Sport

Lárus undir smásjánni í Þýskalandi

Landsliðsmaðurinn Lárus Jónsson, sem lék með Hamri í Intersportdeildinni í körfuknattleik á síðasta tímabili, dvaldi í æfingabúðum í Bonn í Þýskalandi um síðustu helgi og stóð sig það vel að eitt þýskt lið í efstu deild sem og eitt spænskt lið hafa áhuga á því að fá hann í sínar raðir. Búðirnir sem Lárus dvaldi í um síðustu helgi kallast "Slammers" en þar koma saman 48 leikmönum víðs vegar úr heiminum og sýna sig fyrir framan útsendara fjölmargra liða. Jón Arnór Stefánsson og Logi Gunnarsson, sem báðir eru atvinnumenn í dag, Jón Arnór hjá Dallas Mavericks í NBA-deildinni go Logi hjá Giessen 49 ers í Þýskalandi, komu sér einmitt á kortið í þessum æfingabúðum. Lárus sagði aðspurður að honum hefði gengið vel í Bonn og nokkur lið hefðu sýnt sér áhuga. Eitt lið hefði þó sýnt meiri áhuga en önnur en það er þýska 1. deildarliðið Karlsruhe sem bauð honum til æfinga í vikunni. "Ég hitti þjálfara liðsins og ræddi nokkuð lengi við hann. Síðan fór ég á æfingu með liðinu og þar skoðaði aðstoðarþjálfarinn mig gaumgæfulega. Mér gekk nokkuð vel á æfingunni og eftir hana var mér var sagt að ég væri einn af þremur leikmönnum sem koma til greina hjá liðinu," sagði Lárus. Karlsruhe hafnaði í tíunda sæti þýsku 1. deildarinnar á síðasta tímabili og nýverið gekk Bandaríkjamaðurinn Derrick Allen, sem var lykilmaður í liði Keflavíkur á síðasta tímabili, í raðir félagsins. Lárus sagðist vera nokkuð bjartsýnn á að komast til Karlsruhe og vonaðist til að Allen myndi gefa sér góð meðmæli. Vikunni áður en Lárus fór til Bonn dvaldi hann í æfingabúðum í Palencia á Spáni og stóð sig það vel að hann vakti áhuga spænskra liða. "Umboðsmaður minn sagði mér að eitt spænskt lið vildi skoða mig betur þannig að ég ætla að sjá hvað gerist í Þýskalandi og spáni áður en ég ákvað eitthvað frekar. Ég ætla mér að vera búinn að ganga frá mínum málum í byrjun ágúst og þar sem ég hef stefnt að því að komast út í atvinnumennsku þá hef ég ekki talað við eitt einasta lið á Íslandi og veit í sjálfu sér ekkert hvað gerist ef ég fer ekki út," sagði Lárus Jónsson sem ætti þó ekki að vera í vandræðum með að finna sér lið í Intersportdeildinni ef útlöndin klikka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×