Erlent

Demókratar hægrisinnaðir

Það sem telst vera til hægri eða vinstri í stjórnmálum í Evrópu er alls ekki það sama og hægri og vinstri í bandarískum stjórnmálum. Þegar stjórnarskrá Bandaríkjanna var samin árið 1778 var ekki gert ráð fyrir stjórnmálaflokkum. Tveggja flokka kerfi festi sig samt fljótlega í sessi og síðustu 150 árin hafa Demókrataflokkurinn og Repúblikanaflokkurinn nánast einokað alla stjórnmálaumræðu vestra. Þetta kerfi kemur í raun veg fyrir að aðrir flokkar komi sínum mönnum að, hvort sem það er í þinginu eða í forsetaembættið, þar sem sá frambjóðandi sem fær meirihluta í hverju héraði eða ríki vinnur, hversu lítill sem sá meirihluti er. 60% Bandaríkjamanna telja sig vera annað hvort demókrata eða repúblikana og meirihluti þeirra sem eftir standa hallast einnig mjög ákveðið í aðra hvora áttina. Hins vegar fer þeim fjölgandi sem kjósa sitt hvað og velja til dæmis repúblikana í forsetaembættið en kjósa á sama tíma þingmann eða ríkisstjóra sem er demókrati. Almennt séð höfða báðir flokkarnir til frekar breiðs hóps kjósenda en þó er mikilvægur munur þar á. 90% bandarískra blökkumanna kjósa Demókrataflokkinn. Íbúar sem eiga rætur að rekja til Suður Ameríku, verkamenn í láglaunastörfum, fráskildir, trúlausir og nýútskrifaðir menntamenn sem búa í miðsvæðis í borgum kjósa frekar Demókrataflokkinn. Á hinn bóginn er frekar líklegt að hvítir, miðaldra, trúaðir karlmenn í vel launaðri stöðu í viðskiptageiranum séu repúblikanar og þeir búa líka oftast í úthverfum stórborga eða í dreifbýli. Hafa verður í huga að þó bandarísk stjórnmál einkennist af hægri/vinstri skiptingu þá er það algjörlega sitt hvað, hvað kallað er hægri eða vinstri í pólitík Evrópu eða Bandaríkjunum. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði segir meginmuninn þann að bandarísk stjórnmál séu miklu meira til hægri. Þannig sé Demókrataflokkurinn til að mynda mun lengra til hægri en flestir hægri flokkar í Evrópu. Demókrataflokkurinn yrði aldrei flokkaður verulega vinstra megin við miðju í Evrópu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×