Erlent

Íslömsk reiði skellur á Bandaríkjamönnum

Ayman al-Zawahri, næstráðandi í al Kaída, vandar Bandaríkjamönnum ekki kveðjurnar í myndbandsávarpi sem birt var á internetinu í gærkvöldi. Hann varar þá við því að íslömsk reiði skelli á þeim af fullum þunga breyti þeir ekki stefnu sinni. Hann segir afleiðingarnar verði verri en nokkuð sem Bandaríkjamenn hafi áður séð.

Erlent

Geta sannað hryðjuverkastarfsemi Írana í Írak

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins segir Bandaríkjamenn hafa sannanir fyrir því að hryðjuverkamenn í Írak njóti íransks stuðnings. Þessi sönnunargögn verða lögð fram innan skamms. Talsmaðurinn segir fimm Írana, sem sögðust vera að stofna ræðisskrifstofu þegar þeir voru handteknir í N-Írak, sannanlega ekki vera diplómata.

Erlent

Kvendreki eignaðist unga án karldreka

Afkvæmi meyfæðingar litu dagsins ljós í Englandi í gær, í dýragarðinum í Chester. Fimm ungar Komodo-drekans Flóru eru skriðnir úr eggi og tvö egg eru enn óklakin. Flóra hefur aldrei verið við karldreka kennd og því hefur hún frjóvgað sig sjálf.

Erlent

Konungleg magakveisa

Magakveisa hefur bæst ofan á sjóveikina hjá rúmlega þrjú hundruð farþegum og áhafnarmeðlimum skemmtiferðaskipsins Queen Elizabeth annarrar. Þetta þykir óvenju slæm pest þar sem 17 prósent farþega hafi smitast og lagst í rúmið með ælupest.

Erlent

Safnað fyrir Líbanon

Háttsettir stjórnmálamenn víða að úr heiminum koma saman til fundar í París í dag til að safna í sjóð til uppbyggingar í Líbanon eftir stríðið síðastliðið sumar. Bandaríkin og Frakkland hafa þegar lofað um 100 milljörðum íslenskra króna í styrki og hagstæð lán en líbönsk stjórnvöld vonast til að safna um það bil sexfaldri þeirri fjárhæð.

Erlent

Uppreisnarmenn Tamiltígra flæmdir úr vígum sínum

Stjórnarhermenn á Sri Lanka hafa fínkembt svæði á austurhluta eyjunnar þar sem uppreisnarliðar Tamíltígra voru reknir frá vígum sínum á föstudag. Stjórnarhermenn sýndu fréttamönnum vopn og skotfæri sem þeir sögðust hafa gert upptæk úr vopnabúrum tígranna.

Erlent

Varnarmálaráðherra lést í þyrluslysi

Varnarmálaráðherra Ekvadors, Guadalupe Larriva, lést í flugslysi í gær þar sem tvær þyrlur rákust saman. Aðeins voru níu dagar síðan hún var sett inn í embætti af nýkjörnum forsetanum Rafael Correa. Hún var fyrsta konan til að gegna embætti varnarmálaráðherra í landinu og auk þess fyrsti almenni borgarinn.

Erlent

Íraksstefnan "þjónar ekki hagsmunum þjóðarinnar"

Utanríkismálanefnd bandarísku öldungadeildarinnar samþykkti í gær tillögu um að Íraksstefna Bush forseta "samræmdist ekki hagsmunum þjóðarinnar". Þessi samþykkt hefur hins vegar ekkert lagalegt gildi til þess að breyta ákvörðun forsetans, sem er æðsti yfirmaður herafla Bandaríkjanna.

Erlent

Stefnuræðan hlýtur blendnar viðtökur

Bush tókst ekki að sannfæra andstæðinga sína um nauðsyn þess að senda fleiri hermenn til Íraks. Yfirlýsingar hans um orkumál og andrúmsloftið hlutu mun betri viðtökur, bæði heima fyrir og erlendis.

Erlent

Vill átak gegn dauðarefsingum

Ban Ki-moon, sem í desember tók við af Kofi Annan sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti í gær stuðningi við tillögu Ítala um að efna til heimsátaks gegn dauðarefsingum.

Erlent

Rændi flugvél með 103 manns

Vopnaður súdanskur maður rændi Boeing 737-farþegaþotu sem var flogið frá Kartúm, höfuðborg Súdans, með 103 farþega og áhöfn innanborðs í gær. Enginn slasaðist.

Erlent

Þingforseti var yfirheyrður

Jack McConnell, forseti skoska þingsins, var yfirheyrður af lögreglu í tengslum við rannsókn á fjáröflunarmálum breska Verkamannaflokksins vegna gruns um að auðkýfingar hafi hlotið lávarðartign, og þar með sæti í lávarðadeild breska þingsins, í skiptum fyrir fjárstuðning við flokkinn.

Erlent

Nóbelsverðlaunahafa hótað

Einn þeirra sem grunaðir eru um að hafa hvatt til morðsins á tyrknesk-armenska blaðamanninum Hrant Dink hefur nú hótað Nóbelsverðlaunahafanum Orhan Pamuk.

Erlent

Iðraðist eftir 21 SMS-skilaboð

Kínverskur þjófur skilaði farsíma og þúsundum yuan sem hann hafði stolið frá konu, eftir að hún sendi honum 21 hjartnæmt SMS-smáskilaboð þar sem hún taldi hann á að skila þýfinu. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Erlent

Veiktust vegna geislunar

Átta hjúkrunarfræðingar á hjartadeild háskólasjúkrahússins í Haukeland í Noregi hafa verið greindir með krabbamein. Ástæðan er talin vera geislun á vinnustað.

Erlent

Ekki hvikað frá einbirnisstefnu

Kínversk stjórnvöld segjast ekki munu hvika frá hinni svonefndu einbirnisstefnu, þrátt fyrir að ráðherra fjölskyldumála viðurkenndi að stefnan ætti að hluta sök á þeirri óheillaþróun að mun fleiri sveinbörn fæðast í landinu en stúlkur.

Erlent

Federline vondur fyrir viðskiptin

Samtök veitingahúsaeigenda í Bandaríkjunum hafa farið fram á að sýningum á auglýsingu, þar sem Kevin Federline, fyrrum eiginmaður Britney Spears, er sýndur sem starfsmaður á veitingastað, verði aflýst.

Erlent

Saklaus sveitamorðingi

Robert „Willie“ Pickton, maðurinn sem er sakaður um að hafa myrt 26 vændiskonur, sagði við yfirheyrslur hjá lögreglu að hann væri „saklaus lítill sveitadrengur“ sem einhver væri að koma sök á. Þetta kom fram í réttarhaldinu yfir honum sem nú fer fram en hann var handtekinn í febrúar árið 2002.

Erlent

Staða Kosovo að skýrast

Rússar, sem hafa hingað til verið á móti hugmyndinni um sjálfstætt Kosovo, gáfu til kynna í dag að þeir gætu samþykkt að það yrði sjálfsstjórnarsvæði innan Serbíu. Ein af tillögum Sameinuðu þjóðanna um Kosovo hefur lagt þann möguleika til. Í henni segir enn fremur að Kosovo reki eigin utanríkisstefnu og geti orðið aðili að alþjóðasamtökum í eigin nafni.

Erlent

Ást við aðra sýn

Sjónvarpstöð í Hollandi hefur ákveðið að hefja upptökur á stefnumótaþætti. Það merkilega við þáttinn verður hins vegar að í hann má aðeins koma fólk sem er „sjáanlega óheppið í útliti.“ Þátturinn á að heita „Ást við aðra sýn.“

Erlent

Bandaríkin að veita Líbanon lán

Bandaríkin hétu því í dag að veita Líbanon 770 milljón dollara lán, eða um 53 milljarða íslenskra króna, til þess að styrkja við stjórn Foud Siniora í baráttu hans við stjórnarandstöðu Hezbollah. Þetta staðfesti talsmaður Bandaríkjastjórnar í dag.

Erlent

Bardagar geysa í Bagdad

Íraskar og bandarískar hersveitir handtóku í dag 35 uppreisnarmenn og skutu 30 til bana í bardögum við Haifa götuna í miðborg Bagdad í dag. Bardagar geysuðu þar í rúmar átta klukkustundir en embættismenn Íraka segja götuna vera fylgsni fjölmargra uppreisnarmanna. Í hverfinu í kringum götuna búa mestmegnis súnní múslimar.

Erlent

Friðrik 8. í Bocuse d'Or

Íslendingurinn Friðgeir Ingi Eiríksson varð í 8. sæti í matreiðslukeppninni Bocuse d'Or eftir tveggja daga keppni í borginni Lyon í Frakklandi. Franski kokkurinn Fabrice Desvignes vann þar sigur.

Erlent

al-Kaída varar Bandaríkjamenn við

Ayman al-Zawahri, næstráðandi innan al-Kaída hryðjuverkahópsins, sagði í dag að Bandaríkin mættu búast við hefndaraðgerðum sem yrðu „mun verri en nokkuð sem þau hefðu séð." ef ráðamenn í Bandaríkjunum breyttu ekki framkomu sinni í garð íslamskra ríkja.

Erlent

Conte gefur eftir

Forseti Gíneu, Lansana Conte, hefur samþykkt að tilnefna nýjan forsætisráðherra til þess að koma til móts við kröfur stéttarfélaga í landinu. Stéttarfélögin standa nú fyrir verkföllum sem hafa lamað nær alla starfsemi í landinu undanfarnar tvær vikur.

Erlent

Grískur hópur lýsir yfir ábyrgð

Grískur vinstrisinnaður hryðjuverkahópur hefur lýst yfir ábyrgð á sprengjuárásunum á bandaríska sendiráðið í Aþenu, höfuðborg Grikklands, sem áttu sér stað fyrr í mánuðinum. Hópurinn hótaði jafnframt fleiri árásum gegn stjórnmálamönnum og mikilvægum byggingum en frá þessu skýrði dagblað í Grikklandi í dag.

Erlent

Þingið á móti fjölgun hermanna

Utanríkismálanefnd öldungadeildar bandaríska þingsins samþykkti í dag harðorða tillögu gegn fjölgun hermanna í Írak. Í nefndinni sitja bæði fulltrúar demókrata og repúblikana og því er samþykkt hennar mikið áfall fyrir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna.

Erlent

Fornaldarhákarl gægist upp úr djúpinu

Japanskir vísindamenn birtu í dag myndir af sannkölluðum kynjafiski sem þróunarsagan er sögð hafa sneitt að mestu framhjá. Kvikindið kallast kragaháfur og fannst í höfninni í Awashima, nærri Tókýó.

Erlent