Sport

Dómarahneyksli segir Eiður

Það er hneyksli að dómarar í Meistaradeild í handbolta skuli ekki vera mættir a.m.k. sólarhring fyrir leik, segir Eiður Arnarson, formaður handknattleiksdeildar Hauka eftir þá uppákomu í gær að danskir dómarar, sem dæma eiga leik Hauka og sænska liðsins Sävehof, misstu af flugvél til Íslands í gær. Leikurinn átti að hefjast klukkan 14 í dag en hefur verið seinkað til klukkan 18 þar sem dómararnir lenda ekki fyrr en um þrjúleytið í dag. Leikur Hauka og Sävehof verður í beinni útsendingu á Sýn. Að sögn Eiðs ætluðu dómararnir að taka síðustu flugvél frá Billund til Kaupmannahafnar í gær og fljúga svo með Icelandair til Íslands. Flugið frá Billund var hins vegar fyrirvaralaust fellt niður. Dómararnir keyrðu þá til Kaupmannahafnar en rétt misstu af vélinni til Íslands. Samkvæmt reglum Evrópska handknattleikssambandsins hefði mátt setja íslenska dómara á leikinn í dag ef bæði lið hefðu samþykkt það, að sögn Eiðs. Það vildu Svíarnir ekki og því var ákveðið að seinka leiknum um fjóra klukkutíma. Eiður segir þessa seinkun mjög bagalega fyrir alla hlutaðeigandi. En hvað gerist ef dönsku dómararnir mæta ekki á tilsettum tíma í dag? Að sögn Eiðs munu þá íslenskir dómarar dæma en þeir Stefán Arnaldsson og Gunnar Viðarsson hafa verið á bakvakt síðan í gærkvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×