Upp­gjörið: Grindavík-KR 78-77 | Arnór Tristan með sigurkörfuna

Siggeir Ævarsson skrifar
Jordan Semple og félagar í Grindavík unnu flottan karaktersigur í kvöld.
Jordan Semple og félagar í Grindavík unnu flottan karaktersigur í kvöld. Vísir/Anton Brink

Arnór Tristan Helgason tryggði vængbrotnu Grindavíkurliði eins stigs sigur á KR, 77-76, í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld. Grindavík missti DeAndre Kane út fyrir leik og Khalil Shabazz meiddan af velli í fyrri hálfleik en tókst samt að landa sigri.

Heimamenn voru án DeAndre Kane í kvöld sem er að glíma við einhver veikindi. Það var alveg ljóst í upphafi að Grindvíkingar þurftu að stilla sóknarleik sinn svolítið upp á nýtt í fjarveru hans en töluverður flumbrugangur var á þeim í byrjun sem KR-ingar nýttu sér til að stela boltanum og skora auðveldar körfur.

Gestirnir leiddu með einu stigi eftir fyrsta leikhluta, 20-21, en Kristófer Breki skoraði lygilega flautukörfu til að minnka muninn í eitt eftir að hafa stolið innkasti KR-inga með tæpar tvær sekúndur á klukkunni.

KR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og komust í 22-28 en þá var eins og Grindvíkingar vöknuðu loks, á báðum endum vallarins og staðan í hálfleik 41-42 eftir skrautlega flautukörfu, nú frá KR-ingum.

Seinni hálfleikur hélt áfram í svipuðum takti. KR-ingar náðu upp smá forskoti, Grindvíkingar jöfnuðu og komust jafnvel körfu yfir en þá komu KR-ingar með svar en þeir leiddu með sex fyrir lokaátökin, 58-64 og heimamenn í smá brekku þar sem skotin voru engan veginn að detta.

KR-ingar virtust mögulega ætla að síga endanlega fram úr í fjórða en Grindvíkingar gáfu ekki upp og komust yfir í stöðunni 72-69 en eins og svo oft í leiknum þá svaraði Aleksa Jugovic með þristi svo að lokamínúturnar voru í járnum.

Spennan varð raunar óbærileg í lokin en Arnór Tristan jafnaði í 77-77 með sex sekúndur á klukkunni og kom Grindavík svo stigi yfir úr vítinu.

KR fór í lokasókn eftir leikhlé. Mikið klafs í teignum en ekkert dæmt og Grindvíkingar sluppu með sigurinn að lokum. Grindvíkingar því áfram taplausir eftir fjórar umferðir en KR-ingar töpuðu sínum fyrsta leik í kvöld.

Atvik leiksins

Tilþrif Arnórs Tristan í lokin eru óneitanlega atvikið sem stendur upp úr þegar upp er staðið.

Þá verður einnig að nefna að Khalil Shabazz meiddist í öðrum leikhluta og gat ekki spilað meira eftir það. Grindvíkingar kláruðu leikinn því án tveggja byrjunarliðsmanna og munar um minna.

Stjörnur og skúrkar

Stjarna leiksins án vafa Arnór Tristan Helgason sem endaði með 17 stig og átta fráköst. Þá átti Kristófer Breki einnig góða innkomu af bekknum og skilaði Grindvíkingum tólf stigum, þó öllum í fyrri hálfleik.

Hjá KR var Aleksa Jugovic stigahæstur með 21 stig og kom alltaf með svar, gjarnan þrist, þegar Grindvíkingar gerðu sig líklega.

KR-ingar verða þó að fá meira frá Þóri Þorbjarnarsyni sem skoraði aðeins eina körfu í kvöld.

Dómararnir

Kristinn Óskarsson, Jakob Árni Ísleifsson og Ingi Björn Jónsson dæmdu leikinn í kvöld. Þeir höfðu nóg að gera og komust ágætlega frá því. Gleyptu mögulega flautuna í lokasókn KR-inga, það væri áhugavert að sjá endursýningu á henni.

Stemming og umgjörð

Vel mætt í HS Orku-höllina í kvöld en ég hefði nú alveg viljað sjá fleiri liðsmenn Stinningskalda og meiri læti frá þessari goðsagnakenndu stuðningssveit.

Viðtöl

Jakob Sigurðsson:  „Þetta var ekki fallegt og ekki góður körfubolti“

Jakob Örn Sigurðarson er þjálfari KR.Vísir/Anton Brink

Jakob Sigurðsson, þjálfari KR-inga, var augljóslega drullusvekktur þegar hann mætti í viðtal beint eftir leik og átti ekki mörg orð til að lýsa tilfinningum sínum.

„Bara fúlt en við áttum ekkert meira skilið en þetta.“

Hann var sammála því að liðin hefðu ekki boðið upp á fallegan körfubolta í kvöld.

„Nei, nei. Þetta var ekki fallegt og ekki góður körfubolti. Við bara töpuðum á öðrum sviðum og við töpuðum á þeim stöðum.“

KR-ingar fengu góða frammistöðu frá þeim Aleksa Jugovic og Kenneth Jamar Doucet Jr en Jakob var þó fyrst og fremst með fókusinn á tapið.

„Já, já. En það vantaði líka mikið í Grindavíkurliðið. Ég er bara mjög svekktur að hafa ekki náð að klára þennan leik því við höfðum mjög gott tækifæri til þess.“

Grindvíkingar voru fáliðaðir í kvöld eins og Jakob nefndi og hann var svekktur að missa af þessu dauðafæri, að leggja Grindavík í Grindavík.

„Að sjálfsögðu. Við verðum að nýta það, gerðum það klárlega ekki í dag. Nýttum ekki tækifæri sem komu í leiknum til þess að koma okkur lengra frá þeim. Fannst við vera stundum 6-7 stigum yfir þeim en náðum aldrei að slíta þá lengra frá okkur. Mér fannst mikið af því vera bara mikill klaufaskapur hjá okkur og lélegt.“

KR-ingar hafa byrjað mótið vel en það kom bakslag í kvöld.

„Mér fannst við vera betri og betri með hverjum leik fyrstu þrjá leikina en mér fannst við ekki nógu góðir í kvöld. Við þurfum klárlega að halda áfram að vinna í okkar.“

Arnór Tristan: „Ég hef aldrei byrjað tímabilið svona vel“

Arnór Tristan Helgason er heldur betur að stimpla sig inn í lið Grindavíkurvísir/Hulda Margrét

Arnór Tristan Helgason var hetja Grindavíkur í kvöld þegar hann tryggði liðinu sigurinn í lokin. Hann var helsáttur með það afrek og sagði að tilfinningin væri góð.

„Bara mjög góð. Ég er bara stoltur af mér að halda mér í leiknum og vera ekki að hengja haus. Það bara skilar sér.“

Í leik Grindavíkur og Njarðvíkur í fyrstu umferð lenti Arnór mjög illa eftir troðslu og í kjölfarið setti faðir hans, Helgi Jónas Guðfinnsson, inn færslu á Facebook þar sem hann hótaði því að banna drengnum að troða meira. Arnór hafði þó ekki áhyggjur af því að pabbi hans hefði verið stressaður þegar hann tók flugið í eina væna troðslu í kvöld.

„Hann var örugglega ekki stressaður en hefði ég lent aftur á bakinu hefði ég fengið að heyra það! Hann var örugglega ekkert stressaður samt, ég ætla rétt að vona það.“

Grindvíkingar gætu bókstaflega ekki hafa byrjað tímabilið betur og Arnór sagði að það væri ekki eitthvað sem hann væri vanur.

„Ég hef aldrei byrjað tímabilið svona vel. Yfirleitt verið í einhverjum útlendingavandamálum. Alltaf byrjað á einhverjum þremur töpum í röð. Það er smá munur núna að byrja 4-0. Nú skiptir bara máli að halda haus og keyra áfram á þetta. Vinna meira.“

Ungir og uppaldir leikmenn Grindavíkur fengu stórt hlutverk í kvöld en Arnór sagði að allir leikmenn í hópnum væru klárir þegar kallið kemur.

„Það var bara mjög skemmtilegt. Það eru alltaf allir tilbúnir að koma og stíga upp af bekknum. Ég treysti öllum þeim sem eru inni á vellinum. Ég reyni að finna þá og núna stíg ég upp sem leikstjórnandi. Ég er ekkert oft að spila þá stöðu en bara treysti mínum liðsfélögum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira