Sport

Ætlum okkur stig í þessum leik

"Þetta verður erfiðara en gegn Möltu en við ætlum okkur stig í þessum leik og helst fleiri en eitt," segir Eyjólfur Sverrisson, þjálfari undir 21 árs liðs Íslands sem mætir Svíum í dag. Liðið tapaði sem kunnugt er sínum síðasta leik, gegn Möltu ytra, með einu marki gegn engu en Eyjólfur vill ekki skrifa upp á að liðið hafi spilað illa. "Alls ekki. Það var leikur sem gat dottið báðum megin og við áttum sannarlega færi sem tókst þó ekki að nýta í það skiptið en vonandi gengur betur í dag gegn Svíum. Það voru margir góðir punktar við leik liðsins gegn Möltu en það skorti upp á þann eldmóð sem til dæmis var til staðar gegn Búlgörum." Eyjólfur segir alla leikfæra en mun ekki ákveða leikskipulag liðsins fyrr en rétt fyrir leikinn. "Við munum sækja í leiknum og skipulagið mun taka mið af því. Við spiluðum mjög vel og skipulega gegn Búlgörum fyrir leikinn gegn Möltu og ég mun leitast við að ná sömu einbeitingu gegn Svíum og liðið náði þar. Ég tel engan vafa leika á að við eigum möguleika og þó að í sænska liðinu séu þekktari einstaklingar á pappírum skiptir það litlu þegar í leikinn er komið." Það U21-lið Svía sem nú mætir Íslandi marði 0-1 sigur á U21-árs liði Möltu þegar liðin mættust í síðasta mánuði og stóð lið Möltu betur í Svíum en aðallið landsins, sem tapaði 0-7. Leikur liðanna fer fram í Grindavík og hefst klukkan 15:30.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×