Skoðun

Rödd ungs fólks

Nanna Björt Ívarsdóttir skrifar

Mosfellsbær er samfélag í stöðugri og jákvæðri þróun. Uppbygging, fólksfjölgun og breyttar þarfir kalla á framsýna stefnumótun, skýrar áherslur og virkt samtal við íbúa. Í þeirri vegferð er mikilvægt að ólík sjónarmið fái raunverulegt vægi og að ákvarðanir endurspegli daglegt líf fólks í bænum – ekki síst sjónarmið ungs fólks.

Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, sem fram fer 31. janúar 2026.

Ég er alin upp í Mosfellsbæ og hef alla tíð átt hér heima. Ég þekki bæinn af eigin reynslu, skólana, íþróttastarfið, menningarlífið og það sterka samfélag sem hér hefur byggst upp. Ég hef stundað nám í grunnskólum bæjarins, tekið þátt í íþrótta- og tónlistarlífi og starfað með börnum og ungmennum innan skólakerfisins. Sú reynsla hefur veitt mér dýrmæta innsýn í aðstæður fjölskyldna í Mosfellsbæ og þau verkefni sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir, bæði í dag og til framtíðar.

Ég legg sérstaka áherslu á málefni barna og ungmenna og tel forvarnir eitt mikilvægasta hlutverk sveitarfélagsins.

Sterkt skóla- og leikskólastarf, fjölbreytt og aðgengilegt tómstundalíf og öruggt félagslegt umhverfi eru hornsteinar velferðar og farsældar.

Með markvissum forvörnum, snemmtækum stuðningi og nánu samstarfi við skóla, foreldra, íþróttahreyfingu og frístundastarf er hægt að grípa fyrr inn í, styrkja sjálfsmynd barna og ungmenna og draga úr vanda áður en hann verður alvarlegur. Slík nálgun er ekki aðeins mannúðleg heldur einnig skynsamleg fjárfesting í samfélaginu til lengri tíma. Ungt fólk býr yfir ferskri sýn, metnaði og skýrum hugmyndum um þau mál sem snerta daglegt líf – svo sem skólamál, húsnæði, tómstundir og lýðræðislega þátttöku.

Of oft finnst mér rödd ungs fólks þó ekki fá nægilegt vægi í opinberri umræðu og ákvarðanatöku. Með því að tryggja ungu fólki raunverulega aðkomu að mótun stefnu og ákvarðana eflum við lýðræðið, aukum traust og tökum betri og framsýnni ákvarðanir. Jafnframt tel ég mikilvægt að Mosfellsbær sé réttlátt, skilvirkt og vel rekið sveitarfélag. Stjórnsýslan þarf að vera gagnsæ, málsmeðferð vönduð og ákvarðanir teknar á sanngjörnum og málefnalegum grunni.

Laganám mitt hefur styrkt skilning minn á mikilvægi skýrra leikreglna, ábyrgðar og jafnræðis gagnvart íbúum. Traust íbúa til sveitarfélagsins er grundvallarforsenda virks lýðræðis og góðrar stjórnsýslu. Framsækið samfélag byggir á samspili reynslu og nýrrar hugsunar. Ég er tilbúin að hlusta, læra og vinna af heilindum fyrir Mosfellsbæ. Með samstilltu átaki getum við haldið áfram að byggja upp samfélag þar sem velferð, öryggi og tækifæri allra íbúa eru í forgrunni.

Höfundur er á lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×