Upp­gjörið: ÍA - Njarð­vík 119-130 | Svaka­leg spenna á Skaganum

Sverrir Mar Smárason skrifar
_DSF2024
vísir/Anton

Njarðvíkingar unnu sinn fyrsta leik í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld þegar þeir mættu á Akranes og lögðu Skagamenn með ellefu stigum eftir framlengdan leik, 130-119.

Skagamenn byrjuðu leikinn vel og voru mest tólf stigum yfir í 2. leikhluta. Þar voru fremstir í flokki hinn bandaríski Darnell Cowart og Josip Barnjak frá Bosníu. Gestirnir úr Njarðvík unnu sig inn í leikinn og náðu að minnka muninn niður í 2 stig áður en liðin gengu til búningsherbergja. Hálfleikstölur 55-53, heimamönnum í vil.

Í upphafi síðari hálfleiks var greinilegt að gestirnir ætluðu sér að auka hraðann í leiknum og gekk það vel framan af. Njarðvík var komið mest tíu stigum yfir þegar leið á 3. leikhluta en líkt og þeir sjálfir fyrr í leiknum náðu heimamenn að spyrna sér frá botninum og minnka muninn í 3 stig fyrir lokaleikhlutann.

Fjórði leikhluti var algjörlega leikhluti augnabliksins þar sem augnablikið var með ÍA eina stundina og Njarðvík þá næstu. Liðin skiptust á að leiða alveg fram að síðustu sekúndu þegar ÍA var yfir með einu stigi 109-108 og Njarðvík fékk tvö vítaskot. Dwayne Lautier-Ogunleye fékk það verkefni að taka vítin undir miklum látum úr stúkunni. Honum tókst aðeins að hitta úr öðru vítinu og Skagamenn náðu ekki að bæta við. Leikurinn því framlengdur, 109-109.

Í framlengingunni voru það gestirnir sem voru mun sterkari. Þeir tóku hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og unnu að lokum framlenginguna 10-21 og leikinn 119-130. Öflugur fyrsti sigur þó að torsóttur hafi hann verið.

Atvik leiksins

Ég verð að nefna vítaskotin sem Dwayne Lautier-Ogunleye tók með fimm sekúndur eftir. Undirritaður hefur aldrei upplifað önnur eins læti í Íþróttahúsinu á Vesturgötu. Hann þurfti að hitta á báðum til þess að vinna leikinn en klikkaði á því fyrra. Ég verð að gefa honum það að það tók mikinn styrk að setja niður það síðara til þess að jafna leikinn og tryggja framlengingu sem Njarðvíkingar unnu svo.

Stjörnur og skúrkar

Saman fá þrír erlendir leikmenn ÍA þetta. Darnell Cowart 34-4-3, Gojko Zudzum 30-9-3 og Josip Barnjak 29-6-9, sem byrjaði á bekknum og spilaði fimm mínútum minna en hinir tveir. Allir stórkostlegir í kvöld og þurfa að vera það áfram ef ÍA ætlar að vinna leiki.

Í liði Njarðvíkur báru tveir af. Brandon Averette 37-4-9 og Mario Matasovic 30-7-4 fóru fyrir sínu liði í dag.

Skagamenn þurfa að fá meira framlag frá Styrmi Jónassyni og Lucien Thomas en þeir fengu í dag. Báðir hafa þeir byrjað tímabilið mjög vel.

Dómarinn

Línan hjá dómurunum var á köflum nokkuð óskýr í dag og lengi vel fannst Skagamönnum í stúkunni halla allverulega á heimaliðið. Ég sá það ekki hafa neitt alltof mikil áhrif á leikinn og gef þeim því bara fína 7 í einkunn.

Stemmning og umgjörð

Frábær stemning á skaganum og umgjörðin góð í gamla húsinu á Vesturgötu. Vængir í boði og allir í geggjuðum gír. Þetta var samkvæmt heimamönnum síðasti leikurinn í þessu húsi því næsti heimaleikur, á föstudaginn eftir viku, á að fara fram í nýja íþróttahúsinu við Jaðarsbakka. Það mun færa allt upp á næsta plan í körfuboltanum á Akranesi.

Óskar Þór Þorsteinsson þjálfari ÍA.ÍA

Óskar Þór: Þá verður hann bara með betri mönnum í deildinni

Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari ÍA, var að vonum svekktur að fá ekki meira út úr leiknum í kvöld þrátt fyrir mikinn karakter og góða frammistöðu frá sínu liði.

„Ég er bara svekktur. Heilt yfir var bara góð frammistaða í leiknum og bara margt sem hefði þurft að fara betur í framlengingunni hjá okkur,“ sagði Óskar um leikinn.

Skagamenn voru yfir mestallan fyrri hálfleik og leiddu þegar liðin gengu til búningsherbergja. Gestirnir komu af meiri krafti út í síðari hálfleikinn og ÍA varð að elta.

„Við virðumst bara vera í miklum vandræðum með að dekka snögga leikstjórnendur. Við sjáum það núna bæði á móti Grindavík og á móti Njarðvík. Það er eitthvað sem við þurfum bara að bæta okkur í. Mér finnst þeir komast alltof mikið inn í miðjuna og svo fengum við helling af villum í fyrri hálfleik sem gerði okkur erfitt fyrir,“ sagði Óskar Þór.

Í framlengingunni náðu Njarðvíkingar mörgum sóknarfráköstum sem að lokum urðu ÍA að falli. Það er þó margt jákvætt við þennan leik hjá ÍA, meðal annars frammistaða Darnell Cowart sem er bandaríski leikmaður liðsins og hefur verið mikið gagnrýndur í upphafi móts.

„Sóknarfráköstin og hjálp frá vitlausum mönnum. Mario fær einn galopinn þrist í lokin sem má náttúrulega bara ekki gerast. Það er líka bara þreyta í mínum mönnum, ég er að spila þeim stíft og allt það. Það hefur líka spilað inn í.“

„Darnell er alveg með fullt af bolta í sér, það er engin spurning. Fyrir mér hefur það aldrei verið vandamálið hans. Hann þarf bara að fá að hlaupa sig aðeins í gang og fá aðeins meiri vinnslu í hann og þá verður hann bara með betri mönnum í deildinni,“ sagði Óskar Þór að lokum.

Rúnar Ingi Erlingsson.Vísir/Hulda Margrét

Rúnar Ingi: Glaður að ég þurfti ekki að vera í opnunarleiknum á nýja húsinu

Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var gríðarlega ánægður með torsóttan sigur sinna manna.

„Ég er bara virkilega glaður að fara héðan með tvö stig. Þetta var virkilega erfiður leikur og mér fannst ÍA liðið gott. Það var erfitt að eiga við einstaklingsgæðin inni í teig og fjölhæfnina. Svo var Josip sem spilaði ekkert síðast bara virkilega erfiður. Þetta var mikil barátta og við vorum í bölvuðu basli allan leikinn. Fundum smá takt í 3. leikhluta og náðum forystu og gerðum svo nóg í upphafi framlengingar. Þeir gáfust ekkert upp og létu á okkur reyna fram til síðustu sekúndna og ég er guðslifandi feginn að labba hér út með tvö stig,“ sagði Rúnar Ingi.

Stigin tvö voru þau fyrstu sem Njarðvík fær á tímabilinu eftir að þeir höfðu tapað fyrstu tveimur leikjum sínum. Það þýddi mjög mikið fyrir þjálfara liðsins að liðið skyldi vera komið á blað.

„Það er bara risastórt. Líka bara stórt þegar þú veist að þú ert ekki að spila þinn allra besta körfubolta og ert aðeins í einhverju veseni. Við erum að eiga við alls konar tilfinningar og sem betur fer er ég með hóp sem er tilbúinn að leggja á sig endalausa vinnu. Menn eru í þessu til þess að finna lausnir og vilja gera eins vel og hægt er. Að ná í þessi fyrstu tvö stig í svona leik, það eru margar andlegar baráttur og í þessari stemningu hérna í þessu geggjaða íþróttahúsi. Ég er bara glaður að ég þurfti ekki að vera í opnunarleiknum á nýja húsinu ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ sagði Rúnar Ingi og hélt svo áfram,

„Þetta hjálpar okkur klárlega. Það er virkilega mikilvægt inni í klefanum að búa til sjálfstraust. Sóknarlega erum við komnir á allt annan stað en við vorum fyrir nokkrum vikum og nú þurfum við bara aðeins að læsa varnarlega og tengjast betur. Þá getum við farið að raunverulega byggja eitthvað upp.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira