Fleiri fréttir

Rannsaka lifnaðarhætti hvala

Vísindamenn á bátnum Söngur hvalsins eða "Song of the Whale" hafa lokið rannsóknum sínum á hvölum við strendur Íslands. Við tekur úrvinnsla gagna en í stað þess að veiða hvali í vísindaskyni skoða þeir lifnaðarhætti þeirra í sjónum, hljóðrita söng þeirra og mynda þá með neðansjávarmyndavélum.

Gerir alvarlegar athugasemdir við Kárahnjúkastíflu

Bandarískur vatnsaflsverkfræðingur gerir alvarlegar athugasemdir við Kárahnjúkastíflu og óttast að hún sé ótraust. Þrjár stíflur sömu tegundar, annars staðar í heiminum, leka og ein þeirra er ónýt. Í júlí hefti The New Scientist er sagt frá því að í Brasilíu hafi brostið göng í samskonar stíflu og Kárahnjúkastíflu með þeim afleiðingum að hún lak.

Gætu þurft að fresta afplánun einhverra dóma

Fangelsi landsins eru yfirfull og ef fram heldur sem horfir þurfa fangelsisyfirvöld að fresta afplánun dóma sumra manna vegna plássleysis. Norrænir fangelsisstjórar ræða meðal annars leiðir til að senda erlenda fanga til síns heima til afplánunar og reyna þannig að taka á vandanum.

Alcoa kærir fjórtán mótmælendur

Vinna lá niðri hjá fjórtán hundruð manns hjá Alcoa-Fjarðaáli á Reyðarfirði í morgun. Lögregla klifraði upp í krana til að ná mótmælendum niður. Alcoa Fjarðaál hefur kært fjórtán einstaklinga til lögreglunnar á Eskifirði og upplýsingafulltrúi fyrirtækisins segir þetta ekki verða liðið.

Þingeyrarflugvöllur vígður

Þingeyrarflugvöllur, sem hefur verið endurbyggður, verður vígður 19. ágúst af Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra.

Mikill viðbúnaður vegna Menningarnætur

Menningarnótt er stærsti viðburður landsins og er gert ráð fyrir að þeir sem líti við í miðborginni verði á bilinu 60-100 þúsund talsins. Síðustu fjögur ár hefur verið starfandi aðgerðarstjórn milli Höfuðborgarstofu og þeirra sem koma að öryggismálum á hátíðinni og hittust fulltrúar þeirra í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag til að fara yfir helstu mál. Slökkviliðið og Lögreglan verða með sameiginlega aðstöðu fyrir viðbragðslið sitt í Ingólfsstræti og eiga gestir að geta leitað þanngað fari eitthvað úrskeiðis. Öflug umferðargæsla verður allan daginn í borginni og verður fjölmörgum götum lokað vegna dagskráratriða og Reykjavíkurmaraþonsins. Ökumenn eru því hvattir til að kynna sér umferðatakmarkanir á heimasíðu lögreglunnar logreglan.is en þar má einnig sjá upplýsingar hugsanleg bílastæði í nágrenni miðborgarinnar. Foreldrar og aðstandendur barna eru beðnir um að hafa sérstaka á gát á þeim í mannþrönginni en athvarf fyrir týnd börn verður staðsett í húsi Unglingasmiðjunnar við Amtmannsstíg 5a og verður símanúmer Reykjavíkur borgar símanúmer athvarfsins það er 4 11 11 11. Eftir miðnætti verður opnað athvarf í Foreldrahúsinu í Vonarstræti og verða börn yngri en 16 ára færð þanngað ef þau eru úti eftir lögboðin útivistartíma, sem og þau sem ekki hafa náð 18 ára aldri en eru undir áhrifum áfengis. Í fyrra brutust út mikil slagsmál milli unglinga og vildi Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn Reykjavíkur brýna fyrir foreldrum að "nesta" unglinga sína ekki upp af áfengi á Menningarnótt eða öðrum dögum.

Vinstri hreyfingin grænt vill rannsókn á hönnun Kárahnjúkavirkjunnar

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs tekur undir kröfu Náttúruverndar Íslands um að hrint verði af stað óháðri og gagnsærri rannsókn á þeirri áhættu sem tekin er með byggingu Kárahnjúkavirkjunnar áður en byrjað verði að safna vatni í Hálslón.

Lokað vegna malbikunar

Hringvegur 1 er lokaður til suðurs frá Grundartangavegi að Akrafjallsvegi við Hvalfjarðargöng næstu þrjá daga vegna malbikunar. Akrein til suðurs verður lokuð frá klukkan 7:30 til klukkan 20:00 á þessu tímabili. Vegfarendum er bent á að aka Akrafjallsveg.

Rafmagn komið á að nýju

Rafmagn er komið á aftur í Hálsahverfi á Krókhálsi og Grafarholti. Rafmagnslaust varð þar skömmu fyrir þrjú í dag þegar grafið var í háspennustreng á framkvæmdasvæði við Korpu.

Segja vaxtahækkun Seðlabankans misráðna

Samtök atvinnulífsins segja stýrivaxtahækkun Seðlabankans misráðna og byggja á röngu mati á þróun mála á tveimur lykilmörkuðum hagkerfisins, vinnumarkaðnum og fasteignamarkaðnum. Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins segir að brýnt sé að Seðlabankinn gangi í takt við efnahagslífið og taki mark á öllum þeim teiknum sem nú séu um niðursveifluna í efnahagslífinu.

Alþjóðasamtök flugumferðastjóra lýsa yfir áhyggjum

Alþjóðasamtök flugumferðastjóra lýsa áhyggjum vegna nýs vaktakerfis íslenskra flugumferðastjóra. Flugumferðarstjórar hafa neitað að vinna yfirvinnu frá því nýtt vaktakerfi var innleitt hjá Flugmálastjórn um miðjan marsmánuð.

Byrjað er að hleypa umferð um Kjalarnesið

Lögreglan hefur opnað aftur fyrir umferð um Kjalarnesið eftir að Vesturlandsvegi var lokað að hluta vegna bílslyss fyrr í dag. Búast má við einhverjum töfum til að byrja með þar sem umferð er hleypt í gegn í hollum.

Farþegi lést og ökumaður slasaðist

Farþegi lést og ökumaður slasaðist mjög alvarlega þegar tvær jeppabifreiðar rákust saman á Vesturlandsvegi rétt við kjúklingabúið Móa í hádeginu. Ökumaður hins jeppans er ekki talinn vera alvarlega slasaður. Lögregla er enn við störf á vettvangi og er Vesturlandsvegur lokaður frá afleggjaranum að Þingvöllum að syðri munna Hvalfjarðarganga á meðan lögreglan sinnir störfum sínum. Ökumönnum er bent á að fara um Kjósaskarð þar til vegurinn hefur verið opnaður. Tildrög slyssins liggja ekki fyrir.

Fjórtán mótmælendur kærðir

Fjórtán mótmælendur hafa verið kærðir fyrir mótmælin á byggingasvæði álversins á Reyðarfirði í morgun.

Bílslys varð á Kjalarnesi

Alvarlegt umferðarslys varð á Kjalarnesi nú rétt eftir hádegi nærri meðferðarheimili SÁÁ í Vík. Verið er að klippa bílflök utan af hinum slösuðu. Umferð um veginn er lokuð í báðar áttir.

Ferðamaður beið bana við Hrafntinnusker

Erlendur ferðamaður beið bana þegar hann varð undir hruni í íshelli við Hrafntinnusker, skammt frá svonefndum Laugavegi, á níunda tímanum í morgun. Samferðamenn hans kölluðu á aðstoð þar sem þeir töldu að hann hefði lokast inn í hellinum, en þeir höfðu náð til hans áður en björgunarlið kom á vettvang, og var hann þá látinn. Þá var meðal annars búið að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar, en henni var snúið við ásamt flestum björgunarmönnunum. Hinir munu flytja lík mannsins til byggða.

Lögreglumenn á leið upp krana á eftir mótmælanda

Tveir lögreglumenn eru nú að klifra up í háan byggingakrana á vinnusvæði álvers Alcoa á Reyðarfirði, til að ná niður mótmælanda, sem klifraði þar upp í morgun í mótmælaskyni við framkvæmdirnar.

Slys við Hrafntinnusker

Talið er maður sé lokaður inni í íshelli við Hrafntinnusker, eftir að hellirinn féll saman í morgun. Talið er að einn maður sé lokaður inn í hellinum og er þyrla Landhelgisgæslunnar á leið á staðinn ásamt lögreglu og björgunarsveitarmönnum.

Mótmælendur hlekkjaðir við vinnukrana á Reyðarfirði

Ellefu mótmælendur ruddust inn á vinnusvæði Alcoa á Reyðarfirði í morgun og hafa þrír hlekkjað sig við 40 - 50 metra háan vinnukrana með lök sem mótmæli hafa verið áletruð á. Nokkuð hvassviðri er á svæðinu og þykir því enn frekari hætta geta staðið að þessum aðgerðum. Flestir mótmælandanna hafa fest sig við vinnuvélar en tveir hafa verið handteknir.

Leitar enn árásarmannsins í Breiðholti

Lögregla leitar enn árásarmannsins, sem réðst á stúlku í Breiðholti að næturlagi í síðustu viku og reyndi að nauðga henni. Stúlkan, sem var á leið til vinnu, náði að slíta sig frá árásarmanninum og leita hjálpar, en meðal annars þurfti að gera að bitsári á hálsi hennar. Hún hefur ekki getað gefið góða lýsingu á árásarmanninum.

Fjórtán ára ökuníðingur

Fjórtán ára unglingur er uppvís að því að hafa næstum ekið niður tvo lögreglumenn á Neshaga í Reykjavík, aðfararnótt mánudags, og stungið af. Hann mun hafa fengið lykil að bílnum hjá dóttur eigandans og voru að minnstakosti tveir jafnaldrar hans með honum í bílnum, þegar atvikið varð, þar sem lögreglu- og slökkviliðsmenn voru að sinna störfum vegna elds í íbúð. Þegar pilturinn ók óvænt farm á þann liðsafla, mun honum hafa brugðið og í fátinu munaði minnstu að hann æki lögrelgumennina niður. Ferðir unglinganna á bílnum, munu ekkert tengjast íkveikjunni í íbúðinni, eins og grunur lék á í fyrstu.-

Alvarlegt umferðarslys á Garðskagavegi

Bílslys varð á Garðskagavegi rétt norðan við Sandgerði laust eftir klukkan sjö í kvöld. Lögreglan í Keflavík segir slysið mjög alvarlegt. Þrír eru alvarlega slasaðir. Um er að ræða tveggja bíla árekstur. Vegurinn verður lokaður fram eftir kvöldi og er lögregla enn á slysstað.

Gæðamat á íslenskum vegum

Gert hefur verið gæðamat á öryggisstöðlum á íslenskum vegum. Vegirnir eru í misgóðu ástandi, mörgu er ábótavant og slysagildrur leynast víða.

Sameinað menntaráð skapi samfellu

Leikskólastjórar sem sátu fund með stjórnmálaflokkum í Ráðhúsinu í dag hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á borgaryfirvöld að endurskoða ákvörðun sína um að kljúfa menntaráð. Fundarmenn voru sammála um að sameinað menntaráð gæti stuðlað að samfellu í námi barna og samvinnu kennara milli skólastiga. Nýtt leikskólaráð tekur til starfa í Reykjavíkurborg um miðjan september en málefni leikskólanna hafa síðasta árið verið undir sameinuðu menntaráði.

Verðstríð á skólavörum

Verðstríð geysar á ritfangamarkaðnum og tilboðum á stílabókum, strokleðrum, skærum, tússlitum og öðrum skólavörum rignir yfir fólk, enda stutt í að skólar hefjist. Verðmunur á þessum smávörum getur hlaupið á hundruðum króna.

Mótmælum við Kárahnjúka líklega ekki lokið

Mörgum þykir harka hafa færst í mótmæli umhverfisverndarsinna vegna Kárahnjúkavirkjunar að undanförnu. Talsmaður Íslandsvina vill þó ekki meina að málstaður þeirra hafi beðið álitshnekki.

Sært stolt

Formaður félags leikskólakennara segir stolt þeirra sært með því að draga leikskólana út úr menntaráði Reykjavíkurborgar. Borgaryfirvöld segja nýju leikskólaráði komið á fót til að gefa leikskólunum meira vægi.

Segja skýringar á framúrkeyrslu fjárlaga

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landhelgisgæslunnar segir hluta tugmilljóna framúrkeyrslu stofnunarinnar hafa verið með leyfi dómsmálaráðuneytisins. Rektor Háskólans á Akureyri, skýrir framúrkeyrslu skólans með fjölgun nemenda.

Landlæknir segir ekki hægt að lækna samkynhneigð

Landlæknir varar við námskeiðum eins og þeim sem um er getið í auglýsingu frá Samvinnuhópi kristinna trúfélaga, þar sem boðið er upp á meðferð gegn samkynhneigð. Þá þurfi ekki að lækna samkynhneigð, því hún sé ekki sjúkdómur.

Verri heilsa hátekjufólks

Heilsa hátekjufólks er verri en hins almenna borgara. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem kynnt var í dag. Rannsóknin var hluti af doktorsverkefni Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur. Niðurstöðurnar sýndu að heilsa Íslendinga fer batnandi með hækkandi launum þar til tekjur eru orðnar talsvert háar. Þá snýst sambandið við og heilsa versnar.

Eigendur Dell-fartölva kanni framleiðslunúmer rafhlöðu

Engin af þeim tölvum sem nú eru til sölu hjá umboðsaðila Dell hér á landi, EJS, er með rafhlöður sem kalla þarf inn en eigendur Dell-fartölva eru beðnir um að fara inn á heimasíðu EJS og kanna hvort rafhlaðan í tölvunni hafi tiltekið framleiðslunúmer.

Bensínverð lækkaði um eina krónu

Bensínorkan lækkaði bensínverð um eina krónu og sextíu aura á lítrann í morgun. Að sögn talsmanns félagsins var þetta gert vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði og þrátt fyrir að dollarinn hafi aðeins hækkað gagnvart krónunni.

Stefnir í metþátttöku í Reykjavíkurmaraþoni

Útlit er fyrir að metþátttaka verði í Reykjavíkurmaraþoni á laugardag því þrefalt fleiri hafa skráð sig til leiks nú en á sama tíma í fyrra. Ástæðan er meðal annars sú að fyrirtæki heita nú á starfsfólk sitt í hlaupinu og rennur allur ágóðinn til góðgerðarmála.

Viðgerðir á Hringvegi 1

Vegna slitlagsviðgerða verður Hringvegur 1 lokaður til suðurs frá Grundartangavegi að Akrafjallsvegi við Hvalfjarðargöng til kl. 19 í dag og frá kl 9 til 14 á morgun. Vegfarendum er bent á að aka Akrafjallsveg.

Töldu sig ekki mega versla á frísvæði Keflavíkurflugvallar

Hertar öryggisreglur á Keflavíkurflugvelli hafa áhrif á mörgum ólíkum sviðum. Til dæmis þorðu margir brottfararfarþegar ekki að versla á frísvæðinu í flugstöðinni í morgun af ótta við að brjóta reglur, en svo er þó ekki.

Funduðu á Ísafirði í gær

Það hljóp á snærið hjá þeim sem leita logandi ljósi að klíkumyndun vegna leiðtogakjörs í Framsóknarflokknum þegar fréttir bárust af því að þrír frambjóðendur til þriggja æðstu embætta flokksins hefðu sameiginlega efnt til fundar með framsóknarmönnum á Ísafirði í gærkvöldi.

Myndband af Castro

Kúbverska ríkissjónvarpið sýndi í gær fyrsta myndbandið af Fidel Castro, leiðtoga landsins, frá því að hann fól bróður sínum að halda um stjórnartaumana vegna veikinda sinna.

Féll af hestbaki

Kona féll af hestbaki í Norðurárdal í gær og varð undir hestinum. Hún var flutt á Slysadeild Landsspítalans af ótta við að hún hafi meiðst innvortist, en rannsóknir leiddu það ekki í ljós. Til öryggis var hún undir eftirlits lækna á sjukrahúsinu á Akranesi í nótt, þar sem hún er þaðan.

Innbrotsþjófur handtekinn

Ungur innbrotsþjófur var handtekinn eftir að hann braust inn í apótek við Álfabakka í Breiðholti í Reykjavík um þrjú leitið í nótt. Lögreglugmenn gripu hann á staðnum og kom þá í ljós að þetta var sami þjofurinn og lögreglan handtók í fyrrinótt fyrir að hafa brotist inn í sama apótek og annað til viðbótar um nóttina. Eftir það var hann vistaður í fangageymslum en sleppt að yfirheryslum loknum í gær. Það verður væntanleg gert aftur í dag og býst lögregla allt eins við að hann fari enn á kreik í nótt.-

Mega bæta þremur kílóum við farangurinn

Icelandair hefur ákveðið að heimila fólki að bæta þremur kílóum við farangur sinn, sem fer í lest flugvélanna, þannig að heildarþyngd verði 23 kíló, áður en til greiðlsu á yfirvigt kemur.

Sjá næstu 50 fréttir