Ís­land - Slóvenía 39-31 | Strákarnir okkar eru á leið í undan­úr­slit

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ísland er á leið í undanúrslit! 
Ísland er á leið í undanúrslit! 

Ísland er komið áfram í undanúrslitin á EM í handbolta eftir öruggan 39-31 sigur gegn Slóveníu í síðasta leik milliriðilsins. Næsti andstæðingur Íslands er enn óljós en ljóst er að strákarnir okkar munu spila um verðlaun.

Vörnin betri en færanýtingin verri

Strax í fyrstu sókn leiksins sást betri varnarleikur hjá íslenska liðinu heldur en sýnt var gegn Sviss í gær. Sem var mjög jákvætt, en fyrstu skot Slóvena láku í gegnum Viktor Gísla Hallgrímsson og hinumegin á vellinum voru strákarnir okkar í vandræðum með að nýta færin.

Eftir smá leka í upphafi leiks fór Viktor Gísli að verja vel. vísir / vilhelm

Fyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon klikkaði á tveimur dauðafærum í röð og í stöðunni 4-4 var Ísland búið að klikka á fjórum dauðafærum.

Ómar Ingi fór illa með fyrstu færin. vísir / vilhelm

Töpuðu ekki boltanum í fyrri hálfleik

Ísland var samt með yfirhöndina, enda sóknarleikurinn glimrandi góður þó færanýtingin hafi ekki verið frábær. Til marks um það má nefna að Ísland klúðraði níu dauðafærum í fyrri hálfleik en tapaði boltanum aldrei.

Janus Daði átti heiðurinn að fyrsta alvöru áhlaupi Íslands. 

Janus Daði Smárason sýndi frábæra takta, skoraði með þrumuskoti og stoppaði svo hraða sókn, í fyrsta alvöru áhlaupi Íslands, þegar strákarnir okkar náðu 10-7 forystu.

Strákarnir okkar voru ekki á eitt sáttir með störf dómaranna. vísir / vilhelm

Nýttu ekki tækifærið til að slíta sig lausa

Slóvenía varð síðan manni færri í tvær mínútur, sem var mikið tækifæri fyrir Ísland, en Slóvenum tókst samt að minnka muninn niður í 11-10. Íslenska liðið fékk svo sjálft brottvísun til að binda enda á þann slæma kafla.

Strákarnir hristu það af sér og náðu þriggja marka forystu á ný en tókst ekki að slíta sig alveg lausa og Slóvenía minnkaði muninn aftur niður í eitt mark, 14-13.

Haukur Þrastarson skoraði með skoti fyrir aftan bak og skoraði síðan síðasta mark hálfleiksins. vísir / vilhelm

Fjórar brottvísanir Íslands

Þá tók við mikill flautakonsert hjá dómurum leiksins og Ísland fékk þrjár brottvísanir til viðbótar á síðustu mínútum fyrri hálfleiks. Viggó Kristjánsson, Ýmir Örn Gíslason og Gísli Þorgeir Kristjánsson voru allir reknir af velli og Slóvenía jafnaði leikinn, 16-16.

Viggó Kristjánsson fékk vafasama brottvísun ,fyrir að skjóta í höfuð markmanns, þegar boltinn fór í öxlina. vísir / vilhelm

En þegar loksins varð jafnt með liðunum aftur tóku strákarnir okkar forystuna á ný, rétt fyrir hálfleik. Haukur Þrastarson átti heiðurinn að tveggja marka forystunni, með stoðsendingu og undirhandarskot sem gerði stöðuna 18-16 þegar flautað var til hlés.

Tólfti tapaði boltinn í upphafi seinni hálfleiks

Ísland tapaði boltanum loksins í upphafi seinni hálfleiks en það var ekkert miðað við Slóvenana sem höfðu þá tapað boltanum tólf sinnum. Þeir slóvensku köstuðu boltanum ítrekað frá sér í sókninni og Ísland nýttu tækifærin mjög vel.

Strákarnir okkar tóku fimm marka forystu, 25-20, áður en Slóvenía bað um leikhlé á 39. mínútu. Hornamaðurinn Óðinn Þór og línumaðurinn Elliði Snær voru frábærir fyrir íslenska liðið á þeim kafla, varnar- og sóknarlega.

Elliði Snær átti stórleik á línunni. 

Svekkjandi sláarskot frá Janusi Daða og vítaklúður hjá Viggó Kristjánssyni breyttu stöðunni ekkert, því Slóvenía hélt áfram að kasta frá sér boltanum í sókninni. Ísland hélt sinni fimm marka forystu eftir góð hraðaupphlaup hjá Orra Frey. 

Stúkan tók vel við sér í seinni hálfleik. vísir / vilhelm

Staðan 28-23 þegar stundarfjórðungur var eftir.

Viktor varði vel frá liðsfélaga

Svo hjálpaði líka heilmikið hversu vel Viktor Gísli þekkir Blaz Janc, einn besta leikmann Slóveníu. Viktor varði ítrekað úr langskotum frá liðsfélaga sínum í Barcelona og Slóvenía gat ekki reitt sig á sinn besta skotmann þegar liðið lenti í vandræðum.

Kátt á hjalla hjá íslenskum áhorfendum í seinni hálfleik. 

Þegar rétt rúmar tíu mínútur voru eftir misstu Slóvenar hausinn og áttuðu sig á því að þessi leikur væri að öllum líkindum tapaður. Hornamaðurinn Stas Slatinek Jovicic fékk brottvísun fyrir ljótt brot á Óðni Þór.

Ísland nýtti mismuninn vel og stækkaði forystuna í átta mörk, 32-24, áður en Slóvenía bað loks um leikhlé til að binda enda á þennan afskaplega slæma kafla í seinni hálfleik.

Öruggur 39-31 sigur vannst að endingu og Ísland er á leið í undanúrslitin á EM.

Ísland er á leið í undanúrslit EM í fyrsta sinn síðan 2010. 

Hvað gerist næst?

Ísland er komið áfram í undanúrslit og því fær engu breytt. Enn er þó óljóst hvort Ísland endar í efsta sæti riðilsins eða öðru sætinu og þá hvaða liði Ísland mætir næst. Það kemur í ljós eftir hina leiki dagsins.

Tölfræðiskýrsla

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira