Skoðun

Í gamla daga voru allir læsir

Eydís Hörn Hermannsdóttir skrifar

Þegar ég byrjaði að kenna 1997 var umfjöllun um unglinga yfirleitt neikvæð. Hópslagsmál, hnífaburður, heimagerðar flugeldasprengjur á klósettum, íkveikjur, drykkja, skemmdarverk og almennar óspektir voru daglegt brauð, samkvæmt blöðunum. Þetta hafði farið stigvaxandi allan 9. og 10. áratuginn og fullorðið fólk hafði verulegar áhyggjur af afdrifum æskunnar. Afar sjaldan komu jákvæðar fréttir um unglinga þrátt fyrir það gróskufulla líf sem ég hafði fyrir augunum alla daga og mér fannst að fjölmiðlar hefðu engan áhuga á slíku. Samt voru reykingar og drykkja á mikilli niðurleið, hópsöfnun drukkinna unglinga um helgar var lítil miðað við fyrri ár og stöðugt fleiri hugðu á framhaldsskólanám. Ég veit ekki hvort það er bara mín tilfinning en einhvern veginn toppaði umræðan um þetta leyti og það er eins og tekin hafi verið ákvörðun um að beina henni í jákvæðari farveg. Æ oftar birtust fréttir sem sýndu klár börn og hugmyndarík. Þau fengu meira pláss, og keppnir eins og Skólahreysti og Skrekkur vöktu athygli allra. Félagsmiðstöðvar urðu öflugri og samkvæmt könnunum var líðan á uppleið. Það sem ég á við er að viðhorf samfélagsins og umfjöllun fjölmiðla og hafði gríðarleg áhrif á hegðun unglinganna.

Síðustu 10 árin hafa fréttir um börn og skólamál einkennst af svartnætti. Samkvæmt nýskipuðum menntamálaráðherra er skólakerfið búið að snuða þúsundir barna og ungmenna um bjarta framtíð. Við skulum endilega segja 50% því það hljómar bara eins og góð tala. Skólakerfið er í molum, öll börn eru meira eða minna lyfjuð yfir daginn, drengir eru ólæsir og óalandi, unglingar tala bara ensku, kennarar nenna ekki að vinna vinnuna sína, í sumum skólum er ekki töluð íslenska lengur, skólakerfið er það dýrasta í heimi en árangurinn sá versti. Þessar upphrópanir eru daglegt brauð. Hvers vegna? Jú, samkvæmt alþjóðlegu prófi skorum við illa í lestri. Eitt próf, tekið á þriggja ára fresti af öllum 15 ára nemendum og niðurstöðurnar eru alls ekki eins og við viljum. Á þessum 10 árum hafa þúsundir barna byrjað og lokið grunnskóla. Um 50 þúsund börn hafa stundað skóla með suðið um ólæsi, afturför, úrkynjun og slæma hegðun í eyrunum. Í tíu ár hafa drengir verið ómögulegir námsmenn. Það er tuggið ofan í þá í öllum miðlum, þeir standa sig miklu verr en stúlkur, fara miklu síður í “góða” framhaldsskóla og líður ömurlega í grunnskólanum. Þar á ofan bætist við stöðug umræða um framtíðarhorfur mannkyns sem eru jafnvel enn ömurlegri en íslenskt skólakerfi og eyðing jarðar er bara handan við hornið.

Þeir sem hæst hrópa virðist vera fólk á miðjum aldri. Þetta er kynslóðin (eða kynslóðirnar) sem hópaðist saman um helgar með tilheyrandi látum og slagsmálum, stundaði drykkju á grunnskólaböllum og reykti í frímínútum. Á þessum tíma voru leifar tossabekkjanna að breytast í A, B, og C bekki, hraðferð eða hægferð, valið um framhaldsskóla var mun takmarkaðra, ekki síst fyrir landsbyggðina og stúdentspróf var ekki fyrir alla. Þetta er kynslóðin sem fékk svo litla náttúrufræðikennslu að við erum enn að reyna að vinna það upp. Eldri hluti þessa hóps lærði um Kákasusmenn, mongóla, gula menn og rauða. Landafræðin fólst í að læra utan að helstu ár í Evrópu og allar í Borgarfirðinum. Kynfræðslan komst fyrir á einni blaðsíðu og 10 ára nemandi í dag gæti leyst öll enskuverkefni unglingadeildar.

Yngri hluti þessa hóps var sá sem bjó við neikvæða umfjöllun og sat undir ótal fyrirlestrum um forvarnir svo hægt væri að koma böndum á eiturlyfjanotkun, drykkju og reykingar.

Í minningunni voru samt allir í bekknum fluglæsir, með yfirgripsmikla þekkingu í flestum greinum og ef það brutust út slagsmál var það örugglega vegna metings um hvaða Laxness-saga væri best.

Ég er búin að fylgjast með börnum og unglingum í skólastarfi í 30 ár. Jú, það hafa orðið gríðarlegar breytingar innan og utan skólakerfisins. Við vitum betur um margt, við skiptum okkur meira af náunganum, við erum kröfuharðari, við viðurkennum að það er ekki hægt að hafa sömu stærð fyrir alla. Börn og unglingar eru samt bara svipuð og áður, sömu karakterar fylla bekkina, sömu vandamál í grunninn, sömu uppátækin í öðru formi. Að fylgjast með þeim vaxa og þroskast, vera innan um allar þessar hugmyndir, gleði og uppátæki er sennilega stærsta ástæða þess að kennarar haldast í starfi. Við skulum bara viðurkenna það, fullorðið fólk er ekki alveg eins skemmtilegt. Þess vegna tökum við kennarar þessa umræðu svo nærri okkur. Að líf og starf barna sé gert að engu, meira að segja af menntamálaráðherra.

Er ekki kominn tími til viðhorfsbreytingar? Að fólk kynni sér hvað börnin okkar og unglingarnir eru raunverulega að gera í skólum og utan hans. Að það trúi því að drengir séu jafngóðir námsmenn og stúlkur. Að það tali jákvætt um líf barna og beri virðingu fyrir námi þeirra.

Höfundur er grunnskólakennari.




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×