Upp­gjörið: Valur - Njarð­vík 77-80| Njarðvíkursigur í spennutrylli

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Valur-Njarðvík áttust við í Bónus deild kvenna í kvöld
Valur-Njarðvík áttust við í Bónus deild kvenna í kvöld Anton Brink/Vísir

Valur tók á móti Njarðvík í N1 höllinni við Hlíðarenda þegar önnur umferð Bónus deild kvenna hóf göngu sína í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 77-80 Njarðvík í vil.

Njarðvík vann uppkastið en það var heimalið Vals sem byrjaði af krafti og setti tóninn. Valur spilaði mjög vel á meðan Njarðvík virkaði örlítið vankað við þessa frábæru byrjun Vals. Njarðvík tókst að jafna leikinn en frábær endasprettur í leikhlutanum skilaði Val í fjögurra stiga forskoti 26-22.

Valur-Njarðvík Bónus deild kvennaAnton Brink/Vísir

Eftir erfiða byrjun hjá Njarðvík sá maður Njarðvíkurliðið sem maður kannaðist frekar við í öðrum leikhluta. Brittany Dinkins og Danielle Rodriguez komust í betri takt sem skapaði vandræði fyrir Val. Reshawna Stone var frábær í liði Vals og stór ástæða þess að Valur leiddi leikinn í hálfleik 44-40.

Gríðarleg barátta er það sem einkenndi þriðja leikhluta. Njarðvík náði góðri rispu og náði í forskot. Varnarleikur beggja liða var frábær en það voru gestirnir frá Njarðvík sem leiddu eftir þriðja leikhluta 58-62.

Valur-Njarðvík Bónus deild kvennaAnton Brink/Vísir

Það var gríðarleg spenna í fjórða leikhlutanum þar sem bæði lið lögðu allt í sölurnar til þess að sækja sigurinn. Á lokasprettinum var það svo Njarðvík sem stigu upp og sóttu gríðarlega sterkan þriggja stiga sigur 77-80.

Atvik leiksins

Þristur frá Brittany Dinkins sem kemur leiknum í 77-77. Mómentið var með Val en sveiflaðist Njarðvíkurmeginn eftir að Brittany Dinkins negldi niður þessum þrist.

Stjörnur og skúrkar

Hjá Val var Reshawna Stone frábær og skoraði 34 stig, mest allra á vellinum í kvöld.

Hjá Njarðvík var Brittany Dinkins sem oft áður virkilega öflug og var með 30 stig. Danielle Rodriguez kom næst með 22 stig en hún var mjög góð á báðum endum vallarins.

Dómararnir

Dómaratríóið í dag komst bara vel frá sínu fannst mér að mestu. Alltaf eitthvað til að tuða yfir eins og gengur og gerist í þessu sporti. Kristinn Óskarsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson og Federick Alfred U Capellan sáu um flautuna í kvöld.

Stemingin og umgjörð

Mætingin var með fínasta móti. Hefði verið gaman að sjá fleiri andlit í stúkunni en fullt hrós á alla sem lögðu leið sína í N1 höllina í kvöld.

Viðtöl

Einar Árni Jóhannsson þjáflari NjarðvíkurAnton Brink/Vísir

„Gríðarlega ánægður með það hvernig mitt lið kláraði þennan loka kafla“

„Seiglu sigur og sviptingar í þessu sérstaklega í síðari hálfleiknum“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur eftir sigurinn í kvöld.

„Mér leið aldrei vel þó að við hefðum verið komnar þarna 6-7 stigum yfir því þær voru að setja niður stór skot á reglulegum köflum og komu sér aftur í forystu en ég er gríðarlega ánægður með það hvernig mitt lið kláraði þennna loka kafla“

Aðspurður um hvað það hafi verið sem hafi á endanum skilað þessum sigri vildi Einar Árni meina að löngun og vilji hafi spilað stórt hlutverk.

„Ég held að löngun og vilji hafi verið stórt atriði en við erum auðvitað að setja stór skot og náum góðum stoppum á loka kaflanum. Þær voru búnar að gera vel og þá sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna og við náðum í nauðsynleg stopp á loka mínútunum“

Jamil Abiad þjálfari ValsAnton Brink/Vísir

„Gerðum of mikið af mistökum í lokin“

„Það er aldrei gaman að tapa og hvernig við hrynjum hérna í lokin var svekkjandi“ sagði Jamil Abiad þjálfari Vals eftir tapið í kvöld.

„Við spiluðum frábæran leik og stelpurnar voru frábærar í 38-39 mínútur en við gerðum of mikið af mistökum í lokin“

Jamil var svekktur með lokin á leiknum í kvöld.

„Okkur skorti aga sem við vinnum að á æfingum. Við tókum ekki ábyrgð á því að gera það sem var lagt upp með og við gerðum of mikið af mistökum í endan. Gegn svona góðu liði eins og við mættum í kvöld þá er þér refsað“ sagði Jamil Abiad.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira