Sport

Grindavík úr fallsæti

Grindvíkingar sigruðu arfaslaka KA-menn á Grindavíkurvelli í gærkvöld, 2-0, í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Þetta var sannkallaður fallbaráttuslagur og knattspyrnan sem boðið var upp á var ekki af betri gerðinni. Með sigrinum komst Grindavík upp úr fallsæti á kostnað Framara en KA-menn sitja grjótfastir á botni deildarinnar og virðast ekki líklegir til að fara þaðan ef marka má spilamennsku liðsins þessa dagana. Grindvíkingar sýndu þó reglulega hvað þeir geta, sköpuðu slatta af færum en voru bölvaðir klaufar uppi við markið en reyndar gerði markvörður KA, Sandor Matus, þeim lífið leitt með frábærri markvörslu. Það var ekki fyrr en átta mínútum fyrir leikslok að Grindvíkingar náðu að gulltryggja sér sigurinn og verður að segjast að það var meira en sanngjarnt. Það var hreint með ólíkindum að horfa upp á hugmyndasnauða og andlausa KA-menn og þetta lið virðist ekki hafa neina trú á því sem það er að gera - þörf er á breytingum. Þetta var fyrsti sigur Grindvíkinga undir stjórn Guðmundar Vals Sigurðssonar og eins og gefur að skilja var honum var létt í leikslok: "Við vorum mun sterkari aðilinn í þessum leik en gekk illa að klára dæmið. Þetta var svona týpískir sex stiga leikur en við mættum tilbúnir og hefðum í raun átt að vinna stærri sigur," sagði Guðmundur Valur Sigurðsson. Grindavík-KA 2-0 1-0 Sinisa Kekic (22.), 2-0 Grétar Ólafur Hjartarson, víti (82.).



Fleiri fréttir

Sjá meira


×