Skoðun

Að brjóta glerþakið: lýð­ræðis­leg þátt­taka fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir

Anna Lára Steindal skrifar

Lýðræði byggir á þeirri grundvallarhugmynd að öll hafi rödd. Samt er staðreyndin sú að víða í Evrópu – þar á meðal á íslandi – er fólki með þroskahömlun enn haldið utan við pólitískt vald, ákvarðanatöku og áhrif. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er brýnt að horfast í augu við þessa staðreynd og spyrja: hver fá raunverulega að taka þátt?

Inclusion Europe, regnhlífarsamtök sem vinna að hagsmunum og réttindum 20 milljóna Evrópubúa með þroskahömlun sendu nýlega frá sér skýrsluna Inclusion Indicators 2025. Þar er varpað skýru ljósi á kerfisbundnar hindranir sem mæta fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir.

Hindranir í vegi þátttöku í stjórnmálum

Í skýrslunni kemur fram að í 14 Evrópulöndum er fólki með þroskahömlun meinað að bjóða sig fram í kosningum og í 13 löndum má svipta fólk kosningarétti á grundvelli föltunar. Í 29 löndum er löghæfi fólks með þroskahömlun enn skert að hluta eða öllu leyti.

Þótt Ísland standi betur að vígi hvað réttindi varðar hefur ítrekað teiknast upp önnur, ekki síður alvarleg mynd, við framkvæmd kosninga: skortur á aðgengi, stuðningi og raunverulegum tækifærum útilokar fólk með þroskahömlun frá þátttöku í stjórnmálum og jafnvel því að nýta kosningarétt sinn.

Viðhorf skipta máli. Rótgrónir fordómar sem fela í sér vantrú á hæfni og getu fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir leiða til þess að stjórnmálaflokkar, sveitarfélög og stofnanir gera sjaldan ráð fyrir fólki með þroskahömlun sem virkum þátttakendum í lýðræðinu. Upplýsingar tengdar stjórnmálum eru sjaldnast aðgengilegar – stefnur stjórnmálaflokka, fundir og umræður eru ekki settar fram á auðlesnu máli og stuðningur við ákvarðanatöku er undantekning frekar en regla.

Allt er hægt – ef viljinn er fyrir hendi

Þrátt fyrir hindranir eru til skýr dæmi um árangur. Í nokkrum Evrópulöndum hafa einstaklingar með þroskahömlun verið kjörnir til trúnaðarstarfa, með viðeigandi stuðningi og aðlögun. Þar má nefna Mar Galcerán á Spáni, Éléonore Laloux í Frakklandi og Nicolas Vanwinsen í Belgíu. Öll hafa þau gegnt pólitískum embættum og öll eru þau með downs heilkenni. Þessi dæmi sýna að skortur á þátttöku snýst ekki um getu heldur aðstæður og tækifæri.

Áskorun til íslenskra sveitarfélaga

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga skorar Þroskahjálp á stjórnmálaflokka og sveitarfélög að axla ábyrgð. Lýðræðisleg þátttaka fólks með þroskahömlun má ekki vera táknræn heldur eiga allir rétt á raunverulegum tækifærum til þátttöku.

Við köllum eftir:

  • aðgengilegri framkvæmd kosninga, þar á meðal auðlesnu efni og stuðningi við ákvarðanatöku,
  • raunverulegum tækifærum fólks með þroskahömlun til að bjóða sig fram og gegna trúnaðarstörfum,
  • virku samráði þar sem rödd fólks með þroskahömlun fær vægi.
  • Lýðræði sem útilokar er ekki lýðræði. Að brjóta glerþakið er ekki aðeins réttlætismál fyrir fámennan hóp – það er prófsteinn á það hversu alvarlega við tökum mannréttindi, jafnrétti og lýðræðisleg gildi í reynd.

Hér má lesa skýrsluna Inclusion Indicators 2025: https://www.inclusion.eu/inclusion-indicators-2025-key-findings

Höfundur er framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×