Fleiri fréttir

Íraksstríði mótmælt í Bandaríkjunum

Tugir þúsunda Bandaríkjamann mótmæltu stríðsrekstrinum í Írak í gær. Mótmælin voru haldin víða um Bandaríkin. Þau fóru að mestu friðsamlega fram en í Washington varð að stöðva mótmælendur þegar þeir reyndu að gera áhlaup á þinghúsið.

Sagðir hafa notað klasasprengjur þvert á samninga

Stjórn Bush Bandaríkjaforseta mun á morgun gera Bandaríkjaþingi grein fyrir því að grunur leiki á að Ísraelar hafi brotið samkomulag við stjórnvöld í Washington um notkun klasasprengja. Sprengjurnar munu hafa verið notaðar til árása í íbúðabygg, sem þverbrjóti samninga.

Margrét ætlar að kæra framkvæmd kosninga

Margrét Sverrisdóttir ætlar sér að kæra framkvæmd varaformannskosninga í Frjálslynda flokknum. Þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Þar sagði hún enn fremur að það væri ekki spurning um hvort heldur hvar og hvernig hún legði fram kæruna.

Viðræður halda áfram

British Airways hélt viðræðum við stærsta stéttarfélag starfsmanna áfram í dag til þess að reyna að koma í veg fyrir að meðlimir þess fari í tveggja sólarhringa verkfall. Verkfallið, ef af verður, hefst á þriðjudag. Hvorugur aðili vildi þó segja hvernig viðræður gengju. British Airways hefur þegar aflýst rúmlega 1.300 flugferðum í vikunni vegna verkfallsins.

Lögregla leggur teygjubyssunum

Lögregla í borginni Tijuana í Mexíkó hefur undanfarnar tvær vikur þurft að hafast við án skotvopna. Herinn hefur verið við löggæslu í borginni og ákváðu yfirvöld þá að athuga hvort skotvopn einhverra lögreglumanna hefðu verið notuð í glæpum. Sumir lögreglumenn neituðu að fara út á götur án skotvopna en aðrir söfnuðu sér steinum og keyptu sér teygjubyssur.

Konur kallaðar „barnsburðarvélar“

Heilbrigðisráðherra Japans, Hakuo Yanagisawa, sagði að konur væru „barnsburðarvélar“ og að þær ættu að reyna að fæða sem flest börn. Hann bætti þó við að það væri kannski ekki viðeigandi að kalla konur vélar.

Fimm stúlkur láta lífið í árás á grunnskóla

Fimm stúlkur létu lífið í árás á grunnskóla í Írak í dag. Tveimur klasasprengjum var kastað inn á skólalóðina nálægt hóp nemenda. Sprengingarnar brutu allar rúður í skólanum og slösuðust 20 nemendur vegna glerbrota sem yfir þá rigndu. Skólinn er staðsettur í hverfi súnnía.

Spangir auka ekki vellíðan

Að setja spangir í börn til þess að rétta tennur þeirra bætir ekki vellíðan eða lífsgæði síðar á ævinni. Þetta kom fram í nýrri breskri rannsókn sem kom út í byrjun janúar.

Ísland lendir aldrei neðar en í 3. sæti milliriðilsins

Nú þegar aðeins ein umferð er eftir af keppni í milliriðlum HM í handbolta liggur nokkuð ljóst fyrir hvaða lið fara í 8-liða úrslit. Lokastaða riðlanna ræðst hins vegar alfarið af leikjum dagsins. Þó er ljóst að Ísland verður ávallt fyrir ofan Frakkland, sama hvernig leikir dagsins fara, og þar með getur liðið ekki endað neðar en í 3. sæti milliriðilsins.

Correa vill skipa konu sem varnarmálaráðherra

Rafael Correa, forseti Ekvador, ætlar sér að skipa aðra konu í embætti varnarmálaráðherra landsins. Konan sem hann skipaði í embætti í byrjun janúar, Guadalupe Larriva, lést í voveiflegu þyrluslysi rúmri viku eftir að hún tók við embætti.

Ástargarður opnar á Ítalíu

Á Ítalíu, í landi heitra ástríðna, á ungt fólk nú til dags í erfiðleikum með að finna næði til þess að vera innilegt við hvort annað. Einn þessara ungu manna ákvað því að opna ástargarð. Í ástargarðinu má fólk haga sér eins og það vill og þar er beinlínis ætlast til þess að það sé innilegt við hvort annað.

Trúboðar myrtir í Kenía

Bílræningjar vopnaðir AK-47 árásarrifflum skutu tvær konur til bana í Næróbí, höfuðborg Kenía, í morgun. Þær voru í bíl sem var eign bandaríska sendiráðsins. Lögregla skaut tvo af ræningjunum til bana eftir skotbardaga milli lögreglu og ræningjanna. Tveir lögreglumenn særðust í bardaganum.

Fleiri vilja Hillary

Fleiri demókratar í Bandaríkjunum vilja fá öldungardeildarþingmanninn Hillary Clinton í forsetaframboð fyrir flokkinn á næsta ári en Barack Obama, helsta andstæðing hennar. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar sem bandaríska tímaritið Time lét gera.

Beckham leikur prinsinn

Knattspyrnugoðið David Beckham hefur lagt fótboltaskó sína til hliðar um stund og tekið upp sverðið. Með því bjargar hann Þyrnirós líkt og í ævintýrinu forðum.

Hætti að reykja eftir heilablóðfall

Svo virðist sem vægar heilaskemmdir geti drepið löngun í sígarettur. Um er að ræða svæði í heilanum á stærð við tíukrónupening. Læknar í Bandaríkjunum þróa nú lyf sem getur haft áhrif á þennan hluta mannsheilans.

Hitafundur hjá Framsókn á Selfossi

Skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins, Helga Sigrún Harðardóttir, verður í þriðja sæti lista flokksins í Suðurkjördæmi. Það var samþykkt á fjölmennum hitafundi á Hótel Selfossi í dag.

Blóðug átök á heimastjórnarsvæðunum

Til blóðugra átaka hefur komið á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna síðustu tvo sólahringa og hafa þau kostað á annan tug manna lífið, þar á meðal tveggja ára dreng. Viðræðum um myndun þjóðstjórnar hefur enn verið frestað.

Segir Baugsmálið hneyksli

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir Baugsmálið réttarfarslegt hneyksli og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi att ákæruvaldinu á Baug. Hún segir ástæðuna fyrir lélegu fylgi Samfylkingarinnar í könnunum vera að flokkurinn sé of pólitískur.

Íslendingar báru sigurorð af Slóvenum

Íslendingar báru sigurorð af Slóvenum, 32-31, í viðureign liðanna á HM sem var að ljúka rétt í þessu og tryggðu sér þar með öruggt sæti í 8-liða úrslitum keppninnar. Íslenska liðið er nú komið með sex stig í milliriðli 1 og er í efsta sæti riðilsins þegar aðeins einn leikur er eftir.

Eþíópíumenn hefja brotthvarf frá Sómalíu

Forsætisráðherra Eþíópíu, Meles Zenawi, sagði í dag að þriðjungur hersveita Eþíópíu yrði farinn frá Sómalíu á morgun. „Við erum að fækka í herliðinu í Sómalíu um þriðjung... því ferli ætti að vera lokið í dag eða á morgun.“

Framsóknarmenn í Árborg samþykkja framboðslista

Á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi sem haldið var í dag á Hótel Selfoss var samþykktur framboðslisti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi vegna alþingiskosninganna nú í vor. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra skipar fyrsta sætið, Bjarni Harðarson er í öðru sæti og Helga S. Harðardóttir í því þriðja.

Tugir þúsunda mótmæla í Bandaríkjunum

Tugir þúsunda mótmæltu í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, í dag. Fólkið var að mótmæla stríðsrekstrinum í Írak og krafðist þess að hersveitirnar yrðu sendar heim á leið. Mótmælendur báru slagorð gegn George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, og friðarorð. Ættingjar og vinir hermanna sem létust í Írak tóku einnig þátt í mótmælunum.

Magnús Þór kosinn varaformaður Frjálslyndra

Magnús Þór Hafsteinsson sigraði í varaformannskjöri Frjálslynda flokksins í dag. Mjótt varð á munum í kosningunni en Margrét Sverrisdóttir sóttist einnig eftir embættinu. Atkvæðin féllu þannig að Magnús fékk 369 atkvæði, eða 54% þeirra, en Margrét fékk 314, eða 46%. Alls kusu 686 manns. Þrír seðlar voru ógildir.

Ísland og Slóvenía eigast við

Ísland og Slóvenía eigast nú við á heimsmeistaramótinu í handbolta. Staðan er 7 - 4 fyrir Íslandi eftir tíu mínútna leik. Lið Íslendinga er óbreytt frá leiknum á móti Slóvenum og því sitja Hreiðar Levý Guðmundsson og Einar Jónsson sem fastast á meðal áhorfenda.

YouTube að deila auglýsingatekjum með notendum

Chad Hurkley, annars stofnenda YouTube, skýrði frá því í dag að þeir ætli að gefa notendum sem setja sínar eigin bíómyndir á vefinn hluta af auglýsingatekjum sínum. Framtakið á að ýta undir sköpunargleði notenda og stendur til boða þeim notendum sem eiga höfundarréttin á því sem þeir setja á vefinn.

15 látnir og 55 slasaðir

Að minnsta kosti 15 manns létu lífið og 55 slösuðust í tveimur sjálfsmorðsárásum í austurhluta Bagdad í Írak í morgun. Árásin átti sér stað í hverfi sjía múslima og eins og undanfarnar sprengjur, nálægt markaði.

Öngþveiti á landsfundi Frjálslyndra

Töluvert öngþveiti ríkir á landsfundi Frjálslynda flokksins sem nú stendur yfir á Hótel Loftleiðum en um eitt þúsund manns eru á fundinum. Guðjón Arnar Kristjánsson var sjálfkjörinn í embætti formanns þar sem hann var einn í framboði. Enn er verið að kjósa í varaformannsembætti og til ritara.

Blair vill fleiri lönd í öryggisráðið

Breski forsætisráðherran Tony Blair sagði í dag að það ætti að hleypa Þýskalandi, Japan, Brasilíu og Indlandi inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði einnig að það ætti að opna ráðið fyrir afrískum og múslimskum löndum til þess að auka lögmæti þess og virkni.

Samfylkingin mun ekki þegja um Evrópumál

Samfylkingin ætlar sér ekki að taka þátt í hinu ólýðræðislega þagnarbandalagi Sjálfstæðismanna um Evrópumál. Þetta kom fram í ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á aðalfundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík í dag.

Lítið af hafís fyrir utan Galtarvita

„Það er nærri allt autt hérna fyrir utan og ísspangirnar, þrjár eða fjórar, virðast að mestu komnar inn í djúp.“ sagði Jón Pétursson, skipstjóri á Þorláki ÍS í viðtali við fréttastofu Vísis í dag. Jón sagði ísspangirnar ekki hafa haft áhrif á ferðir þeirra. Þorlákur ÍS var staddur norður af Galtarvita.

Ban Ki-moon í Kongó

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, er nú í sinni fyrstu heimsókn til Afríku og hóf hann ferð sína í Kongó. Ban talaði við nýkjörið þing landsins og sagði þar að Kongó gæti treyst á stuðning Sameinuðu þjóðanna við uppbyggingu landsins.

Beckham til bjargar

Beyonce, Scarlett Johansson og David Beckham eru ný andlit Disney fyrirtækisins í herferð þess „Ár hinna milljón drauma.“ Stjörnurnar tóku að sér hlutverk frægra sögupersóna úr Disney sögum og ljósmyndarinn heimsfrægi, Anne Leibovitz, tók myndirnar.

Settu hvolpinn inn í ofn

Tveir bræður frá Atlanta í Bandaríkjunum sem voru sakaðir um að setja málningarlímband á lappir og trýni þriggja mánaða gamals hvolps og ofnbaka hann síðan lifandi játuðu sekt sína í gær.

Eitrað te dró Litvinenko til dauða

Breskir embættismenn hafa skýrt frá því að það hafi verið eitrað te sem hafi banað Alexander Litvinenko. Þetta kom í ljós þegar tekanna sem hafði verið í herbergi Litvinenkos var rannsökuð.

Tannheilsu Íslendinga hrakar

Tannheilsu Íslendinga hrakar mjög. Tuttugu og tvö þúsund börn fara á mis við tannlæknaþjónustu, segir tannlæknir sem gefur heilbrigðiskerfinu falleinkunn.

Ford: Versta afkoma í 103 ár

Bandaríski bílarisinn Ford tapaði tæpum 890 milljörðum króna í fyrra. Afkoma síðasta árs er sú versta í 103 ára sögu fyrirtækisins. Minnkandi spurn eftir jeppum og öðrum eldsneytisfrekum ökutækjum er ein aðalástæða tapsins, svo og harðnandi samkeppni við aðra bílaframleiðendur. Búist er við áframhaldandi taprekstri næstu 2 árin.

Ályktað gegn efasemdarmönnum

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gærkvöldi ályktun þess efnis að þeir sem afneiti Helför gyðinga verði fordæmdir. Bandaríkjamenn lögðu fram drög að ályktuninni. Hún er sögð svar við ráðstefnu í Íran fyrir áramót þar sem dregið var í efa að Helförin hefði átt sér stað. Það voru rúmlega hundrað þjóðir sem studdu ályktunina.

Taka harðar á Írönum

George Bush Bandaríkjaforseti hefur gefið hersveitum sínum í Írak heimild til að taka útsendara írönsku klerkastjórnarinnar í landinu fastari tökum en áður. Íranskir flugumenn eru grunaðir um að þjálfa herflokka sjía sem berjast gegn hernámsliðinu en fram til þessa hefur þeim yfirleitt verið sleppt eftir nokkurra daga varðhald.

16 fallið á Gaza

Að minnsta kosti 16 hafa týnt lífi og fjölmargir særst í átökum milli Hamas og Fatah-liða á Gaza-svæðinu síðasta sólahring. Meðal látinna er tveggja ára drengur. Þetta eru einhver verstu átök sem blossað hafa upp milli fylkinganna í marga mánuði.

Fornleifafræðingar hafna stefnu ríkisins

Bæði fagfélög fornleifafræðinga hafna alfarið stefnumörkun stjórnvalda í fornleifavernd eins og hún birtist í stefnudrögum. Félögin segja að í stefnunni birtist það sjónarmið að fornleifauppgreftir séu eyðilegging og því eigi að fækka þeim til muna.

Baugsmálið kostað sakborninga yfir milljarð

Hreinn kostnaður sakborninga í Baugsmálinu er kominn á annan milljarð króna, að sögn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs. Hann segir engar horfur á sameiningu Skjás eins og 365 en viðræður um það hefðu þó áttu sér stað milli fyrirtækjanna.

Kosið um varaformann í dag

Kosið verður um varaformann Frjálslynda flokksins í dag á landsþingi flokksins. Tveir bjóða sig fram í embætti varaformanns, þau Margrét Sverrisdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson.

Flutningavél Icelandair í erfiðleikum

Flutningaflugvél Icelandair varð að lenda á Egilsstaðaflugvelli í morgun vegna gruns um eld í flutningarými vélarinnar. Viðvörunarljós gáfu það til kynna en eftir að vélin lenti kom í ljós að enginn eldur var í henni. Mikill viðbúnaður var á flugvellinum vegna atviksins.

Hafís nálgast Bolungarvík

Hafís er nú farinn að nálgast Bolungarvík. Ísaröndin er næstum komin þvert yfir Ísafjarðardjúp. Hún liggur samsíða Stigahlíð og nánast að Grænuhlíð. Hafísinn virðist vera rúmar tvær sjómílur fyrir utan Bolungarvík.

Laufey með tónleika í dag

Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari stendur fyrir tónleikum með tilstyrk Reykjavíkurborgar á Kjarvalsstöðum klukkan sextán í dag, á opinberum fæðingardegi Mozarts. Laufey hefur um árabil staðið fyrir tónleikum á þessum degi. Ranglega var sagt í Fréttablaðinu í dag að tónleikarnir væru á morgun.

Sjá næstu 50 fréttir