Skoðun

Mann­réttindi í mót­vindi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Mannréttindi tilheyra okkur öllum. Alls staðar, á öllum tímum. Óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kyni, kynhneigð, uppruna, litarhætti eða öðru. Þetta er einföld staðreynd, en hún er kjarninn í þeirri sýn sem við Íslendingar höfum viljað byggja okkar samfélag á. Og þar liggur einn af okkar stærstu styrkleikum.

Á alþjóðlegum degi mannréttinda er ljóst að þessi grundvallarréttindi eiga undir högg að sækja víða um heim og því hefur sjaldan verið mikilvægara að standa vörð um þau. Að huga að jaðarsettum hópum í okkar samfélagi.

Sofnum ekki á verðinum

Í tilefni dagsins hefur utanríkisráðuneytið tekið saman helstu áherslur og aðgerðir Íslands í mannréttindamálum á alþjóðavettvangi. Þessi samantekt veitir innsýn í það þýðingarmikla starf sem Ísland sinnir í þágu mannréttinda. Hún undirstrikar að vernd réttinda og mannlegrar reisnar er ekki einungis siðferðileg skylda heldur lykillinn að varanlegum friði og stöðugleika í heiminum.

Vernd og efling mannréttinda fléttast inn í allt starf utanríkisþjónustunnar og eru leiðandi stef í alþjóðlegu málsvarastarfi og þróunarsamvinnu. Við Íslendingar eigum góða sögu að segja en megum ekki sofna á verðinum. Ekki þegar þær raddir sem vilja draga úr réttindum fólks verða sífellt hærri.

Í vaxandi mæli er reynt að veikja stöðu kvenna og stúlkna, grafa undan réttindum hinsegin fólks, vega að tjáningarfrelsi og þrengja að réttindum sem hafa áunnist með áratugalangri baráttu. Þetta er ekki aðeins eitthvað sem er að gerast langt í burtu, heldur allt í kringum okkur. Jafnvel í samfélagsumræðu hér heima.

Þess vegna þurfum við að standa saman.

Áhrif langt umfram stærð

Ísland lætur ekki sitt eftir liggja á alþjóðlegum vettvangi. Virðing fyrir mannréttindum er nauðsynlegur grundvöllur samfélags þar sem einstaklingar geta lifað án ótta og notið frelsis til að tjá sig, trúa og tilheyra.

Ísland sinnir þýðingarmiklu starfi í þágu mannréttinda og undanfarin ár hefur Ísland tekið að sér sífellt stærri verkefni á alþjóðavettvangi.

Ísland tók fyrst sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna með stuttum fyrirvara árið 2018 og sat til loka árs 2019. Ísland var kjörið til setu í framkvæmdastjórn UNESCO fyrir hönd Norðurlandanna fyrir tímabilið 2021-2025 og tók við formennsku í Evrópuráðinu 2022 – sama ár og Rússar hófu allsherjarinnrás sína í Úkraínu.

Í upphafi þessa árs tókum við sæti í mannréttindaráðinu í annað sinn og stendur kjörtímabil okkar til loka ársins 2027.

Lærdómurinn sem við drögum af þátttöku okkar í þessum mikilvægu verkefnum er að Ísland getur haft áhrif langt umfram stærð með því að vera virkur og trúverðugur málsvari mannréttinda og réttlætis í heiminum. Í utanríkisstefnu hefur Ísland staðið vörð um grundvallarmannréttindi allra – óháð þáttum sem geta skapað jaðarsetningu.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á kynjajafnrétti, réttindi barna og ungmenna – og þar að sjálfsögðu allra barna, fatlaðra sem ófatlaðra, í hvaða félagslegu aðstæðum sem þau kunna að vera í – réttindi hinsegin fólks og stuðning við lýðræði, tjáningar- og fjölmiðlafrelsi.

Samstaða ríkja sjaldan mikilvægari

Við lifum nú í heimi þar sem stríðsátök og hungursneyð geisa á sama tíma og gerð er alvarleg aðför að alþjóðakerfinu. Á viðsjárverðum tímum þar sem víða er vegið að grunngildum mannréttinda er nauðsynlegt að efla og verja samstöðu ríkja um virðingu fyrir mannréttindum, fjölbreytileika og alþjóðalögum.

Þessu gerum við okkur grein fyrir í ríkisstjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins en þessi nálgun endurspeglar líka gildi þjóðarinnar og þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir. Því var það fagnaðarefni að geta á þessu ári lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Fyrir þennan mannréttindadag hefur skrifstofa mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna talað um mannréttindi sem okkar daglegu nauðsynjar. Þetta orðalag undirstrikar að sterkt alþjóðlegt samstarf snýst ekki bara um stofnanir heldur um fólk – venjulegt fólk sem lifir frjálsara, öruggara og betra lífi þegar ríki velja samvinnu fram yfir átök, réttindi fram yfir ofríki.

Þess vegna munum við áfram vera öflugir málsvarar mannréttinda og tala fyrir framtíðarsýn sem byggir á virðingu og jafnrétti.

Okkar rödd skiptir máli

Þessir tímar kalla á kjark. Ekki hræðslu, heldur kjark.

Kjark til að segja: Hér stöndum við. Þetta eru okkar gildi. Og við gefum engan afslátt af þeim.

Við munum halda áfram að tala fyrir virðingu og jafnrétti. Við munum halda áfram að verja alþjóðalög. Við munum halda áfram að berjast gegn bakslagi. Sama hvaðan það kemur.

Okkar rödd er sterk. Og hún skiptir máli.

Höfundur er utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×