Körfubolti

Stjórnar­maður KKÍ aug­lýsir ó­lög­lega veð­mála­starf­semi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hugi er stjórnarmaður hjá KKÍ og er í virku samstarfi við erlenda veðmálafyrirtækið Coolbet.
Hugi er stjórnarmaður hjá KKÍ og er í virku samstarfi við erlenda veðmálafyrirtækið Coolbet. Vísir/Vilhelm/Skjáskot

Hugi Halldórsson, stjórnarmaður hjá KKÍ, hefur reglulega auglýst erlenda veðmálafyrirtækið Coolbet, bæði á samfélagsmiðlinum X sem og í hlaðvarpinu 70 mínútum. Framkvæmdastjóri sambandsins vildi lítið tjá sig um málið.

Hugi var kjörinn í stjórn KKÍ á ársþingi sambandsins í apríl. Hann hefur auglýst Coolbet undanfarin ár og engin breyting orðið á við stjórnarsetu hans hjá sambandinu.

Hugi rekur einnig tóbakssölufyrirtækið Bagg.is þar sem þeim fyrstu 100 sem tryggðu sér áskrift að tóbakssöluþjónustu hjá fyrirtækinu áttu möguleika á að vinna 1.000 evru inneign hjá Coolbet. Coolbet er áberandi í auglýsingu happdrættisleiks þess á samfélagsmiðlinum Instagram.

Í auglýsingu Bagg.is má sjá nikótíndósir merktar fyrirtækinu og kóðinn „Coolbet“ veitir möguleika á vinningi. Hugi birti færsluna ásamt Sigurði Gísla Bond, sem sjá má í mynd, ásamt aðgangi Coolbet á miðlinum Instagram.Skjáskot/Instagram

Umfang veðmálastarfsemi hérlendis hefur vaxið í umræðunni undanfarnar vikur. Auglýsing Kristófers Acox fyrir Coolbet kom ákveðinni umræðu af stað.

Enn er til skoðunar hvort refsa eigi Kristófer fyrir auglýsinguna. Þar voru til veðmál á leiki í Bónus-deild karla, sem hann sjálfur spilar í fyrir Val. Leikmönnum er bannað að veðja á leiki í sinni deild í öllum íþróttum hér á landi en regluverk KKÍ hvað varðar auglýsingar leikmanna á veðmálum er öllu óskýrara.

Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, sagði við íþróttadeild í gær að mál Kristófers og önnur því lík kynnu að hafa neikvæð áhrif á ímynd hreyfingarinnar. KKÍ hafi þá borist ábendingar um önnur möguleg veðmálabrot eða álíka auglýsingar innan hreyfingarinnar eftir að mál Kristófers komst í fréttirnar.

„Það hafa fleiri mál komið inn á borð til okkar eftir að þetta kom upp. Við erum að skoða þetta heilt yfir,“ sagði Hannes í Sportpakkanum í gær.

Klippa: Ummæli framkvæmdastjóra KKÍ um veðmálaauglýsingar stjórnarmanns

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar hefur sambandinu til að mynda verið bent á auglýsingar stjórnarmanns þess, og þar vísað til Huga.

Hannes vildi aftur á móti lítið tjá sig um auglýsingar stjórnarmanns þegar eftir því var leitað í viðtali sem hann veitti íþróttadeild í gær.

„Það er erfitt fyrir mig sem framkvæmdastjóra sambandsins að tjá mig um þá sem eru í stjórn KKÍ. Það verður hver og einn að gera það upp við sjálfan sig hvað mönnum finnst um það,“ segir Hannes.

Sjá má ummælin í spilaranum að ofan.


Tengdar fréttir

Pallborðið: Dómgreindarbrestur hjá CoolBet

Íslendingar eyða tugum milljarða á ári á ólöglegum veðmálasíðum. Eigendur þeirra greiða enga skatta eða gjöld hér á landi vegna úreltra laga sem hefur ekki verið breytt síðan árið 2005. Dómsmálaráðherra vill breytingar en í hvaða átt skal fara? Leyfa eða banna? Málið var rætt í Pallborðinu á Vísi í dag. 

Kristófer fjarlægir sig frá Coolbet fjölskyldunni

Kristófer Acox og Coolbet hafa fjarlægt allar færslur þar sem leikmaðurinn sést á samfélagsmiðlum veðmálasíðunnar. Körfuknattleiksdeild Vals vildi ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×