Innlent

Á gjörgæsludeild eftir bílslys
Karlmaður var fluttur á gjörgæsludeild Landspítala-Háskólasjúkrahús eftir bílslys, við bæinn Breiðumýri í Reykjadal, á áttunda tímanum í gærkvöldi. Tveir fólksbílar lentu saman og klippa þurfti ökumann annars bílsins út úr bíl sínum en aðra sakaði ekki.

Magnús sigraði í prófkjörinu
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, sigraði í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Magnús fékk 883 atkvæði í fyrst sætið. Í öðru sæti varð Herdís Sæmundsdóttir með 979 atkvæði í 1.-2. sætið og í þriðja sæti var þingmaðurinn Kristinn H. Gunnarsson með 879 atkvæði í 1.-3. sætið.
Höfða mál gegn olíufélögunum
Vestmannaeyjabær hefur ákveðið að höfða mál á hendur olíufélögunum vegna verðsamráðs. Olíu-félögin höfnuðu kröfu Vestmannaeyjabæjar. Tæplega 200 manns hafa áhuga á málsókn.

Ávinningurinn af samráði ótvíræður
Í greinargerð lögmanns Samkeppniseftirlitsins eru röksemdir olíufélaganna fyrir „litlum sem engum ávinningi af samráði“ taldar léttvægar.

600.000 tonna álver ekki nefnt
Bjarne Reinholdt, framkvæmdastjóri Norður- Atlantshafsskrifstofu Norsk Hydro á Íslandi, segir að umræða sumra íslenskra fjölmiðla um þær fyrirætlanir fyrirtækisins að byggja 600.000 tonna álver algerlega úr lausu lofti gripna. Hann segir einnig að fyrirtækið ætli sér ekki að leggja niður álver í Noregi heldur þvert á móti séu fyrirætlanir um að auka þá starfsemi á næstu árum.
Mikið frost áfram
Veður Eins og þessi vel dúðaði stöðumælavörður ber með sér stóð Ísland undir nafni í gær eins og alla undanfarna viku. Mikið frost var um allt land og fóru tölur niður fyrir tíu gráður víða á Norðurlandi. Minnkandi vindur gerir þó tilveruna bærilegri en undanfarið og draga fer úr vindi á næstu dögum. Það bítur þó í kinnar landsmanna áfram því frost verður töluvert áfram í dag.
Hærra frítekjumark aldraðra
Ríkisstjórnin leggur til að 300.000 króna frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega taki að fullu gildi um næstu áramót og gildistöku þar með flýtt um þrjú ár. Í frumvarpi um almannatryggingar sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er gert ráð fyrir að frítekjumarkið taki gildi í tveimur áföngum, árið 2009 og 2010. Er þessi ákvörðun sögð endurspegla vilja ráðherra og ríkisstjórnar að koma til móts við eindregnar óskir talsmanna fulltrúa aldraðra og aldraðra sjálfra.
Sex af sjö í Sjálfstæðisflokki
Tveir af þremur bæjarfulltrúum Vestmannaeyjalistans eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn, sem er einn í meirihluta í bæjarstjórninni með fjóra af sjö bæjarfulltrúum.

Bregðast þarf við vanda strax
„Ég er hvorki bjartsýn né svartsýn,“ segir Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra að lokinni loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kenía.
Hrafntinnunni verði skilað
Landvernd skorar á umhverfisráðherra að taka til efnislegrar meðhöndlunar kæru Guðrúnar S. Gísladóttur sem krefst þess að leyfi til hrafntinnutöku úr Hrafntinnuskeri verði fellt úr gildi og hrafntinnunni sem tekin var verði skilað.
Vilja stuðla að umferðaröryggi
Verktakar telja að núverandi kröfur um öryggi og merkingar við vegaframkvæmdir séu of slakar og þær þurfi að auka. Verja þurfi mun meira fé til öryggismála en nú sé gert. „Verktökum er ekki um að kenna – þeir vilja gjarnan breytingar,“ segir í yfirlýsingu frá verktökum.
Akureyri fallegasti bærinn
Akureyri er fallegasti bær landsins. Þetta er niðurstaða könnunar Fréttablaðsins. Akureyri hlaut 22,4 prósent atkvæða þeirra sem þátt tóku í könnuninni og hlaut því yfirburðakosningu í efsta sæti. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, er rígmontinn með niðurstöðuna þó að ekki komi hún honum á óvart.

Það skiptir öllu máli að klæða sig vel
Orkuveitur hafa vart undan að dæla heitu vatni á skrifstofur og heimili landsins. Sú þarfa þjónusta gagnast lítið því fólki sem Fréttablaðið tók tali í gær.

Bæjarsjóður borgar ekkert
„Bærinn leggur ekki fjármagn í þetta verkefni öðru vísi en að leggja til húsnæðisaðstöðu," segir Páll Hilmarsson, formaður skólanefndar Garðabæjar, um fjármögnun svokallaðrar Vinaleiðar sem Garðakirkja stendur fyrir í þremur grunnskólum bæjarins. Í sumar sótti séra Jóna Hrönn Bolladóttir um styrk frá bænum vegna Vinaleiðar.
Segir Jón Magnússon ekki löglegan flokksmann
Þingflokkur Frjálslynda flokksins segir umræðu síðustu daga vera villandi. Enginn þingmannanna vildi ræða viðtal við Margréti Sverrisdóttur í blaðinu í gær, en þar sagðist hún ekki vilja vera í flokki sem markaðist af skoðunum Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns og jafnaði þeim við þjóðernishyggju.

Lengd viðvera fatlaðra barna
Ríki og sveitarfélög munu skipta með sér kostnaði við lengda viðveru allt að 370 fatlaðra grunnskólabarna í 5. til 10. bekk frá 1. janúar 2007. Ríkisstjórnin samþykkti í gær að félagsmálaráðuneytið gangi til viðræðna við Samband íslenskra sveitarfélaga um útfærslu á greiðsluþátttöku ríkisins til bráðabirgða í tvö ár. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra ætlar sér skamman tíma til að ganga frá því.

Deilur um sjúkraliðanámsleið
Óánægju gætir hjá sumum sjúkraliðum vegna svokallaðrar brúar í námi til sjúkraliða sem hófst í haust. Hundruð hafa skrifað sig á undirskriftarlista til að mótmæla brúnni, að sögn Dagbjartar Óskar Steindórsdóttur sjúkraliða.

Eitt ríkasta sveitarfélagið
Fljótsdalshreppur er eitt alríkasta sveitarfélag á Íslandi. Hreppurinn hafði ríflega hundrað og níutíu milljónir í tekjur árið 2005 en tæplega 81 milljón í gjöld. Þegar búið var að greiða reikninga átti hreppurinn tæplega 112 milljónir króna handbærar og hafði handbært fé hækkað um tæplega 112 milljónir frá 2004.
Yfir 500 manns sóttu um 91 lóð
Yfir fimm hundruð umsóknir bárust um lóð á Hraunsholti eystra og í Garðahrauni þegar úthlutun á níutíu og einni lóð á þessum tveimur svæðum var auglýst nýlega. Umsóknirnar skiptast nokkuð jafnt á milli svæðanna eftir því sem kemur fram á vef Garðabæjar.
Franklin Steiner í mál við Blaðið
Franklin Steiner hefur höfðað meiðyrðamál á hendur Blaðinu vegna umfjöllunar þess um sig í grein þar sem fjallað var um störf lögreglunnar í Reykjavík.
Fékk tinnu að láni
Nýsir hf. sem sér um sýningarskála Íslands á Feneyja-tvíæringnum sótti um og fékk leyfi til að fjarlægja næstum tveggja metra háan hrafntinnustein og flytja til Feneyja vegna hennar. Umræddur steinn, sem var áður á Dómadalsleið milli Landmannahellis og Frostastaðavatns, er þekktur fyrir glæsileika að sögn Árna Bragasonar, forstöðumanns náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar.

Nægur snjór í Hlíðarfjalli
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli við Akureyri verður opnað kl. 10 í dag. Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, segir þá vera í fyrra fallinu að opna í ár, jafnvel þótt svæðið hafi verið opnað í byrjun nóvember í fyrra.

Þjófagengi ákært
Höfðað hefur verið opinbert mál á hendur ungmennunum sem fóru ránshendi um landið í september síðastliðnum. Ákæran nær yfir hluta þeirra brota sem hópurinn er talinn hafa framið frá seinni hluta sumars og fram í september. Sá sem flestir liðir ákærunnar beinast að, 21 árs gamall karlmaður, situr enn í síbrotagæsluvarðhaldi.
Krefst hárra bóta
Lögmaður Stefáns E. Matthíassonar, sem sagt var upp störfum sem yfirlæknir við æðaskurðlækningadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss hinn 28. nóvember í fyrra, hefur sent spítalanum bótakröfu fyrir hönd Stefáns. Héraðsdómur kvað upp dóm hinn 29. júní í ár þess efnis að uppsögnin hefði verið ólögleg.
Strætóferðir féllu niður vegna vinds
Sex strætóferðir frá Akranesi til Reykjavíkur féllu niður vegna veðurs á fimmtudag. Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætós, segir að ferðirnar hafi fallið niður þar sem vindur hafi farið upp í fimmtíu metra á sekúndu í hviðum á Kjalarnesi. Ferðir falli niður fari vindur yfir 34 metra á sekúndu og 32 metra á sekúndu í hálku.
Náði í aukasett af bíllyklum
Karlmaður um þrítugt var handtekinn tvívegis á rúmri klukkustund vegna ölvunaraksturs aðfaranótt föstudags. Fyrst var hann stöðvaður í Tryggvagötu og bíllyklar hans gerðir upptækir. Maðurinn lét þó ekki segjast, náði sér í aukalykla og hélt för sinni áfram. Lögreglan stöðvaði hann aftur stuttu síðar á Vesturlandsvegi og þurfti að beita manninn valdi til að ná úr honum blóðsýni.
Með alls kyns fíkniefni á sér
Fjögur fíkniefnamál komu upp í Kópavogi á fimmtudagskvöld. Tæplega tvítugur piltur var handtekinn í miðbænum með töluvert magn fíkniefna í söluumbúðum. Hann var færður til yfirheyrslu og viðurkenndi undir morgun að hann hafi ætlað sér að selja efnin. Að sögn lögreglu var hann með alls kyns fíkniefni í fórum sínum, þar á meðal hass, amfetamín, kókaín, ofskynjunarsveppi og stera.

500 atkvæði talin í prófkjöri Framsóknar í Norðvesturkjördæmi
Eftir að 500 atkvæði hafa verið talin er staðan eftirfarandi: 1. Magnús Stefánsson með 275 atkvæði 1. sæti, Herdís Sæmundardóttir með 290 atkvæði í 1.-2. sæti, Kristinn H. Gunnarsson með 259 atkvæði í 1.-3. sæti, Valdimar Sigurjónsson með 307 atkvæði í 1.-4. sæti og Inga Ósk Jónsdóttir með 366 atkvæði í 1.-5. sæti.

Fyrstu tölur í prófkjöri Framsóknar í Norðvesturkjördæmi
Samkvæmt fyrstu tölum leiðir Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, listann með 80 atkvæði, í öðru sæti er Herdís Sæmundardóttir með 79 atkvæði, í því þriðja er Kristinn H. Gunnarsson með 80 atkvæði, í fjórða sæti er svo Valdimar Sigurjónsson með 90 atkvæði og í fimmta sæti er Inga Ósk Jónsdóttir með 113 atkvæði. Alls hafa 150 atkvæði verið talin.

Fyrstu tölur væntanlegar í prófkjöri Framsóknar í Norðvesturkjördæmi
Talning atkvæða í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi er nú hafin. Atkvæði voru greidd með pósti og kusu alls 1.666 manns af 2522 sem voru á kjörskrá, eða um 66,6%. Búist er við fyrstu tölum eftir stutta stund eða nú klukkan tíu í kvöld.