Skoðun

Frá degi til dags

Verst fyrir veruleikann! Neró lék á fiðlu á meðan Róm brann. "Samstarfserfiðleikar í ríkisstjórninni? Hvaða vitleysa! Það er þá einhver önnur ríkisstjórn en ég sit í," sagði Davíð Oddsson skellihlæjandi við blaða- og fréttamenn á fimmtudaginn eftir að hafa setið á fundi með Halldóri Ásgrímssyni til að bjarga lífi ríkisstjórnarinnar vegna ágreinings um fjölmiðlafrumvarpið nýja. Sálfræðingar mundu líklega kalla þetta afneitun en velviljaðri menn benda á að þetta sé viðurkennd stefna innan heimspekinnar. Eftir þýska hugsuðinum Hegel var haft, þegar honum var bent á að kenningar hans stönguðust á við veruleikann: "Það er verst fyrir veruleikann"! Vefþjóðviljinn Frægt er þegar Mánudagsblaðið, alþekkt slúðurblað í Reykjavík, var "lánað" Alþýðuflokknum í þingkosningunum 1971. Ekki dugði það til og tapaði flokkurinn miklu fylgi. Nú halda ýmsir að sagan hafi endurtekið sig í þeirri mynd að Vefþjóðviljinn, blað frjálshyggjumanna á netinu, sé minnst skrifað af ritstjórninni heldur annist pennar úti í bæ, þar á meðal starfsmenn ráðuneyta, pistlaskrifin, sem eru nafnlaus. Í orði kveðnu er Vefþjóðviljinn á móti fjölmiðlalögunum og segir þau ekki í samræmi við frjálshyggju. En í reynd er blaðið eingöngu lagt undir skrif til stuðnings ríkisstjórninni þar sem reynt er að gera andstæðinga laganna á fjölmiðlum, á þingi og úti í þjóðfélaginu, tortryggilega. Um síðustu helgi birti blaðið niðurstöður mikillar könnunar sem það hafði látið gera á skrifum Fréttablaðsins. Samkvæmt henni hafði fjölmiðlamálið verið 20 sinnum aðalfréttin á forsíðu blaðsins á fimmtíu daga tímabili frá 20. maí til 10. júlí. Þetta töldu Vefþjóðviljamenn ekki passa við veruleikann. Málið væri ekki svona merkilegt. En þegar sömu mælistiku er beitt á Vefþjóðviljann sjálfan á sama tímabili kemur í ljós að fjölmiðlamálið er mun oftar, eða 28 sinnum, aðalefni blaðsins.



Skoðun

Sjá meira


×