Viðskipti innlent

Margrét hættir hjá RÚV um ára­mótin

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Margrét Jónasdóttir hóf störf sem aðstoðardagskrárstjóri RÚV árið 2022.
Margrét Jónasdóttir hóf störf sem aðstoðardagskrárstjóri RÚV árið 2022. Aðsend

Margrét Jónasdóttir, aðstoðardagskrárstjóri hjá RÚV, lætur af störfum um áramótin. Hún hyggst snúa sér aftur að framleiðslustörfum og klára mastersritgerð.

Margrét tók við stöðu aðstoðardagskrárstjóra árið 2022 en þar áður átti hún langan og farsælan feril í framleiðslu og handritsskrifum heimildarmynda, lengst af í starfi yfirmanns heimildarmyndadeildar og aðalframleiðanda hjá Sagafilm.

Hún var tímabundið settur dagskrárstjóri RÚV eftir að Skarphéðinn Gunnarsson sagði starfi sínu lausu fyrir ári síðan. Hún sóttist eftir starfinu þegar það var auglýst en Eva Georgsdóttir, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, hlaut starfið.

„Þetta var allt í ágætissamkomulagi, það er ekki ein ástæða,“ segir Margrét í samtali við fréttastofu.

„Það er auðvitað þegar það eru breytingar í brúnni þá er tími til þess að skoða sig um aftur. Ég á nokkur ókláruð stór verkefni sem mig langaði til að sinna. Það er ekkert eitthvað dramatískt en búið að vera mjög áhugavert og lærdómsríkt að sitja í Efstaleitinu.“

Margrét segir margt spennandi fram undan, til að mynda langi hana að snúa sér aftur að framleiðslustörfum og jafnvel klára mastersritgerðina sína. Margrét er með meistaragráðu í samtímasögu frá University College London og hefur stundað meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.

Meðfram framleiðandastarfi gegndi Margrét ýmiss konar nefndarstörfum og sat í stjórnum og dómnefndum sem tengdust kvikmyndagerð og heimildarmyndaframleiðslu, bæði hérlendis og erlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×