Erlent

Vígamenn á ferli í Bagdad

Vígamenn í Írak víla nú ekki fyrir sér að ráðast á hverfi þar í landi sem hingað til hafa verið friðhelg. Mikil spenna er í landinu og mannfall hefur verið töluvert hvern dag síðan ein helgasta moska sjía-múslima í Írak var sprengd í loft upp í síðustu viku. Minnst þrettán féllu í árásum í höfuðborginni í morgun og undir hádegi var gerð árás á bílalest Adnas al-Dulaimi, helsta leiðtoga súnnía í Írak.

Erlent

Vissi af hættunni

George Bush Bandaríkjaforseti vissi að fellibylurinn Katrín kynni að brjóta niður flóðvarnir New Orleans degi áður en fellibylurinn skall á borgina. Eftir að neyðaraðstoð hafði gjörsamlega brugðist sagði forsetinn hins vegar að enginn hefði getað séð fyrir hve miklar afleiðingarnar yrðu.

Erlent

Tímamótasamkomulag um kjarnorkuþróun

Bandaríkjamenn og Indverjar skrifuðu í morgun undir tímamótasamkomulag um kjarnorkuþróun. Tugþúsundir manna hafa í allan dag mótmælt heimsókn Bush Bandaríkjaforseta til Indlands og í Pakistan féllu tveir í sprengjuárás fyrir utan ræðismanns skrifstofu Bandaríkjanna.

Erlent

Öll tiltæk ráð

Ehud Olmert, starfandi forsætisráðherra Ísraels, hefur fyrirskipað ísraelskum öryggissveitum að beita öllum tiltækum ráðum í baráttu sinni við herskáa Palestínumenn. Ofbeldisverk þeirra geng Ísraelum hafa verið tíð síðustu vikur og hefur það aukið þrýsting á Olmert í aðdraganda þingkosninganna síðar í mánuðinum.

Erlent

Grunur um kúariðu í Svíþjóð

Grunur leikur á að fyrsta tilfelli kúariðu hafi greinst í Mið-Svíþjóð. Þegar hræ af tólf ára gamalli kýr var rannsakað komu í ljós einkenni sjúkdómsins. Sýni hafa verið send til rannsóknarstöðvar Evrópusambandsins í Bretlandi svo hægt sé að fá staðfest hvort um kúariðu er að ræða.

Erlent

Barn og tvær konur meðal látinna

Að minnsta kosti 8 létu lífið og 14 særðust þegar vegsprengja sprakk nálægt markaði í suð-austurhluta Bagdad, höfuðborg Íraks, í morgun. Meðal þeirra sem létu lífð voru barn og tvær konur. Lögregla rýmdi markaði eftir að önnur sprengja fannst þar skömmu síðar. Hún var þegar gerð óvirk.

Erlent

Fleiri fuglar finnast dauðir í Svíþjóð

Hátt í tuttugu dauðir fuglar fundust í gær nærri kjarnorkuverinu í Oskarshamn í Suður-Svíþjóð, en þar fundust á þriðjudag endur sem taldar eru hafa drepist úr hinum banvæna H5N1-stofni fuglaflensunnar. Fuglarnir hafa verið sendir til rannsóknar. Stjórnvöld í Svíþjóð hafa aukið eftirlit á svæðinu og hyggjast nú fela strandgæslunni að að leita að dauðum fuglum meðfram ströndum landsins.

Erlent

Fuglaflensa í Serbíu

Fuglaflensa hefur greinst í fyrsta sinn í Serbíu. Yfirvöld þar í landi greindu frá því í morgun. H5 stofn flensunnar greindist í svanshræi sem fannst nálægt landamærunum að Króatíu.

Erlent

Launamunur kynjanna innan ESB 15 prósent

Launamunur kynjanna í löndum Evrópusambandsins er 15 prósent samkvæmt nýrri skýrslu frá framkvæmdastjórn sambandsins. Þar kemur fram að hægt þokist í þessum málum og að margar konur innan ESB fari af vinnumarkaði vegna þess að þeim gangi illa að samtvinna vinnu og fjölskyldulíf.

Erlent

Bók sem allir verða að lesa

"To kill a Mockingbird" eftir Harper Lee var valin, á Degi bókarinnar í Bretlandi, sú bók sem allir ættu að lesa áður en þeir deyja. Bókin sló við ekki ómerkari bókum en Biblíunni, sem lenti í öðru sæti og Hringadróttinssögu sem hafnaði í því þriðja. Bókin gerist á fjórða áratugnum í Suðurríkjum Bandaríkjanna og fjallar um svartan mann sem er ranglega sakaður um að hafa nauðgað hvítri stúlku og hlaut höfundurinn Pulitzer Prize verðlaunin fyrir hana á sínum tíma

Erlent

Biðja Skandinava að yfirgefa Vesturbakkann

Sameinuðu þjóðirnar hafa beðið alla skandinavíska starfsmenn sína að yfirgefa Vesturbakkann vegna alvarlegra hótana um að nema á brott eða drepa skandinavíska erindreka á svæðinu.

Erlent

Gorbatsjev 75 ára í dag

Míkhaíl Gorbatsjev, fyrrverandi forseti Sovétríkjanna, er 75 ára í dag. Gorbatsjev er enn í fullu fjöri og beitir nú kröftum sínum aðallega í þágu umhverfisverndar og góðgerðamála.

Erlent

Réttarhöld yfir Gary Glitter hafin

Réttarhöldin yfir rokkstjörnunni Gary Glitter hófust í morgun. Hann er ákærður fyrir að hafa misnotað tvær stúlkur, tíu og ellefu ára gamlar, á heimili sínu í suðurhluta Víetnams.

Erlent

Indverjar og Bandaríkjamenn handsala kjarnorkusamning

Indverjar og Bandaríkjamenn hafa skrifað undir samkomulag um þróun kjarnorku. Þetta kom fram á sjónvarpsstöð í Indlandi fyrr í morgun. George Bush Bandaríkjaforseti er á Indlandi og fundaði með forseta Indlands í morgun. Ekki liggur enn fyrir hvað felst í samkomulaginu sem var handsalað í morgun.

Erlent

Árás við ræðismannsskrifstofu BNA í Pakistan

Tveir létust og átján slösuðust í sprengjuárás fyrir utan bandarísku ræðismanns skirfstofuna í Karachi í Pakistan í morgun. Tvær sprengjur sprungu með skömmu millibili á bílastæði Marriot-lúxushótelsins sem er við hliðina á ræðismannsskrifstofunni.

Erlent

Hundar og kettir í bann

Útgöngubann hefur verið sett á hunda og ketti í Þýsklanadi þar sem fuglaflensan hefur komið upp. Ekki hefur verið ákveðið hvenær banninu verður aflétt

Erlent

Hagnaður Bayer 124 milljarðar króna

Hagnaður þýska lyfjarisans Bayer nam 124 milljörðum króna, á síðasta ári. Bayer mun greina nánar frá afkomu félagsins á mánudag, en vinnuskjal frá fyrirtækinu lak út og því var greint frá hagnaði félagsins nú. Hlutabréf Bayer hækkuðu lítilsháttar í verði í Kauphöllinni í Frankfurt í dag.

Erlent

Forsætisráðherra Kosovo hættur

Forsætisráðherra Kosovo-héraðs í Serbíu tilkynnti í dag afsögn sína en hann hefur mætt miklu andstreymi flokksmanna sinna. Sameinuðu þjóðirnar hafa stýrt Kosovo frá því að stríði Atlantshafsbandalagsins gegn stjórnvöldum í Belgrad, lauk árið 1999. Yfirvöld í Belgrad hafa sagt ógerlegt að slíta Kosovo frá Serbíu en stjórnmálapekingar segja þó líklegt að ekki líði á löngu þar til Kosovo verði gert að sjálfstæðu ríki.

Erlent

FL Group bætir við sig í Royal Unibrew

FL Group hefur bætt við hlut sinn í Royal Unibrew og á eftir kaupin 16,35% í félaginu. Fyrr í mánuðinum keypti FL Group 10,7 prósenta hlut í danska félaginu. Royal Unibrew er annar stærsti drykkjarvöruframleiðandi í Skandinavíu. Meðal vörumerkja eru eru danski bjórinn Faxe sem margir Íslendingar þekkja. Félagið velti tæpum 30 milljörðum íslenskra króna árið 2004 og dreifir til yfir 65 landa.

Erlent

Hussein játar

Saddam Hússein, fyrrverandi forseti Íraks, játaði fyrir rétti í Bagdad í dag að hafa fyrirskipað árás á bændabýli þar sem uppreisnarmenn sem sýndu honum banatilræði árið 1982 héldu sig.

Erlent

Ónóg lög um leyniþjónustur

Evrópuríki þurfa strangari reglur um eftirlit með leyniþjónustum sínum og betra eftirlit með erlendum útsendurum sem starfa innan landamæra þeirra. Þetta sagði Terry Davis, forseti Evrópuráðsins, þegar hann kynnti skýrslu Evrópuráðsins um fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar CIA.

Erlent

Bush í fyrsta sinn til Afganistan

George Bush kom í morgun í óvænta heimsókn til Afghanistan og er þetta í fyrsta sinn sem forsetinn heimsækir landið eftir hryðjuverkaárásirnar ellefta september 2001.

Erlent

Halda stjórnarmyndun áfram

Ofbeldið í Írak undanfarna daga mun ekki koma í veg fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar á næstu vikum. Þetta segir Ibrahim al-Jafaari, forsætisráðherra Íraks, sem nú er í opinberri heimsókn í Tyrklandi.

Erlent

Felldu þrjátíu uppreisnarmenn

Pakistanskar hersveitir felldu þrjátíu uppreisnarmenn í áhlaupi við landamæri Afganistan snemma í morgun. Fjölmennt herlið lét til skarar skríða á þyrlum og af jörðu niðri, án þess að uppreisnarmennirnir fengju rönd við reist.

Erlent

Köttur smitaður af fuglaflensu

Þýsk yfirvöld hafa fundið dauðan kött sem var smitaður af H5N1 stofni fuglaflensunnar. Ekki er enn vitað hvort kötturinn dó af völdum fuglaflensunnar eða af öðrum orsökum en verið er að rannsaka hræið. Kötturinn fannst á sömu slóðum og fuglarnir sem fundust í Þýskalandi fyrr í mánuðinum. Ekki er enn vitað til þess að menn geti smitast af fuglaflensunni af köttum en fundurinn vekur óneitanlega ugg hjá mönnum um að fuglaflensan geti borist í aðrar dýrategundir.

Erlent