Innlent

Stúdentspróf úr FB ekki gild

Stór hluti þeirra nemenda Fjölbrautaskólans í Breiðholti sem útskrifast sem stúdentar um áramót kemst ekki inn í Háskóla Íslands þar sem Háskólinn viðurkennir ekki stúdentsprófið. Eftir tvo mánuði fá nálægt 70 nemendur úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti stúdentsskírteini. Áður fyrr hefði þetta skírteini dugað sem aðgöngumiði að háskólanámi, en ekki lengur. Um 15% þessara nemenda hafa stúdentspróf af listnáms, viðskipta- eða iðngreinabrautum. Allir háskólar á Íslandi hafa hingað til litið á þessi próf sem gjaldgeng til háskólanáms, en Háskóli Íslands gerir það ekki lengur. Stefán Andrésson, áfangastjóri hjá FB segir Háskólann hafa lýst því yfir í fyrra að ekki yrðu fleiri teknir inn á undanþágum, sem meðal annars séu stúdentspróf af öðrum brautum en bóknámsbrautum. Stefán segir þetta vera vel kynnt fyrir nemendum, bæði af kennurum og með auglýsingum og á heimasíðu skólans. Fréttastofa fann nánast ekkert um þetta á heimasíðu skólans, utan auglýsingaskiltis sem skýtur reglulega upp kollinum á auglýsingatöflunni í fimm sekúndur í einu. Og lesi nú hver sem betur getur. Nemendur sem fréttastofa hefur talað við segja einum rómi að þetta sé illa kynnt og hafi komið í bakið á mörgum nemendum sem þurfi að lengja nám sitt til að komast í Háskóla Íslands. Stefán hefur orðið var við óánægju á meðal nemenda með þetta ófullkomna stúdentspróf. Barði Stefánsson útskrifast með svona gallað próf um næstu jól. Hann segir þetta fúlt, enda þurfi hann að taka á sig ár í viðbót til að fá inni í háskóla, sem sé undarlegt, enda eigi stúdentspróf að gera menn gjaldgenga í háskólanám.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×