Handbolti

Hleraði leik­hlé Norð­manna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Miguel Neves hlustar á leikhlé Noregs.
Miguel Neves hlustar á leikhlé Noregs.

Leikmaður portúgalska handboltalandsliðsins hlustaði á leikhlé Noregs undir lok leiks liðanna í milliriðli I á Evrópumótinu.

Portúgal og Noregur skildu jöfn, 35-35, í Malmö á EM í dag. Stigið gerði lítið fyrir liðin sem eiga ekki mikla möguleika á að komast í undanúrslit.

Þegar rúm hálf mínúta var eftir af leiknum í dag tóku Portúgalir leikhlé. Einn leikmaður portúgalska liðsins, Miguel Neves, fékk þá spjaldtölvu sem hann lagði upp að eyranu. Eftir leikinn viðurkenndi hann að hann hefði hlustað á leikhlé Norðmanna.

Ég spilaði í þrjú ár í Noregi og á norska kærustu, þannig ég tala og skil norsku. Ég reyndi að ná smá forskoti og komast að því hvað þeir ætluðu að gera. Þannig gat ég undirbúið vörnina,“ sagði Neves við TV 2.

Myndband af atvikinu má sjá með því að smella hér.

Neves sá ekkert athugavert við athæfi sitt er hann var spurður hvort honum fyndist þetta sanngjarnt.

„Já, af hverju ekki? Mér finnst þetta alveg sanngjarnt. Þetta er ekkert vandamál fyrir mér,“ sagði Neves.

TV 2 setti sig í samband við Handknattleikssamband Evrópu, EHF, vegna atviksins. Að mati EHF sýndu Portúgalir ekki drengilega framkomu með því að hlusta á norska leikhléið.

Portúgal er í fimmta og næstneðsta sæti milliriðils I. Liðið mætir Spáni í lokaleik sínum í milliriðlinum á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×