokkííþróttinni fyrir þrifum en dómarinn í leik Bjarnins og SR er leikmaður Skautafélags Akureyrar. Viðar Garðarsson, formaður Íshokkísambands Íslands, sagði við íþróttadeildina að því miður hefði hreyfingin átt við dómaraskort að stríða. Þetta var annar meistaraflokksleikurinn sem þessi dómari, leikmaður SA, dæmdi en að stórum hluta hefðu leikmenn verið í hlutverki dómara í leikjum annarra liða undanfarin ár. Leikmenn Bjarnarins mótmæltu því m.a. við dómarann að hann hefði rekið rangan mann út af sem hefði þýtt beint tveggja leikja bann en Björninn á einmitt að spila við Skautafélag Akureyrar, félag dómarans, í næsta leik. Viðar sagði það persónulega skoðun sína að þessi framkoma Bjarnarins sé með öllu óafsaknaleg og ekkert geti réttlætt hana, hvað sem á dynur. „Það að draga lið út úr miðjum kappleik er vanvirðing við íþróttina sjálfa, stuðningsmenn og áhorfendur hennar, án tillits til þess hvaða félagi eða hópum menn tilheyra,“ sagði Viðar. Málið fer næst fyrir aganefnd Íshokkísambands Íslands en að sögn Viðars mun stjórn sambandsins einnig láta til sín taka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×