Skoðun

Vekur aðdáun allra

Maður vikunnar - Dorrit Moussaieff forsetafrú Síðasta sunnudag stóð Dorrit Moussaieff í fyrsta sinn við hlið eiginmanns síns, Ólafs Ragnars Grímssonar, á svölum alþingishússins og veifaði til mannfjöldans á Austurvelli í tilefni innsetningar Ólafs Ragnars í embætti forseta Íslands. Skartaði hún glæsilegum skautbúningi sem hún þótti bera með miklum tignarbrag. Tíguleiki þykir einkenna Dorrit og leynir sér ekki að hún hlaut uppeldi í anda hefðarfólks enda voru perlur og gimsteinar leikföng hennar sem barn. Föðurfjölskylda Dorritar á langa og ríka sögu sem á sér rætur í Rússlandi og síðar í Bukara í Palestínu, fyrir tíma Íraels. Forfeður hennar hafa verslað með skartgripi og gimsteina í aldaraðir og er Moussaieff-nafnið eitt hið þekktasta innan skartgripaheimsins. Frægasti skartgripasmiður veraldar, Carl Fabergé, var meðal þeirra sem hannaði skartgripi fyrir fyrirtæki Moussaieff-fjölskyldunnar en hann er þekktastur fyrir Fabergé-eggin sem hann hannaði fyrir rússnesku keisarafjölskylduna sem nær hvert mannsbarn þekkir vegna sögunnar um Anastasiu prinsessu. Dorrit fæddist í Jerúsalem 1950 þar sem hún ólst upp til tólf ára aldurs ásamt yngri systur sinni Tamöru. Flutti þá fjölskyldan til London þar sem yngsta systirin, Sharon, fæddist. Þess má geta að Sharon var viðstödd innsetningarathöfn forseta ásamt eiginmanni sínum og börnum. Þrátt fyrir að gnægð hafi einkennt uppeldi Dorritar þykir hún með eindæmum alúðleg og innileg. Hún vinnur hug og hjarta hvers sem hún hittir með einlægri framkomu sinni og vinalegu fasi. Hún lætur formlegar siðareglur sem vind um eyru þjóta og gerir flest með háttvísi og tilgerðarleysi. Þekkt er sagan af því þegar Svíadrottning kom í opinbera heimsókn til landsins og langaði í sund. Bauðst þá Dorrit til að lána henni gamlan sundbol af sér þrátt fyrir að hún hafi fengið að heyra að það hafi alls ekki þótt viðeigandi. Drottningin sjálf þáði þó sundbolinn og segir sagan að hún hafi notið sundferðarinnar til hins ýtrasta. Dorrit var ekki búin að dveljast lengi á Íslandi þegar henni hafði tekist að vinna almenning algjörlega á sitt band. Hvar sem hún kemur keppist fólk við að fá að sjá hana og dáist fólk af framkomu hennar og fasi enda gefur hún sig iðulega á tal við fólk og sýnir þeim áhuga og virðingu. Í einni af fyrstu opinberu heimsókn sinni með Ólafi Ragnari hér á landi var mikil eftirvænting meðal fólks yfir því hvernig Dorrit kæmi fyrir. Segja viðstaddir frá því hvernig hrifning fólks á henni kviknaði við eitt lítið atvik. Atvik sem án efa var algjörlega óúthugsað og gerðist örugglega fullkomlega ósjálfrátt. Fyrir framan forsetahjónin stóð hópur barna sem sýndi sína bestu hegðun í návist tignargestanna. Forsetahjónin hlýddu á það sem fram fór en þegar börnin luku því sem þeim var ætlað tíndust þau í burtu eitt af öðru. Áður en allur hópurinn var farinn tekur Dorrit nokkur skref áfram, horfir í augun á litlum dreng, beygir sig niður fyrir framan hann og reimar lausar skóreimar hans. Gerði hún þetta af svo mikilli velvild og gæsku að þeir sem urðu vitni að þessu hafa verið tryggir aðdáendur forsetafrúarinnar alla tíð síðan. Það er þó ekki aðeins almenningur sem hrífst af Dorrit. Nánir vinir hennar eru meðal þekktustu manna og kvenna heims og koma úr öllum sviðum þjóðfélagsins. Ivana Trump, Shakira Cain, Sean Connery, Hilary Clinton og Jórdaníukonungur eru meðal hennar nánu vina. Í nýlegri könnun sem tímaritið Harpers & Queen gerði lenti Dorrit í þriðja sæti á lista yfir "best tengda fólk Bretlands". Í blaðinu er henni gefið starfsheitið "socialite", sem útleggja má sem "ein af fína fólkinu". Listinn telur 25 og ber Dorrit höfuð og herðar yfir ýmis fyrirmenni, svo sem lávarða og lafðir, milljónamæringa og stjórnmálamenn. Góð sambönd Dorritar hafa eflaust hjálpað henni í athafnalífinu en hún hefur meðal annars hagnast verulega á kaupum og sölum fasteigna. Þekktasta fjárfesting Dorritar og sú sem skilaði hennum einna mestum hagnaði er þegar hún, ásamt hópi fjárfesta, keypti hæstu byggingu Evrópu, Canary Wharf turninn svokallaða, snemma á níunda áratugnum. Slæm staða á fasteignamarkaði hafði komið eigendum í erfiða stöðu og fékkst því skrifstofubyggingin fyrir lítið. Uppsveifla níunda áratugarins, auk annarra þátta, jók hins vegar eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði og seldu fjárfestarnir bygginguna 1999. Hagnaður Dorritar var sagður um 45 milljónir sterlingspunda, eða tæpir sex milljarðar, samkvæmt upplýsingum frá blaðamanni á The Times í London. Þeir sem þekkja til í röðum fyrirmenna á Íslandi segja um Dorrit að framkoma hennar sé um margt ólíkt framkomu íslenskra kvenna á sama aldri og í svipaðri stöðu. Hvert sem tilefnið er, sé það innsetning forseta eða opinberar veislur, þykir Dorrit ætíð afslöppuð og eðlileg enda njóti hún augljóslega hverrar stundar.



Skoðun

Sjá meira


×