Handbolti

Morkunas fór illa með frændurna frá Akureyri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Valli/Stefán
Óhætt er að fullyrða að Litháinn Giedrius Morkunas hafi verið frábær í marki Haukanna í undanúrslitarimmu liðsins gegn deildarmeisturum Vals í úrslitakeppni Olísdeildar karla.

Morkunas varði alls 56 af 113 skotum Vals í rimmunni og var því með nánast 50 prósenta hlutfallsmarkvörslu í leikjunum þremur - sem er magnað afrek.

Sóknarleikur Vals virtist aldrei finna almennilega leið fram hjá vörn Haukanna og Morkunas í markinu en það var sérstaklega áberandi hversu illa skyttur Valsmanna náðu sér á strik í leikjunum.

Frændurnir frá Akureyri, Guðmundur Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson, skoruðu samtals níu mörk Vals í 43 skotum í rimmunni. Morkunas varði tíu skot frá hvorum þeirra.

Guðmundur Hólmar nýtti aðeins tvö af 21 skoti sínu í rimmunni og Geir níu af 22.

Þess má svo geta til samanburðar að Árni Steinn Steinþórsson, sem hefur verið lykilmaður í uppgangi Hauka eftir áramót og sérstaklega í úrslitakeppninni, skoraði fimmtán mörk í 25 skotum gegn Val.

Frammistaða Giedrius Morkunas:

Samtals: 56 varin skot / 113 fengin á sig = 49,6% hlutfallsmarkvarsla

1. leikur: 13/2 = 41%

2. leikur: 22/41 = 54%

3. leikur: 21/40 = 53%

Varin skot frá Geir: 10

Varin skot frá Guðmundi Hólmari: 10

Skotnýting Geirs og Guðmundar:

9 mörk í 43 skotum = 21% skotnýting

Skotnýting annarra leikmanna Vals:

56 mörk í 110 skotum = 51% skotnýting




Fleiri fréttir

Sjá meira


×