Erlent

Meira en 68 þúsund látnir

Staðfest er að meira en 68.000 manns hafi týnt lífi í hamförunum í Suður og Austur Asíu og ljóst að tala látinna heldur áfram að hækka. Þá er staðfest að 174 erlendir ferðamenn hafi týnt lífi og hátt í þrjú þúsund er saknað, þar af um fimmtán hundruð frá Svíþjóð. Ekki er vitað um afdrif hátt í átta hundruð Norðmanna, meira en tvöhundruð manna er saknað frá Danmörku og Finnlandi. Enn hefur ekki heyrst frá ellefu Íslendingum sem vitað er að voru á svæðinu þegar hamfarirnar gengu yfir, en ekki er talin sérstök ástæða til að óttast um afdrif þeirra enn sem komið er. Staðfest er að átján Norðmenn hafa látið lífið og á milli 30 og 40 eru slasaðir. Utanríkisráðherra Noregs segir hugsanlegt að um sé að ræða mesta mannfall norskra ríkisborgara í einu í mörg ár. Hið sama sagði utanríkisráðherra Svíþjóðar í gær, sem sagðist óttast að nokkur hundruð Svíar hefðu fallið í valinn og líklega hefðu ekki fleiri Svíar látist í einu síðan farþegaskipið Estonia sökk árið 1994 með þeim afleiðingum að yfir fimm hundruð Svíar féllu í valinn. Flugfélagið SAS ákvað í morgun að opna loftbrú á milli Norðurlanda og hamfarasvæðana til að flytja ferðamenn heim og hjálpargögn út. Þá er flugvél Loftleiða, dótturfélags Flugleiða, á leið til hamfarasvæðanna til að sækja ferðamenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×