Körfubolti

Slá hvern annan utan undir fyrir hvern leik á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnarnir fara aðrar leiðir að því að koma sér í gírinn fyrir leik á EM. Aðalmaðurinn í því er Jacob Grandison sem sést hér fyrir miðju.
Finnarnir fara aðrar leiðir að því að koma sér í gírinn fyrir leik á EM. Aðalmaðurinn í því er Jacob Grandison sem sést hér fyrir miðju. FIBA.Basketball

Það hefur verið gaman hjá finnska körfuboltalandliðsinu á Evrópumótinu í körfubolta til þessa en þeir fara aðeins öðruvísi leiðir til að koma sér í gírinn.

Finnar eru á heimavelli í Tampere og eru búnir að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitunum eftir þrjá sigra í fyrstu fjórum leikjum sínum. Það hefur verið frábær stemmning á leikjunum og Finnarnir eru með mjög skemmtilegt lið.

Finnska liðið vann þrjá fyrstu leiki sína á móti Svíum, Bretum og Svartfellingum en urðu síðan að sætta sig við naumt tap á móti öflugum Litháum í leik fjögur.

Kannski voru leikmenn liðsins eitthvað aðeins of æstir í þeim leik eftir afar sérstakan undirbúning rétt áður en þeir hlupu inn í salinn.

Myndband af finnsku leikmönnunum fór nefnilega á flug á netmiðlum. Þar sést þeir slá hvern annan utan undir rétt fyrir leikinn.

Reyndar var það finnski leikmaðurinn Jacob Grandison sem gekk þar á milli manna og sló þá utan undir og þeir slógu hann allir til baka.

Grandison fékk því tólf kinnhesta en allir liðsfélagar hans bara einn.

Grandison er því án efa upphafsmaðurinn af þessu því enginn annar myndi annars vilja ganga í gegnum svona stanslausa skelli á andlitið sitt. Grandison er 27 ára og spilaði síðast með PAOK í Grikklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×