Innlent

Hundrað viðburðir til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Meðfylgjandi er mynd frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Myndina tók Magnús Ólafsson, ljósmyndari, þann 7. júlí 1915 þegar efnt var til hátíðahalda í tilefni af kosningarétti kvenna sem konungur staðfesti þann 19. júní það sama ár.
Meðfylgjandi er mynd frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Myndina tók Magnús Ólafsson, ljósmyndari, þann 7. júlí 1915 þegar efnt var til hátíðahalda í tilefni af kosningarétti kvenna sem konungur staðfesti þann 19. júní það sama ár. mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Reykjavíkurborg mun standa fyrir 100 viðburðum, smáum og stórum, í tilefni þess að öld er liðin frá því að konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Með hátíðahöldunum verður minnst þess árangurs sem náðst hefur í kvenréttindabaráttunni og hvatt til jafnréttis kynja á öllum sviðum.

Forsætisnefnd mun hafa umsjón með hátíðahöldunum sem hefjast formlega í dag með umfjöllun í borgarstjórn. Meðal viðburða á afmælisárinu er myndlistarsýningin Vatnsberinn FJALL+KONA, sem haldin verður í Ásmundarsafni í febrúar, hátíðardagskrá á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars, ráðstefna um aðgerðir gegn heimilisofbeldi í apríl og samsýning 30 myndlistarkvenna í Listasafni Reykjavíkur í september, en þær konur sýndu fyrst saman á Kjarvalsstöðum á árinu  1985. Þá má nefna gönguferðir á kvennasöguslóðir og samstarf við ýmsa skipuleggjendur í grasrótarstarfi í borginni.

Viðburðir vegna kosningaafmælisins verða haldnir af öllum fagsviðum Reykjavíkurborgar og munu tengjast öðrum hátíðum á hennar vegum, s.s. Menningarnótt, Fjölmenningardegi og Barnamenningarhátíð.

Stofnuð hefur verið Facebook-síða í tilefni afmælisins, þar sem upplýsingum um alla viðburði  verður deilt og jafnframt miðlað upplýsingum um stöðu kvenna á ýmsum tímum og kona vikunnar kynnt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×