Skoðun

Skatta-Grýlan ó­gur­lega

Ása Berglind Hjálmarsdóttir skrifar

Grýla hét tröllkerling

leið og ljót

með ferlega hönd

og haltan fót.

Ef góð voru börnin

var Grýla svöng,

og raulaði ófagran

sultarsöng.

Svona orti Jóhannes úr Kötlum. Ég get ekki að því gert en málflutningur minnihlutans á Alþingi minnir mig um margt á Grýlu gömlu. Trekk í trekk í vetur hefur minnihlutinn hlaupið af stað með týnda skó eða meinta skattaorma sem hún hendir í súpu með miklu magni af misskilningi og dassi af upplýsingaóreiðu. Hrærir svo í þessum pottum af einstakri elju.

Á meðan ný ríkisstjórn er upptekin við að laga samgöngukerfið, heilbrigðiskerfið og ekki síst efnahagsmálin eftir ótrúlega vanrækslu síðustu ríkisstjórna, þá er það besta sem minnihlutinn hefur fram að færa útúrsnúningar og gagnrýni á þá staðreynd að það þurfi raunverulega að fjármagna þessa risavöxnu innviðaskuld sem þau skildu eftir.

Sultarsöngurinn er rosalegur og yfir hverju? Jú, við skulum skoða hvar verið er að sækja fjármagnið:

  • Með því að afnema samnýtingu efstu skattþrepa, skattaívilnun í boði fyrri ríkisstjórna sem er helst nýtt af einstaklingum í efstu tekjutíundunni. Þetta hefur minnihlutinn reynt að mála upp sem afnám samsköttunar sem muni bitna á öllum sambúðaraðilum sem samnýta persónuafslátt. Það er einfaldlega rangt.
  • Hins vegar á nú að afnema persónuafslátt þeirra sem lifa einungis á fjármagnstekjum sem eru að uppistöðu eignamestu hópar samfélagsins. Það hefur engin áhrif á nýtingu persónuafsláttar launafólks, sem er uppistaða landsmanna.
  • Verið er að innleiða nýtt kerfi til þess að fjármagna viðhald og uppbyggingu á vegunum okkar, í stað þess kerfis sem var að hruni komið. Kerfi sem hefur virkað vel fyrir rafbíla í 2 ár. Í staðinn mun bensín og olía lækka svo um munar. Yfir þessu nötrar Sjálfstæðisflokkurinn, þrátt fyrir að nýja kerfið sé í grunninn komið frá þeim og að mælt hafi verið fyrir innleiðingu þess í tíð síðustu ríkisstjórnar.
  • Vörugjöld á nýja mengandi bíla verða hækkuð, sem er mjög eðlilegur liður í því að flýta fyrir orkuskiptum. Á hverjum bitna þessi gjöld? Á þeim sem hafa efni á að kaupa sér glænýja bíla úr kassanum, á sama tíma eru engin vörugjöld á rafmagnsbílum sem eru orðnir eftirsóttari kostur fyrir flesta einstaklinga sem eru að fjárfesta í nýjum bílum, eðlilega. Þess má geta að 60 prósent allra nýrra bíla sem heimili landsins kaupa um þessar mundir ganga fyrir rafmagni.
  • Nú verða innheimt sanngjörn gjöld af nýtingu auðlinda þjóðarinnar, sem minnihlutinn sá ofsjónir yfir í sumar en er að átta sig á núna að var óþarfa upphlaup eftir allt saman.
  • Verið er að jafna raforkukostnað. Gjald sem ríkið innheimtir af veitufyrirtækjum og nýtir svo til niðurgreiðslu á raforku í dreifðum byggðum verður hækkað. Það er sannkallað sanngirnismál þar sem heimili víða á landsbyggðinni hafa í áraraðir greitt miklu hærra verð fyrir raforku en íbúar í þéttbýli.

Þetta eru nú öll ósköpin, ljóta skatta Grýlan sem minnihlutinn reynir að mála upp af miklum krafti. Ég segi bara eins og Guðríður vinkona mín sem sendir reglulega frá sér hressandi myndbönd: Haldið bara áfram ykkar góðu störfum!

Þau munu ekki trufla okkar vegferð í að laga Ísland.

Og hvernig byrjar ný ríkisstjórn á því risavaxna verkefni? Ég nefni nokkur atriði:

  • Með því að ná niður vöxtum og verðbólgu. Á einu ári hafa orðið 5 vaxtalækkanir og verðbólgan er á niðurleið. Þetta skilar 60.000 kr. minni afborgun af 40 milljóna króna óverðtryggðu láni á mánuði. Það munar um minna.
  • Með því að styrkja meðferðarúrræði og hafa þau opin yfir sumartímann ásamt því að klára Gunnarsholt, fjármagna endurbyggingu á Stuðlum og byggja fleiri meðferðarrými.
  • Með því að leggja fram fjármagnaða samgönguáætlun, stórauka framlag í samgöngumál til þess að laga vegina, byrja aftur að bora göng og hefja stórframkvæmdir í vegakerfinu á ný. Heildarframlög til samgangna hækka úr 56 í 73 milljarða króna á milli 2024 og 2026.
  • Með því að ráðast í stórátak í uppbyggingu hjúkrunarheimilia og setja aukið fjármagn í geðheilbrigðismál.
  • Með því að ráðast í að laga stöðuna á húsnæðismarkaði. Þegar er búið að leggja fram einn húsnæðispakka og annar er á leiðinni.
  • Þessi upptalning er fjarri því tæmandi.

Ríkisstjórnin er rétt að byrja en við sögðumst vera með plan og þetta plan er að virka.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×