

Gengi hlutabréfa í hinum færeyska Eik banka hefur hækkað um 0,94 prósent í Kauphöllinni í dag eftir 6,2 prósenta fall í gær. Á móti einkennist upphaf viðskiptadagsins af lækkun hlutabréfaverðs.
Bandaríkjadalur fór rétt í þessu í 87,1 íslenskar krónur og hefur ekki verið dýrari síðan snemma í nóvember árið 2002. Hann hefur styrkst um 40 prósent gagnvart krónu frá áramótum.
Gengi hlutabréfa í Kaupþingi sem skráð eru í Nasdaq-OMX kauphöllina í Stokkhólmi í Svíþjóð hafa lækkað um 1,85 prósent frá upphafi viðskiptadagsins í dag. Þetta er nokkuð í samræmi við þróunina á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum eftir skell í gær.
Helstu hlutabréfavísitölur beggja vegna Atlantsála féllu um tvö prósent og meira í dag. Óbreytt stýrivaxtastig á evrusvæðinu og í Bretlandi auk vísbendinga um versnandi horfur í efnahagsmálum í Evrópu ollu falli á helstu hlutabréfum í álfunni. Í Bandaríkjunum ollu neikvæðar fréttir úr smásöluverslun og vísbendingar um breytt neyslumynstur því að fjárfestar urðu svartsýnir. Þá bætti ekki úr skák að atvinnuleysi hefur ekki verið meira síðan í nóvember árið 2003.
Bandaríkjadalurinn rauf 86 krónu múrinn fyrir stundu. Það hefur ekki gerst síðan seint í nóvember árið 2002. Hann fór yfir 85 krónurnar í fyrsta sinn í tæp sex ár í gær.
Gengi hlutabréfa í hinum færeyska Eik banka féll um 6,2 prósent í Kauphöllinni í dag. Þetta er mesta fall dagsins sem litaðist af rauðum lit lækkunar á hlutabréfamarkaði. Þetta er jafnframt annar dagurinn í röð sem Úrvalsvísitalan lækkar um rúmt prósent.
Hagræðing felst í sameiningu fjármálafyrirtækja hér á landi. Þetta segir greiningardeild Glitnis í Morgunkorni sínu í dag. Þar er bent á að 34 fjármálafyrirtæki séu starfandi hér á landi sem hafa starfsleyfi. Verði það að teljast einstakt í ekki stærra hagkerfi.
Englandsbanki hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í fimm prósentum. Þetta er fimmti mánuðurinn í röð sem vaxtastigið stendur óbreytt og í samræmi við spár.
Gengi hlutabréfa í Existu féll um 2,4 prósent við upphaf viðskiptadagsins í Kauphöllinni í dag. Þetta er mesta lækkun dagsins.
Gengi krónunnar hefur veikst um 0,33 prósent í morgun og stendur gengisvísitalan í 161,1 stigi. Bandaríkjadalur kostar nú rúmar 85 krónur og hefur ekki verið dýrari síðan í desember árið 2002, líkt og fram kom í Fréttablaðinu í dag.
Húsnæðisverð í Bretlandi hefur lækkaði um 12,7 prósent á milli ára í ágúst, samkvæmt tölum breska fasteignalánasjóðsins Halifax Þetta er talsvert meira en fasteignalánveitandinn Nationwide sagði fyrir nokkru en hann reiknaði svo til að verðið hafi fallið um 10,7 prósent á milli ára.
Sænski seðlabankinn ákvað í dag að hækka stýrivexti um 25 punkta og verða þeir eftirleiðis 4,75 prósent. Bankastjórnin sagði í morgun að breytingar verði ekki gerðar á vöxtunum út árið vegna aðstæðna í efnahagslífinu.
Stýrivaxtadagur er á evrusvæðinu og í Bretlandi á morgun. Sérfræðingar reikna flestir með óbreyttu vaxtastigi þrátt fyrir svartsýnar efnahagshorfur á næstunni.
Icelandair var eitt um að fljúga upp á hlutabréfamarkaði í dag. Flugið var ekki hátt en gengi bréfa í félaginu hækkaði um 0,49 prósent. Á móti lækkaði gengi flestra skráðra félaga.
Gengi hlutabréfa hefur almennt lækkað nokkuð á helstu hlutabréfamörkuðum í dag. Minnkandi hagvöxtur á evrusvæðinu og svartsýnar horfur eiga hlut að máli, samkvæmt erlendum fjölmiðlum.
Gengi hlutabréfa í Existu féll um 4,15 prósent í upphafi viðskiptadagsins í Kauphöllinni í dag. Félagið hækkaði mest í gær, eða um 3,49 prósent. Að öðru leyti litast hlutabréfamarkaðurinn af lækkun.
Gengi íslensku krónunnar hefur veikst um rúm 0,8 prósent á gjaldeyrismarkaði í dag. Í gær styrktist það um 0,6 prósent. Um svipað leyti og tilkynnt var um lántöku ríkisins upp á 30 milljarða króna rauk það reyndar upp um 1,2 prósent þegar mest lét.
Hagnaður norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera Software námu 17,7 milljónum norskra króna, jafnvirði um 270 milljóna íslenskra, á öðrum ársfjórðungi samanborið við 2,2 milljónir á sama tíma í fyrra.
Atvinnuleysi hefur aukist mikið í Bretlandi í kjölfar samdráttar í efnahagslífinu. Ástandið hefur ekki verið verra í rétt tæp sjö ár, samkvæmt upplýsingum KPMG og fleiri fyrirtækja sem tengjast breskum atvinnumarkaði.
Bakkavör ætlar að blása í heilmikla söluaukningu á næstu fjórum árum. Fyrirtækið er þeim bræðrum Ágústi og Lýði Guðmundssonum svo hjartfólgið að frekar selur Exista eignir en horfa upp á eignarhlut sinn í Bakkavör þynnast. Þetta segir Ágúst Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins,í stóru viðtali við breska viðskiptadagblaðið Financial Times í dag.
Gengi hlutabréfa í Existu hækkaði um 3,49 prósent í enda viðskiptadagsins í Kauphöllinni. Félagið tók sprett á fyrstu mínútum dagsins. Á hæla Existu fylgdi gengi bréfa í stoðtækjafyrirtækinu Össuri, sem fór upp um 2,48 prósent. Þá hækkaði gengi Bakkavarar um 2,3 prósent.
Miklar líkur eru á samdráttarskeiði í Bretlandi á þessu ári. Þetta kemur fram í hagspá Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
Gengi hlutabréfa í Existu rauk upp um rétt rúm fjögur prósent við upphaf viðskiptadagsins í Kauphöllinni í dag í þrettán viðskiptum upp á rúma 63 milljónir króna. Þetta er talsvert yfir annarri hækkun á markaði í dag.
Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði verulega í dag en fellibylurinn Gústav fór yfir Mexíkóflóa í gær. Verðið er undir 106 dölum á tunnu og hefur ekki verið lægra í heila fimm mánuði.
Gengi hlutabréfa í færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum hækkaði um 2,74 prósent í Kauphöllinni í dag. Fast á hæla þess var gengi stoðtækjafyrirtækisins Össurar, sem hækkaði um 2,43 prósent. Talsvert á hæla þeirra var gengi bréfa í Alfesca, sem hækkaði um rétt rúmt prósent. Að öðru leyti einkenndi lækkun viðskiptadaginn á hlutabréfamarkaði.
Þýski risabankinn Commerzbank ákvað í gær að kaupa landa sinn Dresdner-banka. Kaupverð nemur 9,8 milljörðum evra, jafnvirði 1.200 milljörðum íslenskra króna. Viðskiptin gera Commerzbank að öðrum umsvifamesta banka Þýskalands á eftir Deutsche Bank.
Gengi hlutabréfa í stoðtækjaframleiðandanum Össuri hefur hækkað um 1,1 prósent í upphafi viðskiptadagsins í dag. Það er mesta hækkun dagsins. Á eftir Össuri fylgir Bakkavör, en gengi bréfa þess hefur hækkað um tæp 0,4 prósent. Önnur félög hafa ekki hækkað í verði.
Gengi hlutabréfa hefur almennt lækkað á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í dag. Erlendir fjölmiðlar eru almennt sammála um að snörp lækkun á bandarískum hlutabréfamarkaði á föstudag og svartsýnar spár fjárfesta til skamms tíma hafi litað markaðinn.
Heimsmarkaðsverð á hráolíu fauk upp um 1,6 prósent í dag og stendur nú í tæpum 118 dölum á tunnu. Veðurofsi af völdum fellibylsins Gústavs við Mexíkóflóa er um að kenna en starfsfólk olíuvinnslufyrirtækja við flóann er að yfirgefa svæðið.
Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að sekta sparisjóðinn Byr um eina milljón króna á dag vegna tafa á upplýsingum. Málið varðar tafir á gögnum sem eftirlitið óskaði eftir vegna rannsóknar á samruna Spron og Kaupþings.