Upp­gjörið: Stjarnan - Fram 2-0 | Stjörnu­menn á beinu brautina

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Örvar gulltryggði sigurinn i blálokin.
Örvar gulltryggði sigurinn i blálokin. vísir/anton

Stjarnan náði góðum úrslitum í kvöld með 2-0 sigri gegn Fram á Samsungvellinum í sjöttu umferð Bestu-deildar karla í kvöld. Með þessum sigri bætir liðið við sig þremur mikilvægum stigum eftir þrjá tapleiki í röð. 

Fyrsta markið kom á 41. mínútu þegar Benedikt Warén sendi boltann laglega inn fyrir vörn gestanna og Emil Atlason kom eins og gammur á aftari stönginni og kláraði af öryggi. 

Bæði lið fengu sinn skammt af færum en tókst illa að nýta þau. Gestirnir fengu 13 hornspyrnur í leiknum og náðu ekki að nýta neina þeirra til þess að skora. 

Á 87. Mínútu skoraði Örvar Eggertsson glæsilegt mark eftir sendingu frá Benedikti Warén. Framarar náðu ekki að skapa sér fleiri færi eftir það. Lokastaða 2-0 sigur heimamanna. 

Atvik leiksins 

Á 48. Mínútu leiksins féll Vuk Oskar inn í teig Stjörnumanna og taldi Vilhjálmur Alvar hann hafa dýft sér. Vuk Oskar var mjög ósáttur með þessa ákvörðun og lét dómara leiksins heyra það og uppskar gult fyrir. Það er óvíst hversu mikið atvikið hafði áhrif á gang leiksins en spurning hvort það hefði kveikt aðeins í gestunum. 

Stjörnur og skúrkar 

Benedikt Warén var frábær á vinstri kanti stjörnumanna og var með tvær stoðsendingar hér í kvöld. 

Dómarinn 

Það má setja spurningarmerki við atvikinu á 48. mínútu þegar Vuk Oskar fellur í vítateig heimamanna. Vilhjálmur Alvar taldi það vera dýfu og dæmdi ekki vítaspyrnu. Leikurinn var annars svona heilt yfir bara þokkalega dæmdur. 

Stemning og umgjörð 

Hér á Samsungvellinum er mikil stemning og mjög góð umgjörð. Það var algjör kóngur í blaðamannaboxinu sem sá til þess að allir fengu mat og drykk. 497 stuðningsmenn mættu á völlinn og létu vel í sér í heyra með trommum og söng.

„Hugarfarsbreyting fyrst og fremst“

Jökull, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Diego

Stjarnan hafði fyrir leikinn í kvöld tapað síðustu þremur leikjum í deildinni. Erfitt gengi liðsins hingað til og menn veltu fyrir sér hverju þyrfti að breyta fyrir leikinn í kvöld.

„Það þurfti að breyta hugarfarinu fyrst og fremst og það var lagt mikla áherslu á það í vikunni. Við höfum átt frábæra viku þannig að ég var svosem ekkert í vafa frekar en nokkur annar í hópnum að það kæmi að þessum leik.“

„Sigurinn leggst vel í liðið og það sem hefur uppá vantað kom aðeins í dag en þetta er samt eitthvað til að byggja ofan á því við eigum að geta gert miklu betur.“

„Maður uppsker það sem maður sáir“

Guðmundur Kristjánsson í leik gegn Víking.Vísir/Hulda Margrét

„Það er ljóst að þegar við erum búnir að tapa nokkrum leikjum í röð að þá er helvíti mikilvægt að vinna leikinn. Það var einnig jákvætt að halda hreinu og gott fyrir sálartetrið. Mér fannst við setja það effort í leikinn sem þurfti, menn voru að tracka til baka og henda sér fyrir skot annað sem hefur verið ábótavant í leikjunum á undan. Maður uppsker það sem maður sáir og ef þetta er vinnan sem við leggjum í þá uppskerum við og vonandi höldum við því áfram.“

„Frammistaða liðsins var fín, þetta var ekki fullkomin leikur en mér fannst við nýta veikleikana hjá þeim. Við höfum verið að spila mikið á móti liðum sem liggja í low-block og reyna að countera á okkur og það hjálpar alltaf liðinu að komast yfir, þá þurfa þeir að koma aðeins framar á völlinn og þá náum við kannski að nýta okkur það sem við erum sterkari í, þannig það munaði helvíti miklu að ná fyrsta markinu.“

„100 prósent vítaspyrna“

Rúnar Kristinsson þungt hugsi.vísir/Diego

„Við eigum hörku leik og við fengum eitthverjar þrettán hornspyrnur í leiknum og nýtum þær ekki. Þeir skora þetta eina mark i fyrri hálfleik upp úr hraðari sókn og auðvitað voru þeir hættulegir oft á tíðum en 2-0 er ekki rétt mynd af því hvernig leikurinn spilaðist.“

„Þetta var 100% vítaspyrna sem við eigum að fá í upphafi síðari hálfleiks sem við fáum ekki, þá er þetta kannski aðeins súrara. Við hentum öllu fram og tókum alla sénsa í síðari hálfleik og reyndum hvað við gátum til að jafna en þá fáum við annað mark í andlitið. Það bara drepur leikinn og þá er þetta búið“

„Vinnusemin, viljinn og baráttan allt til staðar en gæðalega fannst mér við ekki vera nægilega skarpir, fyrirgjafirnar voru ekki nægilega góðar, fylltum teiginn ekki nógu vel og næstsíðasta og síðasta sending þegar við vorum komnir í góðar stöður klikkaði og það vantaði svona fínt í þetta hjá okkar sem gerir það að verkum að við nýtum ekki tækifærin til að búa til góðar sóknir og búa til góð færi. Við eigum fullt af sénsum og tækifærum en Stjörnumenn vörðust bara sóknum okkar vel og þess vegna er svakalega súrt að tapa svona.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira