Fleiri fréttir

Látinn eftir hnífstungu á Monte Carlo

Karlmaður á fimmtugsaldri, sem hlaut lífhættulega áverka eftir árás á Monte Carlo fyrir hálfum mánuði síðan, lést af þeirra völdum fyrr í vikunni. Karlmaður um fertugt var í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 26. ágúst af kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að maðurinn uni þeirri niðurstöðu.

Fiskvinnslufyrirtæki grunuð um að brjóta gegn rétti ungmenna

Vinnueftirlitið ætlar að ráðast í könnun á störfum og starfsskilyrðum ungmenna í fiskvinnslufyrirtækjum á næstunni. Fyrirtækin megi búast við kæru ef í ljós kemur að þau hafi brotið reglugerð um vinnu barna og unglinga er að ræða. Vinnueftirlitið hefur sent út dreifibréf til fiskvinnslufyrirtækja um land allt vegna þessa.

Viðamikið eftirlit lögreglu um helgina

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með viðamikið eftirlit um verslunarmannahelgina eins og jafnan áður. Áhersla hefur verið á eftirlit með ferðavögnum/eftirvögnum og skráningu og skráningarmerkjum ökutækja. Slíkt eftirlit hefur verið mjög virkt hjá lögreglu í sumar. „Það er ánægjulegt að sjaldnast hefur verið ástæða fyrir lögreglu til að kæra en í nokkrum tilvikum hefur ökumönnum verið bent á atriði sem þeir þurfa að laga, t.d. að hliðarspeglar ökutækja sem draga breiða eftirvagna séu samkvæmt reglum. Flestar aðfinnslur gátu ökumenn lagað á vettvangi eða ábendingarnar fóru með ferðalöngunum sem gott veganesti. Í flestum tilvikum virðast ferðalangar því huga vel að ástandi ferðavagna/ökutækja og passa að fyllsta öryggis sé gætt. Ekki má heldur gleyma mikilvægi þess að þeir sem eru með ferðavagna/eftirvagna í eftirdragi virði reglur um hámarkshraða, líkt og aðrir ökumenn," segir í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér vegna komandi helgar. Jafnframt þessu verður haldið úti eftirliti í hverfum í umdæminu. Það er fátt óskemmtilegra en að koma heim úr ferðalagi og verða þess var að innbrotsþjófar hafi látið greipar sópa um heimilið. Af þeirri ástæðu munu lögreglumenn fylgjast með íbúðarhúsnæði um verslunarmannahelgina eins og kostur er. Lögreglan vill jafnframt hvetja fólk, sem heldur burt af höfuðborgarsvæðinu í lengri eða skemmri tíma, til að ganga tryggilega frá heimilum sínum. Gott ráð er biðja nágranna um að líta eftir húsnæði. Fá þá til að kveikja ljós, fjarlægja póst, leggja í bílastæði o.s. frv. Sömuleiðis er minnt á mikilvægi þess að verðmæti séu ekki skilin eftir í augsýn en þjófar sækjast m.a. eftir fartölvum, myndavélum o.þ.h. hlutum. Þá er rétt að hafa hugfast að GPS-tækjum er oft stolið úr bílum og því nauðsynlegt að gera viðeigandi ráðstafanir þegar ökutæki er yfirgefið. Lögreglan hvetur líka fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir. Það getur oft skipt miklu máli að fá lýsingu á mönnum og bifreiðum. Það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan. Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver embættisins á Hverfisgötu 113-115, Reykjavík, í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is

Bætur greiddar út á frídag verslunarmanna

Mánaðargreiðsla Tryggingastofnunar til lífeyrisþega og annarra bótaþega vegna ágústmánaðar verður greidd út mánudaginn 1. ágúst, sem er frídagur verslunarmanna. Nokkuð hefur borið á fyrirspurnum, bæði til Tryggingastofnunar og fréttastofu, vegna þess að útborgunardagur fellur á frídag og af hverju ekki sé greitt út síðasta virka dag þar á undan. Þorgerður Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og kynningarsviðs Tryggingastofnunar, segir það vera í vinnureglum stofnunarinnar að greiða út 1. hvers mánaðar, sama þó um frídag sé að ræða. Í undantekningartilfellum hafi ráðherra velferðarmála veitt undanþágu frá þessu ef fyrir liggur að það tefst lengi vegna frídaga að bótaþegar og lífeyrisþegar geti nálgast greiðslurnar í banka. Það hefur hins vegar ekki verið gert nú. Þorgerður vekur sérstaka athygli á því að um er að ræða fyrirframgreiðslu, það er að bætur og lífeyrisgreiðslur sem greiddar eru út á mánudag eru vegna komandi mánaðar, ólíkt því sem gerist hjá flestum launþegum sem fá laun greidd eftir unninn mánuð.

Skaftárhlaupið komið í byggð eftir sólarhring

Sólarhringur gæti liðið þangað til að hlaupið í Skaftárdal gæti farið að sjást í byggð, segir Óðinn Þórarinsson vatnamælingamaður hjá Veðurstofu Íslands. "Það eru tíu til tólf tímar í að við sjáum eitthvað vatn fara að vaxa við sveinstind og þetta verður ekki komið niður í byggð í Skaftárdal fyrr en eftir sólarhring," segir Óðinn.

Hlaup að hefjast í Skaftá

Samkvæmt upplýsingum frá vatnamælingamönnum Veðurstofu Íslands er hlaup að hefjast í Skaftá. Skaftá hljóp einnig síðasta sumar. Í Skaftárhlaupum getur vatn farið yfir Skaftártunguveg við Hvamm og vegurinn í Skaftárdal lokast, fyrir kemur að vatn fari yfir veginn við Hólaskjól á Fjallabaksleið nyrðri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum. Upptök Skaftár eru í Skaftárjökli í Vatnajökli austan við Langasjó. Fólki er ráðlagt að vera ekki nálægt upptökum. Skaftár eða í lægðum meðfram henni vegna mengunar af völdum brennisteinsvetnis, en brennisteinsvetni getur skaðað slímhúðir í augum og öndunarvegi. Náið er fylgst með framvindu hlaupsins.

Pólverji framseldur til heimalandsins

Hæstiréttur hefur staðfest ákvörðun innanríkisráðuneytisins, um að Pólverji sem hefur hlotið dóma í heimalandi sínu skuli verða framseldur þangað. Héraðsdómur hafði áður fellt ákvörðun ráðuneytisins úr gildi.

Telur ekki útséð um aðra kreppu

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist vera uggandi yfir alþjóðlegu efnahagsástandi. Hann segir að í síðustu viku hafi verið umtalsverð hætta á nýrri kreppu og ekki sjái fyrir endann á því máli enn þá.

Herjólfur ferjar 300 þúsund farþega í ár

Útlit er fyrir að Herjólfur ferji 300 þúsund farþega til og frá Vestmannaeyjum í ár en til samanburðar má geta þess að þessi fjöldi var einungis 120 þúsund síðasta árið sem Herjólfur tók höfn í Þorlákshöfn.

Verður að auka verðmætasköpun í landinu

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir stöðuna í ríkisfjármálum slæma. Það sé grafalvarlegt að áætlanir um rekstur ríkisins á síðasta ári skuli ekki hafa náð fram að ganga, jafnvel þó þar spili innspýtingarútgjöld inn í.

Fyrsta íslenska stjórnarskráin að fæðast

Frumvarp að nýrri stjórnarskrá var samþykkt samhljóða á ráðsfundi stjórnlagaráðs í gær. Það verður síðan afhent Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis á morgun.

Fólskuleg líkamsárás í Suðurhólum

Hópi barna varð varð illa brugðið við að verða vitni að fólskulegri líkamsárás og ránstilraun á gangstíg í Suðurhólum í Reykjavík, við leiksvæði Hólabrekkuskóla í gærkvöldi.

Landlæknisembættið flutt

Aðsetur Landlæknisembættisins flyst á Barónsstíg 47, þar sem Heilsuverndarstöðin í Reykjavík var áður til húsa, þann 2. ágúst næstkomandi.

Dópaður ökumaður tekinn fyrir hraðakstur á Geirsgötu

Ökumaður var stöðvaður á 99 kílómetra hraða á Geirsgötu í nótt þar sem hámarkshraði er 50 kílómetrar. Lögreglumönnum leist ekki allskosta á ökumanninn, enda kom í ljós að hann var undir áhrifum fíkniefna.

Hafnsögumenn semja og aflýsa verkfalli

Samningar hafa tekist milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og þeirra hafnsögumanna sem enn voru með lausa samninga. Þar með hefur boðuðu verkfalli hafnsögumanna verið aflýst en það átti að hefjast þann 4. ágúst n.k.

Vilja rækta tilapíu og flúru á Suðurnesjum

Tvö fyrirtæki vinna nú að því að hefja fiskeldi á Suðurnesjum og verður framleiðslan samtals um fimm þúsund tonn innan fárra ára ef hugmyndirnar ganga eftir. Einnig munu þá að minnsta kosti 110 manns vinna við þessar stöðvar.

Fjórir skátar reknir fyrir kynferðisbrot gegn börnum

Forsvarsmenn Bandalags íslenskra skáta (BÍS) hafa rekið fjóra menn úr hreyfingunni á undanförnum árum eftir að upp komst að þeir höfðu beitt unga skáta kynferðisofbeldi. Elsta málið er um 30 ára og það nýjasta átti sér stað í fyrra.

Sakamaður skal framseldur

Sakamaður skal framseldur til Póllands, samkvæmt dómi Hæstaréttar. Maðurinn sem um ræðir á eftir að afplána refsingu sem hann var dæmdur til í heimalandi sínu fyrir líkamsárásir og hylmingu.

Líklegast munu allir vökna

Veðurfræðingar eru ekki öfundsverðir nú fyrir verslunarmannahelgina þegar öll spjót standa á þeim en veruleg óvissa ríkir enn um veðurhorfur næstu fjóra daga, að sögn Þorsteins V. Jónssonar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Engir saurgerlar í Nauthólsvík

Umhverfismál Mælingar á saurgerlum við strandlengju Reykjavíkur sýna að sjórinn er hreinn og vel innan þeirra marka sem sett eru í reglugerðum. Vatnsgæði sjávar eru mæld á ellefu stöðum frá apríl til október.

Miklar göngur sagðar í Hítará

Miklar göngur voru í Hítará um síðustu helgi. Holl sem lauk veiðum á sunnudaginn náði fimmtíu löxum á land. Þeir sem tóku við ánni veiddu svo sautján laxa á fyrstu kvöldvaktinni að því er segir á vef Stangveiðifélags Reykjavíkur.

Með þekktum gullsmiðum

Gullsmiðurinn Kristján Eyjólfsson hefur fengið inngöngu í hin virtu bresku samtök The Goldsmiths‘ Company Directory, sem eru lokuð samtök gullsmiða í Bretlandi. Samtökin eiga rætur sínar að rekja til þrettándu aldar og eru meðlimir nú einungis þrjú hundruð. Kristján er eini Íslendingurinn í samtökunum.

Yfirlýsing ungra jafnaðarmanna vegna atburðanna í Noregi

Ungir jafnaðarmenn á Íslandi gáfu í dag út yfirlýsingu vegna atburðanna í Noregi síðastliðinn föstudag. Í yfirlýsingunni segja þau árásirnar ekki aðeins vera árás á ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins eða stjórnvöld í Noregi, heldur sé um að ræða árás á lýðræðið allt.

Mörg slys rakin til slakra viðgerða á bílum

Alvarlegar afleiðingar margra slysa í umferðinni má rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að viðgerð á bílum. Alltof margir spara sér pening í stað þess að láta fagaðila gera við ökutæki sem uppfylla öryggiskröfur. Dauðans alvara segir maður sem rannsakað hefur umferðarslys með lögreglu og rannsóknarnefnd umferðarslysa.

Framlag íslendinga jafnhátt og framlag íslenska ríkisins

Á tveimur vikum hafa hátt í sjö þúsund Íslendingar safnað átján og hálfri milljón króna fyrir vannærð og sveltandi börn í Sómalíu, Keníu og Eþíópíu. Þetta jafngildir framlagi íslenska ríkisins til sama málefnis. Forsvarsmenn Unicef á Íslandi eiga ekki til orð yfir árangrinum.

Reykjavíkurborg áminnt og sektuð

Innanríkisráðuneytið hefur sent Reykjavíkurborg bréf þar sem þess er krafist að þriggja ára fjárhagsáætlun borgarinnar verði kynnt innan fjögurra vikna, annars verði gripið til úrræða. Staðgengill borgarstjóra segir fjármögnun málefna fatlaðra það eina sem enn eigi eftir að fullvinna.

Stjórnlagaráð samþykkti alla kafla samhljóða

Stjórnlagaráð samþykkti samhljóða alla kafla í drögum að nýrri stjórnarskrá á síðasta fundi sínum í dag eftir rúmlega þriggja mánaða vinnu. Nú fær þjóðin orðið, sögðu fultrúar stjórnlagaráðs sem tóku lagið eftir að drögin að stjórnarskránni voru samþykkt.

Gera ráð fyrir að selja tæplega 600 þúsund lítra af bjór

Gert er ráð fyrir að um 125 þúsund viðskiptavinir heimsæki Vínbúðirnar í vikunni sem er að líða eða 25 - 30% fleiri en vikuna á undan. Árið 2010 komu 124 þúsund viðskiptavinir sem er svipaður fjöldi og árið áður. Þá voru seldir 744 þúsund lítrar af áfengi þar af 587 þúsund lítrar af bjór.

Stjórnlagaráð greiðir bratt atkvæði um frumvarpið í heild

Atkvæðagreiðsla stjórnlagaráðs um frumvarp um nýja stjórnarskrá fer fram innan stundar. Afgreiðsla mála hefur gengið hratt í dag. Nú síðast var samþykktur kafli um utanríkismál og kafli um stjórnarskrárbreytingar. Í þeim fyrri er meðal annars kveðið á um að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Í kafla um stjórnarskrárbreytingar segir meðal annars að þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytinga á stjórnarskrá skuli það borið undir atkvæði allra ksoningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Yfirlögregluþjónn varar við nauðgunarlyfjum

„Það er mikilvægt að leita til einhvers sem maður treystir og þekkir en ekki til næsta manns ef það er einhver sem er að bjóða fram aðstoð sína," segir Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn um það hvernig fólk eigi að bregðast við ef því er byrlað nauðgunarlyfi.

Trúnaðarbrestur innan stjórnar Borgarahreyfingarinnar

Alvarlegur trúnaðarbrestur hefur komið upp innan stjórnar Borgarahreyfingarinnar og skora aðrir stjórnarmenn á Guðmund Andra Skúlason að segja sig úr stjórn hreyfingarinnar. Áskorun þessi var bókuð á stjórnarfundi sem haldinn var í gær. Þar kom fram gagnrýni á meðferð Guðmundar Andra á fjármálum félagsins og formanni falið að koma bókhaldsgögnum hreyfingarinnar til endurskoðanda sem fyrst. Guðmundur Andri sendi í framhaldinu frá sér ítarlega greinargerð þar sem hann segir ásakanirnar ekki eiga við rök að styðjast, og segir að um sé að ræða góða aðför að heiðri hans.

Gátlisti ökumanna fyrir helgina

Nú er verslunarmannahelgin framundan og má búast við mikilli umferð um vegi landsins. Umferðarstofa óskar landsmönnum ánægjulegrar helgar og öruggrar heimkomu, en til að tryggja það sem best vill Umferðarstofa koma eftirfarandi á framfæri: Ekki fara of hratt né of hægt Ökumenn eru hvattir til að halda jöfnum hraða og fara hvorki of hratt né of hægt því með og hægum akstri eykst hættan á óþarfa framúrakstri. Ef ökumenn þurfa að fara hægar en almennur hámarkshraði segir til um eins og t.d. ökumenn sem eru með eftirvagna þá er mjög brýnt að þeir hagi akstri þannig að sem auðveldast sé fyrir aðra bíla að komast fram úr. Við framúrakstur skal þess gætt að bannað er að fara framúr yfir heila óbrotna línu sem aðskilur akstursstefnur. Minnt skal á að ökumenn með eftirvagna mega ekki fara hraðar en 80 km/klst. Lítill hópur ökumanna er í mikilli hættu Þótt öryggisbeltin hafi fyrir löngu sannað ágæti sitt og flestir ökumenn noti þau er sá litli hópur ökumanna sem ekki notar öryggisbelti hlutfallslega einn þeirra hópa vegfarenda sem eru í hvað mestri lífshættu. U.þ.b. 20% þeirra sem látast í umferðarslysum eru taldir hafa látist af völdum þess að þeir voru ekki í öryggisbeltum. Einn laus einstaklingur í bíl stofnar ekki bara eigin lífi í hættu heldur og einnig annarra sem í bílnum eru. Við árekstur eða bílveltu kastast viðkomandi til í bílnum og höggþunginn getur orðið margföld þyngd hans. Sem dæmi má nefna að ef maður sem er 75kg af þyngd lendir í árekstri á 70km hraða án bílbelta verður höggþungi hans u.þ.b. 6 tonn. Ökumenn eru hvattir til að ganga tryggilega frá farangri þannig að ekki sé hætta á að hann kastist til og valdi líkamstjóni við árekstur. Manndráp af gáleysi 20% allra banaslysa í umferðinni eru af völdum þess að ökumaður er undir áhrifum áfengis og er þá ekki meðtaldir aðrir vímugjafar. Oft eru áhrifin ekki mikil en afleiðingarnar hinsvegar mjög alvarlegar. Í flestum tilfellum eiga tryggingarfélög endurkröfurétt á ökumann sem valdur er að slysi vegna ölvunar og ef ölvaður ökumaður verður valdur að dauða einhvers er litið á það sem manndráp af gáleysi og kveðnir hafa verið upp fangelsisdómar í slíkum tilfellum. Það er mikilvægt að aðstandendur ökumanns sem hyggst aka undir áhrifum vímuefna reyni að koma í veg fyrir það. Ef það tekst ekki með góðum ráðum skal hringja í 112 og koma með því í veg fyrir að viðkomandi verði valdur að alvarlegu slysi. Það vandamál sem hugsanlega kann að skapast af því að hringt sé í lögreglu er lítilvægt borið saman við mögulegar afleiðingarnar ölvunaraksturs. Hafa skal í huga að áfengi er lengi að fara úr líkamanum og í sumum tilfellum getur þurft að bíða í 14 - 15 klukkustundir áður en áfengi er farið úr blóðinu. Slysatíðni karla og kvenna? Svo virðist sem karlkyns ökumenn séu líklegri til að viðhafa tiltekna áhættuhegðun í umferðinni en konur og nota ekki viðeigandi öryggisútbúnað. Fram kemur í slysaskýrslu Umferðarstofu fyrir árið 2010 að þá voru 44 ökumenn valdir af slysum þar sem ölvun þeirra var aðal orsök slyssins. Af þeim voru 36 karlmenn og 8 konur. Í slysatölum ársins 2010 kemur einnig fram að þeir ökumenn sem urðu valdir af slysum þar sem hraðakstur er aðal orsök voru samtals 50. Þar af voru 7 konur en 43 karlar. Af þessu má ljóst vera að töluvert fleiri karlmenn eru valdir af slysum vegna hraðaksturs og ölvunar en konur og er þessi munur margfalt meiri en sá munur sem er á fjölda karla og kvenna í umferðinni. Starfsmenn Umferðarstofu munu standa vaktina um helgina og miðla upplýsingum og leiðbeiningum til vegfarenda á Bylgjunni, Rás 1 og Rás 2.

Atvinnuflugmenn samþykktu kjarasamning

Atvinnuflugmenn, sem starfa hjá Icelandair Group, samþykktu nýjan kjarasamning. Kosningu um samninginn lauk í dag og var hann samþykktur með 183 atkvæðum á móti 41, en átta sátu hjá. Kjörsókn var 82%.

Nýr rósagarður í Laugardalnum

Nýr rósagarður hefur verið opnaður í Laugardal. Rósagarðurinn var vígður á fimmtudag í liðinni viku með viðhöfn til heiðurs Jóhanni Pálssyni, grasafræðingi og fyrrverandi garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, en hann fagnaði áttræðisafmæli sínu þann dag. Rósagarðurinn nýi, sem er hluti af skrúðgarðinum í Laugardal, er samvinnuverkefni Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands, Yndisgróðurs og Reykjavíkurborgar. Rósagarðurinn er staðsettur milli Grasagarðsins og félagsheimilis KFUM og KFUK við Holtaveg. Hann er aðgengilegur frá Sunnuvegi og Holtavegi. Vígsla Rósagarðsins var í framhaldi af rósagöngu, en þar leiddi Jóhann gesti um rósasafn Grasagarðsins og fræddi fólk á ógleymanlegan hátt um rósirnar sem þar er að finna. Ríflega 120 manns sóttu viðburðinn í blíðskaparveðri, nutu fróðlegrar og skemmtilegrar leiðsagnar Jóhanns um rósirnar í Grasagarðinum og fögnuðu vígslu Rósagarðsins í Laugardal

Ný grein um Hæstarétt Íslands

Stjórnlagaráð hefur samþykkt 6. kafla draga um dómsvald í drögum að nýrri stjórnarskrá. Í kaflanum kemur fram ný grein um Hæstarétt Íslands þar sem segir að að hann sé æðsti dómstóll ríkisins og hafi endanlegt vald til að leysa úr öllum málum sem lögð eru fyrir dómstóla. Þó megi ákveða með lögum að sérstakur dómstóll leysi endanlega úr ágreiningi um kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana, þó þannig að ákvörðunum hans um refsingu verði skotið til annarra dómstóla. Í kaflanum kemur enn fremur fram að sjálfstæði dómstóla skuli tryggja með lögum og skipan ákæruvaldsins skuli ákveðin með lögum. Búast má við að atkvæðagreiðsla um frumvarpið í heild fari fram innan skamms.

Ögmundur áminnir Jón Gnarr

Innanríkisráðuneytið hefur sent skrifstofu borgarstjóra Reykjavíkurborgar bréf þar sem skorað er á Reykjavíkurborg að senda þriggja ára áætlun til ráðuneytisins án tafa. Í bréfinu er hótað dagsektum og stöðvun greiðsla úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga ef áætlunin verður ekki birt.

Vilja að forseti haldi málskotsréttinum

Forseti Íslands heldur málskotsrétti sínum en hann á ekki að sitja lengur en þrjú kjörtímabil. Þetta kemur fram í drögum að nýrri stjórnarskrá sem samþykkt voru í stjórnlagaráði í morgun. Síðasti fundur ráðsins fer fram í dag

Boðað til samverustundar í Norræna húsinu

Norræna húsið, Norræna félagið og félag Norðmanna á Íslandi bjóða til samverustundar í Norræna húsinu klukkan fimm í dag vegna þess harmleiks sem reið yfir í Noregi síðastliðin föstudag. Markmið samkomunnar er að skapa vettvang fyrir fólk til koma saman, eiga hlýja stund og votta ættingjum og vinum þolenda árasanna samúð.

Eyjólfur Sverrisson nýr landsliðsþjálfari í Mýrarbolta

Stjórn Mýrarboltafélags Íslands hefur skrifað undir samning við Eyjólf Sverrisson um að hann þjálfi bæði landslið Íslands í mýrarbolta, karla og kvenna. Launakjör eða önnur ákvæði samningsins verða ekki gefin upp að svo stöddu.

Icelandairmálið afar sérstakt

„Þetta er afar sérstakt. Við getum alveg sagt það,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair um mál konu sem hefur stefnt flugfélaginu.

Varað við hruni í Kverkfjöllum

Daglega hrynur meira og minna úr ísstálinu fyrir ofan íshellinn í Kverkfjöllum, að sögn landvarða í Sigurðarskála og getur verið stór hættulegt að vera þar á ferð. Þar varð banaslys í vor vegna hruns. Ferðamálastofa hvetur ferðaþjónustuaðila og leiðsögumenn til að brýna þessar hættur fyrir fólki á þeirra vegum og taka fullt mark á varúðaskiltum. Talið er að stór fylla kunni að hrynja úr jöklinum á hverri stundu.-

Sjá næstu 50 fréttir