Viðskipti innlent

Höggið á ríkis­sjóð allt að fimm milljarðar

Árni Sæberg skrifar
Flugfélagið Play hætti allri starfsemi í síðustu viku.
Flugfélagið Play hætti allri starfsemi í síðustu viku. Vísir/Vilhelm

Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að áhrif falls Play á ríkissjóð geti numið allt að fimm milljörðum króna á næstu tveimur árum.

Í minnisblaði ráðuneytisins til fjárlaganefndar Alþingis segir að áhrif af gjaldþroti Play á afkomu ríkissjóðs séu metin um einn til tveir milljarðar króna í ár og einn til þrír milljarðar á næsta ári til lækkunar. 

Áhrifin séu vegna sjálfvirkra sveiflujafnara ríkisfjármálanna, það er séu fólgin í þeim tekjumissi sem gjaldþrotið veldur ríkissjóði og auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs og Ábyrgðasjóðs launa. Umfang þessara áhrifa gefi ekki tilefni til frekari og sértækari aðgerða að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 

Í vinnslu sé uppfærsla á forsendum fjárlagafrumvarps ársins 2026 fyrir aðra umræðu frumvarpsins. Sú uppfærsla muni taka mið af uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem sé væntanleg til ráðuneytisins undir lok október. Uppfærð þjóðhagsspá muni meðal annars taka mið af gjaldþroti Play og öðrum breytingum sem orðið hafa frá framlagningu frumvarpsins. 

Rétt sé að geta þess að breytingar sem leiða af uppfærðum forsendum þjóðhagsspár séu að mestu undanþegnar skilyrðum stöðugleikareglu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×