Sport

Loksins sigur hjá Fylki

Fylkismenn unnu sinn fyrsta deildarsigur síðan í júní þegar þeir unnu 1–0 sigur á Fram. Fylkismenn höfðu leikið sex leiki í röð án þess að sigra en Björgólfur Takefusa tryggði Fylkismönnum þrjú stig og annað sætið í deildinni. Tap Framara þýðir hinsvegar að þeir eru komnir aftur niður í fallsæti í deildinni. Fylkismenn voru sterkari fyrsta hálftímann og fengu fullt af færum í upphafi leiksins. Eftir það jafnaðist leikurinn og Framarar hefðu getað náð forustunni fyrir hálfleik. Seinni hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri en bæði lið gerðu tilkall til þess að fá vítaspyrnu áður en Björgólfur skoraði eina mark leiksins um miðjan seinni hálfleik. Finnur Kolbeinsson átti þá góða fyrirgjöf og Björgólfur Takefusa skallaði boltann óverjandi í markið. Það vakti athygli að Guðni Rúnar Helgason spilaði nýja stöðu á miðjunni, hann átti mjög góðan leik og var mikilvægur hvort tveggja í vörn og sókn Fylkismanna. „Þetta var eiginlega spurning um það hvort við ætluðum að vera með í toppbaráttunni eða ekki. Ef við hefðum tapað þessum leik þá hefðu við getað gleymt því að berjast um titilinn. Við náðum að rífa okkur upp af rassgatinu og vinna og nú erum við komnir aftur í baráttuna. Mér fannst líka við loksins vera að spila saman eins og lið og náð að skapa eitthvað af færum,“ sagði hetja Fylkismanna, Björgólfur Takefusa í leikslok. Fylkir-Fram 1-0 1–0 Björgólfur Takefusa 72.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×