Golf

Efni­legur kylfingur meðal þeirra sem létust í brunanum í Sviss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn sextán ára Emanuele Galeppini lést í brunanum í Sviss.
Hinn sextán ára Emanuele Galeppini lést í brunanum í Sviss. @emanuele.galeppini

Meðal fórnarlamba eldsvoðans sem braust út á nýársnótt í Crans Montana í Sviss var efnilegur kylfingur.

Hinn sextán ára Emanuele Galeppini er meðal þeirra óheppnu sem brunnu inni þegar nýárspartýið breyttist í martröð eftir að eldur braust út og breiddist út á augabragði.

Ítalska golfsambandið birti samúðarkveðju á vefsíðu sinni og á samfélagsmiðlum

„Ítalska golfsambandið syrgir fráfall Emanuele Galeppini, ungs íþróttamanns sem bar með sér ástríðu og sönn gildi,“ segir í yfirlýsingunni.

„Á þessari miklu sorgarstundu eru hugsanir okkar hjá fjölskyldu hans og öllum þeim sem þótti vænt um hann. Emanuele, þú munt að eilífu lifa í hjörtum okkar.“

Næstum því fimmtíu manns létust í eldinum sem kom upp á gamlárskvöld á barnum Le Constellation í Crans-Montana.

Lögreglan í Valais staðfesti síðan að um fjörutíu hefðu látist í eldsvoðanum, sem talinn er hafa valdið sprengingu, og um 115 manns hefðu slasast. Heildarfjöldi fórnarlamba hefur síðan hækkað í 47 en enn á eftir að bera kennsl á fimm fórnarlömb samkvæmt nýjustu fréttum. Það má búast við að tala látinna gæti hækkað enn frekar enda margir mjög illa slasaðir.

Stéphane Ganzer, yfirmaður öryggismála í kantónunni Valais, sagði í franska þættinum RTL Matin að „á milli áttatíu og hundrað manns af þeim sem slösuðust í brunanum væru í lífshættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×