Umfjöllun og viðtöl: KR - Valur 81-84 | Valskonur í úrslit

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/bára
Valur komst í kvöld í úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn í Domino’s deild kvenna þegar liðið sló út KR með 81-84 sigri liðsins í DHL-höllinni. Serían endaði með 3-1 sigri Vals.

 

Darri Freyr Atlason þjálfari Vals var fjarri góðu gamni í kvöld en hann var að afplána leikbann eftir að hafa verið vikið úr húsi í seinasta leik liðanna. Í hans stað kom margfaldur Íslandsmeistari úr karladeildinni, Finnur Freyr Stefánsson.

 

Það sást á byrjun leiksins að Valskonur ætluðu ekki að fara í oddaleik en þær voru mjög ákveðnar og komust fljótt yfir og í góða forystu. Þær leiddu með 9 stigum eftir 6 mínútur en KR náði þó að saxa á forskotið jafnt og þétt fram að loka leikhlutans. Staðan að loknum fyrsta leikhluta, 21-24.

 

Valur setti aftur í gang í byrjun annars leikhluta og herti tökin. KR liðið var í töluverðum vandræðum, sérstaklega í sókninni og Valur komst 8 stigum yfir þegar skammt var til hálfleiks. Á endanum leiddu þær með 7 stigum í hálfleiknum, 36-43.

 

Liðin skiptust á stigum í upphafi síðari hálfleiks og Valur var alltaf skrefinu á undan þeim. Þær enduðu síðan leikhlutann á góðum spretti og leiddu með 12 stigum eftir þriðja leikhluta og fátt sem benti til þess að KR liðið myndi ná að þvinga fram oddaleik.

 

En þá fór KR í gang. Þær byrjuðu frábærlega í lokafjórðungnum og skoruðu fyrstu 11 stigin og minnkuðu muninn niður í 1 stig. Þá tók Valsliðið við sér og kom muninum upp í 6 stig. Á þessum tímapunkti hafði KR misst Orlu O’Reilly af velli en hún fékk höfuðhögg og spilaði ekki síðustu 6-7 mínútur leiksins.

 

KR jafnaði loksins leikinn þegar rétt um 3 mínútur voru eftir en því miður náðu þær ekki að komast lengra og Valur náði aftur forystunni og kláraði einvígið með mikilli skynsemi undir lokin. Lokatölur 81-84, Val í vil.

 

Af hverju vann Valur?

 

Það er mikil reynsla í Valsliðinu og þær voru mjög skynsamar í sókninni undir lokin. Þær voru sterkari á þessum lykilaugnablikum leiksins og unnu að lokum líklega sanngjarnan sigur.

 

Hverjar stóðu upp úr?

 

Hjá KR var Vilma Kesanen stigahæst með 24 stig og tók að auki 5 fráköst. Næst á eftir henni kom Orla O’Reilly með 22 stig og 9 fráköst og því næst Kiana Johnson með myndarlega þrennu með 21 stig, 13 fráköst og 11 stoðsendingar.

 

Hjá gestunum var Heather Butler stigahæst með 28 stig og 6 stoðsendingar. Helena Sverrisdóttir kom næst á eftir henni með 22 stig, 11 fráköst og 8 stoðsendingar.

 

Hvað gekk illa?

 

Varnarleikur KR á köflum var ekki nógu góður, Valur skoraði alltof mikið að auðveldum körfum inn í teignum sem KR réði ekki við.

 

Hvað gerist næst?

 

KR er komið í sumarfrí, því miður en Valur er komið í úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn þar sem liðið mætir annaðhvort Stjörnunni eða Keflavík.

 

Darri Freyr: Setti göngumet uppí skákherbergi

Darri Freyr Atlason þjálfari Vals var hæstánægður með sigur Vals á KR en hann gat ekki stýrt liðinu vegna þess að hann var í banni.

 

„Ég er ekki stressaður að eðlisfari en ég setti göngumet hérna uppí skákherbergi á meðan þessi leikur var í gangi og ég þakka auðvitað Finni fyrir að hlaupa í skarðið og það er ekki amalegt að eiga vin sem getur hjálpað svona.”

 

Hann viðurkenndi það að það hafi verið mjög erfitt að horfa á leikinn.

 

„Það var ógeðslega erfitt að horfa á leikinn. Þetta var bara hræðileg pynting.”

 

Hann sagði að breyting á varnarleiknum líklega gert útslagið í leiknum í dag.

 

„Við gerðum smá breytingu á varnarleiknum okkar og mér fannst það ganga ágætlega en síðan var þetta bara svona ekta úrslitakeppnisleikur þar sem þetta snerist um að vera aðeins sterkari í toppstykkinu.”

 

„Auðvitað var það líka hræðilegt að Orla gat ekki klárað leikinn fyrir KR.”

 

En hann gat ekki sagt til um það hvort að það hafi verið það sem skildi að þegar uppi var staðið.

 

„Það er náttúrulega ómögulegt að segja til um það, Kiönu gekk auðvitað mjög vel að taka leikinn yfir en að sjálfsögðu söknuðu þær hennar en við erum bara mjög kát með að hafa náð að klára þetta og bíðum spennt eftir næstu áskorun.”

 

Darri sagði að lokum að liðið sé ekki með neina óskamótherja í úrslitunum.

 



Benni: Get ekki sagt hvort ég haldi áfram eða ekki

Benedikt Guðmundsson þjálfari KR var svekktur eftir tap KR gegn Val í kvöld en eftir tapið er KR komið í sumarfrí.

 

Honum fannst ekki mikill munur vera á liðunum í kvöld.

 

„Mér fannst eiginlega ekki vera neinn munur á liðunum í kvöld, bara 2 góð lið og annað þarf að tapa og það kom í okkar hlut.”

 

Liðið missti Orlu O’Reilly af velli með höfuðhögg snemma í fjórða leikhluta sem hafði áhrif á liðið, Benni var sammála því.

 

„Það var mjög slæmt að missa hana en það kom aldrei til greina að henda henni aftur inn á. Eftir svona höfuðhögg gerðum við okkur strax grein fyrir því að hún kæmi ekkert meira inn á.”

 

„Auðvitað tökum við hennar heilsu framyfir einhvern boltaleik þó að okkur langi að vinna, mér fannst hinar sem kláruðu leikinn standa sig vel. Þetta var bara 50/50 í lokin.”

 

Benni sagðist vera svekktur núna en var samt mjög ánægður með árangurinn í vetur.

 

„Ég er aðallega svekktur núna að vera kominn í sumarfrí en ég er samt ógeðslega ánægður með liðið mitt, það stóð sig vel í vetur og stóð sig vel í allri þessari seríu. Þannig þetta eru svolítið blendnar tilfinngar.”

 

Varðandi framhaldið sagðist Benni lítið geta sagt hvort hann haldi áfram með KR eða ekki en hann tók nýlega við landsliðsþjálfarastarfinu.

 

„Það er bara ekki vitað hvað verður, við eigum eftir að fara yfir þau mál. Núna get ég farið að sinna hinu verkefninu þar sem KR hefur verið númer 1,2 og 3 undanfarið. Það eru smáþjóðaleikar á næstunni og ég get farið að einbeita mér að þeim en ég var að vona að ég þyrfti þess ekki strax,” sagði Benni að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira