Viðskipti innlent

Segir komið í veg fyrir að starfs­menn Vélfags fái greitt

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Vélfags, (t.h.) segir að Landsbankinn hafi fryst vörslureikning lögmannsstofu sinnar. Til vinstri er Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Vélfags. Hann hefur átt í viðskiptum við Norebo JSC í gegnum annað fyrirtæki sem hann á undanfarin ár.
Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Vélfags, (t.h.) segir að Landsbankinn hafi fryst vörslureikning lögmannsstofu sinnar. Til vinstri er Alfreð Tulinius, stjórnarformaður Vélfags. Hann hefur átt í viðskiptum við Norebo JSC í gegnum annað fyrirtæki sem hann á undanfarin ár. Vísir

Lögmaður tæknifyrirtækisins Vélfags segir að Landsbankinn hafi fryst reikning lögmannsstofu sem átti að nota til þess að greiða starfsmönnum laun og gera upp við birgja og veðhafa. Utanríkisráðuneytið hafi málið til skoðunar en ekki veitt neinar undanþágur til að liðka fyrir útborgun launanna.

Vélfag á Akureyri sagði upp öllum starfsmönnum sínum sem eftir voru 27. nóvember. Stjórnendur þess vísuðu til þess að fyrirtækið væri óstarfhæft vegna þess að reikningar þess væru frystir í þvingunaraðgerðum vegna tengsla þess við Rússland.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Vélfags, segir í aðsendri grein á Vísi að félagið hafi fengið grænt ljós frá utanríkisráðuneytinu á að selja eignir til að greiða veðhöfum, starfsmönnum og birgjum í desember.

Féð hafi átti að leggja inn inn á vörslureikning hjá lögmannsstofu Sigurðar. Utanríkisráðuneytið hafi sett það sem skilyrði að laun starfsmanna skyldu greidd af frystum bankareikningi félagsins hjá Arion banka.

Þegar til kastanna kom segir Sigurður og millifæra átti fé af vörslureikningnum á frysta reikninginn hjá Arion banka hafi Landsbankinn fryst vörslureikninginn. Bankinn hefði sagt að óska þyrfti leyfis utanríkisráðuneytisins til þess að millifæra fé af vörslureikningnum.

„Utanríkisráðuneytið hefur ekki veitt neinar undanþágur til millifærslna af hinum frysta vörslureikningi og látið duga að segja að mál Vélfags séu til skoðunar. Hvað sú skoðun á að leiða í ljós er erfitt að ímynda sér,“ skrifar Sigurður.

Hæstiréttur með málið til skoðunar

Vélfag tapaði máli í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember þar sem félagið krafðist þess að frysting fjármuna þess yrði endurskoðuð. Staðfest var að það væri í verkahring Arion bankaað taka afstöðu til þess en ekki ráðuneytisins.

Þetta gagnrýnir Sigurður í grein sinni í dag. Sú niðurstaða hafi þýtt að Vélfagi hafi haft þann eina kost að höfða einkamál gegn bankanum sem fái ekki flýtimeðferð í dómskerfinu og væntanlega taki um eða tuttugu mánuði að fá lyktir í það.

„Þess má geta að Hæstiréttur hefur nú til skoðunar beiðni Vélfags um að taka til meðferðar mál félagsins gegn ríkinu. Kann því að koma í ljós á næstu mánuðum hvort niðurstaða héraðsdóms sé rétt.“

Talið tengt skuggaflota Rússa

Arion banki frysti reikninga Vélfags í sumar vegna tengsla Ivans Kaufmann, meirihlutaeigana fyrirtækisins, við rússneskt félag á þvingunarlista Evrópusambandsins vegna tilrauna rússneskra stjórnvalda til þess að grafa undan stöðugleika í Evrópu.

Rússneska sjávarútvegsfélagið Norebo JSC átti meirihluta í Vélfagi fram til ársins 2023. Norebo JSC er talið eiga hluta af svonefndum skuggaflota Rússa sem er notaður til þess að fremja skemmdarverk í Evrópu og komast í kringum viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi.

Síðar færði Norebo hluti sína til félags sem skráð var í Hong Kong. Fjórum dögum áður en Norebo JSC var sett á þvingunarlista ESB í maí keypti Kaufmann hlutina. Kaufmann hefur lengi haft tengsl við Orlov-feðga, eigendur Norebo. og telja bæði Arion banki og utanríkisráðuneytið ekki sýnt fram á að kaup hans á Vélfagi hafi ekki verið til málamynda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×