Skoðun

Hvað kosta börnin?

Þjóðarbúskapurinn - Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur. Í nýrri rannsókn á útgjöldum heimilanna sem Hagstofan gaf út í síðustu viku má finna ýmsar áhugaverðar upplýsingar. Hagstofan gerir slíkar kannanir reglulega til að nota sem grunn við útreikning vísitölu neysluverðs. Eins og fram hefur komið í fréttum þá kemur í ljós að útgjöld heimilanna til neyslu hafa aukist um ríflega 50% frá 1995 á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um tæplega 30%. En rýnum aðeins betur ofan í könnunina. Ef við reiknum útgjöld heimilanna á hvern mánuð sést að útgjöld heimilanna eru að meðaltali 290 þúsund krónur en voru 190 þúsund á árinu 1995. Þessar tölur segja ekki mikið, svo við skulum skoða þær nánar eftir fjölskyldugerð. Það er enginn nýr sannleikur að það sé hagkvæmara að vera tveir í heimili en einn og þetta kemur skýrt fram í könnuninni. Þar sést að neysluútgjöld einhleypra nema 161 þúsundi á mánuði samanborið við 146 þúsund á mann þar sem tveir fullorðnir eru í heimili. Það er sem sagt 10% dýrara að búa einn. Til fróðleiks skulum við bera þessar tölur saman við meðalatvinnutekjur. Þær mældust um 210 þúsund á árinu 2002 og 106 þúsund á árinu 1995. Einhleypur einstaklingur með meðalatvinnutekjur eyddi því 75% af tekjum sínum í neyslu á árinu 2002. Hagur þessa einstaklings hefur batnað frá árinu 1995 þegar samsvarandi einstaklingur eyddi 94% af tekjum sínum í neyslu. Það er líka athyglisvert að á meðan meðalatvinnutekjur eru 210 þúsund þá eru útgjöld meðalheimilis 290 þúsund. Það bendir til þess að annaðhvort séu fleiri en ein fyrirvinna á meðalheimilinu eða skuldir meðalheimilisins aukist í hverjum mánuði. Nema hvort tveggja sé. Meðalútgjöld á mann þar sem börn eru í heimili eru mun minni en þar sem eingöngu fullorðnir eru í heimili, sem bendir til þess að börn séu ódýrari í rekstri en fullorðnir. Með smá talnaleikfimi má reikna út að meðalneysluútgjöld vegna barna séu um 47 þúsund krónur á mánuði. Þarna gef ég mér að neysluútgjöld á hvern fullorðinn á heimili þar sem börn eru sé sambærilegur við það þar sem einungis fullorðnir eru í heimili, samanber tölurnar hér að ofan. Ef við höldum áfram að leika okkur með þessar tölur, þá kostar neysla meðalbarnsins 560 þúsund á ári. Ef við miðum við 5% vexti, þá má búast við að útgjöld vegna barns sem fæðist á árinu 2002 verði orðin samtals 18 og hálf milljón króna á tvítugsafmæli barnsins.



Skoðun

Sjá meira


×