Körfubolti

Rekinn úr húsi í Breið­holtinu en fyrst fór rusla­tunnan á flug

Sindri Sverrisson skrifar
DeAndre Kane fór hundfúll af velli, mátti þola hróp og köll, og skömmu síðar fór ruslatunnan á flug.
DeAndre Kane fór hundfúll af velli, mátti þola hróp og köll, og skömmu síðar fór ruslatunnan á flug. Skjáskot/Sýn Sport

„Ég hef aldrei séð þetta áður, að maður fái tvær tæknivillur og hendi svo ruslatunnu,“ sagði Teitur Örlygsson í Tilþrifunum á Sýn Sport, þegar hegðun Grindvíkingsins DeAndre Kane í Breiðholti í gærkvöld var til umræðu.

Kane var rekinn úr húsi í fjórða leikhluta, eftir tvær tæknivillur, og var því ekki viðstaddur í lokin þegar topplið Bónus-deildarinnar í körfubolta fagnaði sínum sjöunda sigri í röð.

Bandaríkjamaðurinn var vægast sagt óánægður með ákvörðun dómaranna og eflaust hefur ekki hjálpað til að þurfa að hlusta á hróp og köll líflegra stuðningsmanna ÍR í Skógarselinu.

Hann tók sér sinn tíma í að fara af velli og stoppaði svo við útganginn, á milli stuðningsmanna liðanna, í drjúga stund áður en ruslatunnan sem þar var fór svo á flug. Meira sást svo ekki til Kane.

Sérfræðingarnir í Tilþrifunum, Teitur Örlygsson og Jón Halldór Eðvaldsson, voru ekki beinlínis undrandi á því að Kane væri að koma sér í fréttirnar af óæskilegum ástæðum enda hefur það gerst ítrekað síðustu ár.

Klippa: Umræða um Kane og ruslakastið

„Þetta er gömul saga og ný, svo við verðum nú aðeins hóflegir. Það gerist ekkert. Hann fer í eitthvað bann í versta falli og svo bara áfram gakk,“ sagði Jón Halldór, eða Jonni, og voru þeir Teitur ánægðir með viðbrögð Jóhanns Þórs Ólafssonar, þjálfara Grindavíkur.

„Þetta gerist einu sinni á ári, búið að gerast síðustu þrjú ár,“ sagði Jóhann í viðtali eftir leik.

„Ég er búinn að gera mitt, ég er búinn að spjalla við hann og hann er búinn að biðjast afsökunar á þessu. Svo er það bara þeirra sem stýra skútunni fyrir utan völlinn að ákveða hvert framhaldið verður. Ég var að horfa á Last Dance aftur, og þar talaði Phil Jackson um það að í öllum góðum hópum er alltaf einn sem labbar aftur á bak. Við skulum bara hafa það þannig,“ sagði Jóhann og Teitur hreifst af þessum viðbrögðum:

„Jói er ekki að eyða neinni orku eða dramatík í þetta lengur. Hann lætur bara einhverja aðra fyrir utan völlinn sjá um það og einbeitir sér bara að liðinu. Hann veit alveg að Kane kemur bara sterkari til baka,“ sagði Teitur.


Tengdar fréttir

„Viðurkennt að svona gerum við ekki“

Formaður Körfuknattleikssambands Íslands óttast ekki fjölgun mála á borð við það sem körfuknattleiksdeild Grindavíkur var dæmd fyrir, vegna hegðunar DeAndre Kane í hálfleik gegn Hetti í Bónus-deildinni, þrátt fyrir lága sekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×