Sport

Wiley farinn heim

Bandaríski framherjinn Troy Wiley hefur yfirgefið herbúðir Njarðvíkinga í Intersportdeildinni í körfuknattleik og farinn aftur vestur um haf. Wiley var þó ekki rekinn frá félaginu heldur voru það persónulegar ástæður sem drógu hann aftur heim. Faðir hans lenti í slysi og var það sameiginleg ákvörðun hans og fjölskyldu hans að hann kæmi heim. Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að Wiley hefði viljað þrauka áfram á íslandi en það hefði einfaldlega ekki verið hægt. Það hefði síðan verið sameiginleg ákvörðun stjórnar körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og Wileys að hann kæmi ekki aftur þar sem hann gat ekki gefið upp ákveðinn tíma á endurkomu sinni. Einar Árni sagði að vissulega væri slæmt að missa Wiley og hundleiðinlegt að þurfa að standa í því að finna nýjan erlendan leikmann. "Ég hef hins vegar engar stórar áhyggjur af þessu. Wiley er hæfileikaríkur leikmaður en við höfum verið á góðu róli og lifum þetta af," sagði Einar Árni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×