Upp­gjör: ÍR-Álftanes 97-86 | Skoruðu tíu fleiri þrista

Pálmi Þórsson skrifar
ÍR-ingar fagna körfu í kvöld en þeir skoruðu tíu fleiri þrista en Álftnesingar.
ÍR-ingar fagna körfu í kvöld en þeir skoruðu tíu fleiri þrista en Álftnesingar. Vísir/Hulda Margrét

ÍR-ingar fögnuðu ellefu stiga sigri á móti Álftanesi, 97-86, í Bónusdeild karla í körfubolta í kvöld. Álftanesliðið var að frumsýna nýjan erlendan leikmann í Skógarselinu en tími hans byrjar ekki vel.

ÍR-ingar enduðu með þessu þriggja leikja taphrinu sína en Álftnesingar voru að tapa sínum þriðja deildarleik í röð.

Breiðhyltingar skoruðu sautján þrista í leiknum eða tíu fleiri en Álfnesingar.

Dimitrios Klonaras skoraði 21 stig á móti sínum gömlu félögum en Rati Andronikashvili, nýi maður Álftaness, var bara með sjö stig. Jacob Falko var með 18 stig og 11 stoðsendingar fyrir ÍR. David Okeke skoraði 21 stig fyrir Álftanes.

Álftnesingar komu í heimsókn í Breiðholtið í kvöld og úr varð frábær skemmtun. Fyrir leikinn voru liðin á svipuðum stað um miðja deild.

Leikurinn fór af stað eins og hann spilaðist. Álftnesingar byrjuðu með miklu frumkvæði og komust í 2-9 og útlit fyrir að þeir ætluðu að hlaupa með leikinn nokkuð þægilega. En ÍR-ingar tróðu sér aftur inn í leikinn með sterkum varnarleik og hægðu virkilega á Álftnesingum. Staðan eftir 1. leikhluta var því 26-23.

2. leikhluti fór af stað með látum en Zarko Jugic tróð boltanum með látum, en hann var svolítið í þeim gír í kvöld. Restin af leikhlutanum var eins og boxbardagi. Það kom högg frá Álftanesi en strax á móti svöruðu ÍR-ingar og svo öfugt. Svæðisvörn Álftnesinga reyndist ÍR-ingum erfið og náðu gestirnir að búa sér til 6 stiga forskot. En heimamenn náðu að leysa hana og tóku leikinn aftur til sín. Staðan í hálfleik var þá 44-42 og bæði lið búin að gera tilkall til að taka leikinn yfir en hvorugt líklegt.

Seinni hálfleikurinn var eins en lokamínútur leiksins snérust um það hvort liðið gæti sett fleiri stór skot og það voru þeir Hákon Örn Hjálmarsson og Tómas Orri Hjálmarsson sem heldur betur gerðu það. Þegar innan við þrjár mínútur voru eftir af leik setti Tómas þrist og kom ÍR-ingum í fjögurra stiga forskot. Hann stal síðan boltanum hinu megin og Hákon setti þrist og kom ÍR í 7 stiga forskot.

Það reyndist vera rothöggið og ÍR fagnaði 97-86 sigri.

Atvik leiksins

Flottustu atvikin voru sennilega allar troðslurnar frá Zarko Jugic en þær urðu bara fallegri og fallegri.

Stjörnur og skúrkar

Tómas Orri og Hákon Hjálmar komu með stór framlög sem heldur betur hjálpuðu að vinna þennan leik. Erfitt er að kalla einhvern skúrk í Álftanesi.

Dómarar

Sigmundur Már Herbertsson, Bjarni Hliðskvist og Sigurbaldur Frímannsson stóðu sig mjög vel með flautuna nema að Sigurbaldur hefði mátt sleppa einni tæknivillu sem hann gaf Álftanesi.

Stemming og umgjörð

Stemmingin í Breiðholtinu er alltaf góð en það þarf eitthvað að skoða nettengingar í húsinu.

Borche Illevski Sansa, þjálfari ÍR-inga, lætur heyra í sér á hliðarlínunni í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

„Álftanes er með dýrt lið”

Borche Illevski Sansa, þjálfari ÍR-inga, var virkilega glaður með sigur sinna manna.

„Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja, þetta var erfiður leikur. Álftnesingar eru með gott lið og sérstaklega með nýja viðbót þá vissum við ekki alveg hvernig við áttum að nálgast hann en ég horfði á hann spila á móti Spáni og þó svo að Georgía hafi tapað stórt þá sýndi hann gæði þannig ég reyndi að afla mér einhverra upplýsinga um hann. En hann á eftir að hjálpa Álftanesi bæði sóknarlega og varnarlega,” sagði Borche Illevski.

Við áttum smá erfitt í byrjun en við náðum að sýna smá karakter og vinna leikinn og við þurftum það eftir slæman leik á móti ÍA og ég vona að þetta breyti taktinum hjá okkur og við förum að spila betur og með sjálfstrausti,” sagði Borche.

ÍR-ingar hafa unnið nokkur af liðunum sem hægt er að telja sem efri hluta lið en tapað fyrir liðunum sem eru fyrir neðan þá.

„Álftanes er með dýrt lið og það er erfitt að para sig á móti þeim. En ég get bara hrósað strákunum. Þeir sýndu hjarta og ef þeir spila alltaf svona þá getum við unnið alla. Við vitum það. Við unnum á móti Stjörnunni, Njarðvík og núna Álftanesi. Við höfum átt marga slæma leiki sem veldur mér áhyggjum en eins og ég sagði áðan þá vona ég að þetta gefi okkur sjálfstraust,” sagði Borche.

Þeir spila við KR næst og það verður aftur mikilvægur leikur við lið sem er með jafn mörg stig og þeir. „Þessi deild er rosalega jöfn. Það geta allir unnið alla. Við förum þangað og vonandi getum við endurtekið þennan leik. Ef við spilum svona þá verða úrslitin góð,” sagði Borche að lokum.

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, á hliðarlínunni í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

„Við sóttum hann af einhverri ástæðu”

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var hundfúll með tapið í kvöld.

„Þetta var leikur áhlaupa. Við komum inn og vorum betri. Þeir ná að taka taktinn til sín. Við förum í svæði og tökum taktinn aftur til okkar. Svo fara þeir að spila vel á móti svæðinu, hreyfa boltann vel og þeir voru bara að gera vel. Þeir voru að setja skot sem þeir hafa ekkert verið að setja á þessu tímabili,” sagði Kjartan.

„Þetta voru góð skot sem þeir bjuggu til og gerðu bara vel en maður spyr sig hvað gerum við til að láta þá spila svona vel og það er eitthvað sem við þurfum að fara í gegnum,” sagði Kjartan en í hvert skipti sem Álftanes virtist ætla að taka einhver tök á leiknum þá settu ÍR-ingar stór skot.

„Stundum er það bara þannig,“ sagði Kjartan svekktur. En Álftnesingar frumsýndu nýjan leikmann. Hann Rati frá Georgíu.

„Við sóttum hann af einhverri ástæðu. Hann spilaði svolítið eins og liðið í kvöld. Sumt gott og margt ekki og við erum drullu fúlir,” sagði Kjartan.

Eftir leikinn sitja Álftnesingar í 5. til 8. sætinu með 8 stig en vilja klárlega vera ofar á töflunni. Hvernig horfa þeir á næstu daga fram að jólum?

„Bara að æfa vel. Eigum þrjá leiki, tvo í deild og einn í bikar og allir eru staðráðnir í því að gera betur. Vinnan byrjar bara á morgun,” sagði Kjartan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira