Körfubolti

Fyrsti sigurinn í rúman mánuð: „Sýndum í dag að við erum með gott lið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var með 37 framlagsstig gegn ÍR.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var með 37 framlagsstig gegn ÍR. vísir/diego

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson spilaði stórvel þegar KR lagði ÍR að velli, 102-96, í Bónus deild karla í kvöld. Hann var sáttur með sigurinn eftir erfitt gengi KR-inga upp á síðkastið.

„Þetta var gríðarlega mikilvægt. Eftir erfitt gengi var mikilvægt að ná þessum sigri og við vildum þetta virkilega mikið,“ sagði Þórir við Vísi eftir leik.

Eftir jafnan 1. leikhluta tók KR völdin í 2. leikhluta og leiddi með þrettán stigum í hálfleik, 52-39.

„Við héldum þeim í færri stigum. Vörnin var góð og small saman. Við náðum góðum fráköstum, keyrðum í bakið á þeim og náðum góðri forystu. Við misstum hana svolítið niður í seinni hálfleik en ég virkilega ánægður að hafa ekki stressast upp og haldið áfram,“ sagði Þórir.

ÍR-ingar sóttu heldur betur að KR-ingum í seinni hálfleik og minnkuðu muninn í þrjú stig. En þá skoraði Aleksa Jugovic þrjár þriggja stiga körfur á skömmum tíma og Þórir tók svo við keflinu.

„Það var mjög dýrmætt fyrir okkur að standast þetta áhlaup. Þeir fóru í einhverja svæðisvörn, við hikuðum aðeins og hleyptum þeim inn í leikinn en þessir þristar hjá Aleksa voru virkilega mikilvægir. Við komum okkur aftur inn í þetta og náðum góðum stoppum,“ sagði Þórir.

Hann skoraði 23 stig, tók sjö fráköst, gaf fjórtán stoðsendingar og var framlagshæstur á vellinum.

En var þetta besti leikur Þóris í vetur?

„Örugglega. Við náðum að vinna og það er það eina sem skiptir máli. Við vorum búnir að tapa nokkrum leikjum í röð og þurftum á þessu að halda. ÍR er með flott lið og við erum að berjast á svipuðum stað í töflunni. Hver einasti leikur í þessari deild er bardagi, maður þarf að mæta tilbúinn og við sýndum í dag að við erum með gott lið,“ svaraði Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×